143. löggjafarþing — 95. fundur,  10. apr. 2014.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

511. mál
[23:21]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég þykist vita að hæstv. forseti er maður sátta og skynsemi, hann náði að gera ágætt samkomulag við þingflokksformenn og þingliðið um að hafa aukaþingfundadag á morgun til að ræða mikilvægt málefni. Virðulegur forseti hlýtur að sjá að þar að baki hlýtur einnig að hafa legið ásetningur um að þeir þingmenn sem munu taka þátt í þeirri umræðu, og þeirri vinnu sem óhjákvæmilega fer fram í aðdraganda þess, hefðu tíma til að undirbúa sig fyrir málið.

Nú kemur hins vegar upp sú staða að þingmenn fyllast tortryggni vegna þess að vísa á máli í nefnd sem kannski er ekki hefðbundið í þessu efni. Forseti verður með einhverju móti að ræða það þá við þingflokksformenn að fresta fundi og með hvaða hætti eigi að halda áfram með málið.