143. löggjafarþing — 95. fundur,  10. apr. 2014.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

511. mál
[23:43]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er alveg rétt að allt var gert til að láta niðurstöðu rammaáætlunar vera tortryggilega hér á síðasta kjörtímabili, meira að segja svo að ýmsir fóru með rangfærslur og héldu því til að mynda fram að Norðlingaölduveita hefði verið færð af pólitíkusum yfir í verndarflokk þegar það var í raun og veru tillaga verkefnisstjórnar. Ég heyrði ófáa hv. þingmenn halda því ranglega fram og þegar þeir voru leiðréttir varð fátt um svör.

Síðan mátti oft heyra þá algengu rangfærslu að virkjanir í neðri hluta Þjórsár hefðu verið færðar yfir í biðflokk af annarlegum sjónarmiðum þegar fyrir liggur í lögunum að gefið er ákveðið umsagnarferli. Til hvers erum við að gefa eitthvert umsagnarferli ef við ætlum ekki að hlusta á neitt sem kemur þar fram? Það er auðvitað lenska hjá sumum stjórnmálamönnum að hlusta aldrei á neinar skoðanir sem koma fram í umsagnarferlum. En ef við meinum eitthvað með því að hafa eitthvert umsagnarferli í svona lögum þá augljóslega hlustum við á þær skoðanir sem þar koma fram. Þar komu fram kröfur um auknar rannsóknir á laxastofninum. Það er það sem ég hefði talið að hv. umhverfis- og samgöngunefnd þyrfti að skoða núna sérstaklega, þ.e. hvort við metum þau rök fullnægjandi sem hér eru lögð fram fyrir því að leggja til að þessi virkjunarkostur færist í nýtingarflokk, hvort við metum rökin varðandi laxfiskinn fullnægjandi.

Vissulega var mjög margt gert til að gera þetta allt saman tortryggilegt í pólitískum tilgangi. Það er ekki gott. Ég hef enga lausn á því nema auðvitað að hér verði hlustað á þau málefnalegu rök sem hafa verið færð fyrir því að færa þetta mál til hv. umhverfis- og samgöngunefndar. Ég hef ekki orðið vör við það enn að það sé hlustað, en það er aldrei að vita nema dropinn holi steininn í þeim málum. Það væri langtum eðlilegasti prósessinn, og þá gætum við farið yfir þetta mál sem umhverfismál, sem það er. Það að búið sé að ákveða það fyrir fram að þetta sé atvinnumál sýnir auðvitað mjög eindregna pólitíska skoðun sem birtist í þeirri tillögu.