143. löggjafarþing — 95. fundur,  10. apr. 2014.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

511. mál
[23:15]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég geri ráð fyrir að forseti hafi fylgst með og heyrt þær röksemdir sem færðar hafa verið fram fyrir því að halda ekki öllu lengur áfram með þessa umræðu og/eða gera þá að minnsta kosti hlé og funda með þingflokksformönnum. Það eru allnokkrar og gildar ástæður fyrir því að það er ekki boðlegt fyrir okkur þingmenn að ætla okkur að halda þessu áfram svona, bæði vegna fundarhaldanna í fyrramálið og mikilvægs þingdags sem í hönd fer, að ræða stóru sparisjóðaskýrsluna, og svo þessi ágreiningur sem upp er kominn um vísun málsins.

Ég vil ekki vera með miklar samsæriskenningar en ég get ekki neitað því að á mann leitar auðvitað mjög sterkur grunur um að hér liggi einhvers staðar fremur ófélegur fiskur undir steini þegar ákveðið er upp úr þurru að vísa þessu máli sem flutt er af umhverfis- og auðlindaráðherra ekki í þá þingnefnd sem var með það á síðasta kjörtímabili og ekki í þá nefnd sem tekur almennt við málum umhverfis- og auðlindaráðherra. Þetta er afar sérstök staða og ég veit að þingreyndur forsetinn (Forseti hringir.) sér í hendi sér að það er eðlilegt að við þingmenn gerum verulega alvarlegar athugasemdir við þetta.