143. löggjafarþing — 95. fundur,  10. apr. 2014.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

511. mál
[23:19]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Vegna þess að forseti er sestur á forsetastól vil ég ítreka það sem ég nefndi áðan, það er óhjákvæmilegt að við fáum að sjá fordæmi fyrir því að breytingartillögu við þingmál sem hagað hefur verið með ákveðnum hætti sé vísað til annarrar nefndar en fjallaði um hið upphaflega mál.

Í ljósi þess að um þetta var rætt á síðasta þingi og sú niðurstaða varð að vísa málinu til umhverfisnefndar tek ég vara fyrir því að forseti fari að úrskurða með einhverjum allt öðrum hætti nú en forverar hans hafa gert. Þá þarf að velta fyrir sér hvort forseti ætli að taka upp einhverjar aðrar ákvarðanir forvera sinna að þessu leyti. Þessu var vísað til umhverfisnefndar. Það er eðlilegt að fá þá efnislegan rökstuðning fyrir því að það séu einhver fordæmi fyrir að vísa þessu nú til allt annarrar nefndar. Hér höfum við viljað ræða þetta mál í friði og ró en (Forseti hringir.) ríkisstjórnarmeirihlutinn virðist ekki hafa áhuga á því.