143. löggjafarþing — 95. fundur,  10. apr. 2014.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

511. mál
[23:37]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég tek undir það með hv. þingmanni að það skiptir mjög miklu máli að fylgja ferlinu og reyna að búa til traust í kringum það allt saman. Það var einmitt gert á síðasta kjörtímabili en var hins vegar gert tortryggilegt og kallað „pólitísk fingraför“ og guð má vita hvað í þessum sal. Það sem við gerðum var að taka aðeins atriði sem verkefnisstjórnin hafði ekki fjallað um og skoða þau sérstaklega.

Samkvæmt ferlinu er ekki ætlast til þess að stjórnmálamenn segi: Heyrðu, við ætlum að virkja þetta, þetta eru nægilega góðar upplýsingar en ekki hinar — heldur voru upplýsingar sem þurfti að skoða nánar og þess vegna var málið sett í þetta ferli. Nýju upplýsingarnar sem komu vegna virkjunarkostanna þriggja í neðri hluta Þjórsár voru áhrif virkjananna á laxfiska. Það komu engar aðrar nýjar upplýsingar. Þess vegna héldum við okkur við laxfiska. Heildarmyndin var að öðru leyti metin af faghópunum.

Skildi ég hv. þingmann ekki rétt þegar mér fannst hún segja í ræðu sinni að það hefði mátt útvíkka þetta og taka samfélagslegu víddina inn, en af því við vorum trú ferlinu komu nýja upplýsingar um laxfiskana og þess vegna er bara verið að meta þá?