143. löggjafarþing — 95. fundur,  10. apr. 2014.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

511. mál
[23:12]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Þetta er alveg dæmigert fyrir þennan neikvæða spíral sem samskiptin á þingi geta stundum farið í, hér er algjörlega samráðslaust lagt til að henda þessari tillögu inn í allt aðra nefnd en allir áttu von á. Við það eru strax gerðar heiðarlegar og málefnalegar athugasemdir. Við þeim er ekki brugðist og þá gerist þetta.

Ég vil fá að vita hvenær þessi greinargerð liggur fyrir. Hún verður að liggja fyrir áður en við greiðum atkvæði um hvert málið á að fara og þess vegna verður það að liggja fyrir.

Síðan vil ég segja að hér hefur alla þessa viku verið sýnd mikil lipurð, kvöldfundir alla þessa viku án þess að nokkur maður hafi gert athugasemd við það. Ég spyr hér, vitandi vits að væntanlega er ekki von á þessari greinargerð fyrir miðnætti, hvort ætlunin sé virkilega að halda áfram umræðum fram yfir miðnætti þegar við þurfum mörg hver að mæta á fund kl. 8.15 í fyrramálið og eigum eftir að lesa 2 þús. blaðsíður þangað til. (Forseti hringir.)

Hér vorum við í umræðum í allan dag og þessi vinnubrögð eru ekki boðleg.