143. löggjafarþing — 95. fundur,  10. apr. 2014.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

511. mál
[23:33]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Nú kom það fram í umræðunni, þegar þessi tillaga kom frá Orkustofnun, að ráðherra sagðist vera hissa á ýmsum þeim tillögum sem þar væru lagðar fram. Við erum að fjalla um tillögu þar sem ráðherra kemur, með samþykkt verkefnisstjórnar, inn í þingið og stingur upp á að Hvammsvirkjun, að undangenginni athugun, verði færð úr biðflokki, sem hún var sett í til þess að skoða ákveðna þætti, og sett í nýtingarflokk. En það fylgir því, kemur fram á bls. 4 í þessari þingsályktunartillögu, að afmarkað verkefni er sent til verkefnisstjórnar og þar eru miklu fleiri möguleikar. Það er ráðherra sem tekur í raun ákvörðun um að óska eftir því að þessir kostir verði skoðaðir. Þá spyr maður sjálfan sig: Af hverju var það ekki með sama hætti sem hæstv. ráðherra sagði Orkustofnun fyrir verkum hvað það varðar hvernig maður hegðar sér gagnvart rammaáætlun? Það virðist vera svo einbeittur brotavilji að reyna að henda því fyrirkomulagi sem var verið að reyna að koma á.

Mig langar einmitt að spyrja hv. þm. Katrínu Jakobsdóttur: Hefði ekki verið nær að fara með þetta í umhverfis- og samgöngunefnd, reyna að leysa þetta mál, jafnvel bara nákvæmlega eins og verkefnisstjórnin leggur það fyrir, þ.e. leyfa þinginu að ákveða þetta, þarna er búið að fylgja formlegu ferli, og í beinu framhaldi að ræða stöðu rammaáætlunar út frá þeim túlkunum sem við höfum séð á þessu fyrsta ári, draga fram markmiðin með henni og reyna að skerpa ákvæðin þannig að menn séu ekki að leika sér að því að reyna að eyðileggja hana? Ég hef skilið það þannig í gegnum árin að menn hafi þörf fyrir að eignast sameiginlegt verkfæri til þess að reyna að leiða ágreining um umhverfismál, nýtingu, verndun, í einhvern skynsamlegan farveg.