143. löggjafarþing — 95. fundur,  10. apr. 2014.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

511. mál
[23:47]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Ég get út af fyrir sig tekið undir með síðasta hv. ræðumanni en vil taka það fram hér að ef ætlun forseta er að ljúka umræðunni í nótt, sem ég tel algerlega fráleit vinnubrögð, og taka væntanlega í upphafi þingfundar á morgun upp atkvæðagreiðslu um það hvert eigi að vísa málinu þá vil ég að það liggi fyrir að ég óska eftir því að sú atkvæðagreiðsla fari fram með nafnakalli ef það er skipulagið sem hæstv. forseti vill hafa á þinghaldinu. Best þætti mér þó ef menn létu hér nótt sem nemur og hefðu framhald þessarar umræðu þegar eðlilegt má teljast.

Að öðru leyti verð ég að vekja athygli forseta á því að önnur ástæða til þess að þingflokksformenn fundi með forseta er þverpólitísk andstaða allra fulltrúa í stjórnkerfis- og eftirlitsnefnd við því að umræða um sparisjóðaskýrsluna fari yfir höfuð fram í þinginu á morgun. Að því áliti standa fulltrúar allra flokka í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd, þar á meðal þingflokksformaður (Forseti hringir.) annars stjórnarflokksins. Það hlýtur auðvitað (Forseti hringir.) með öðru að kalla á að forseti setjist niður með þingflokksformönnum og geri grein fyrir því hvernig hann sjái framhald þinghaldsins fyrir sér áður en dymbilvika hefst.