143. löggjafarþing — 95. fundur,  10. apr. 2014.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

511. mál
[23:58]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg):

Herra forseti. Það er sorglegt til þess að hugsa að hér á miðnætti skulum við vera að ræða umhverfismál á forsendum einhvers allt annars en forsendum umhverfismála. Við höfum velt því fyrir okkur meira og minna í allt kvöld hvaða furðu það sætir að mál sem allir eru sammála um að heyri undir hv. umhverfis- og samgöngunefnd skuli vera á leiðinni til hv. atvinnuveganefndar, sem ætti í besta falli að vera einhvers konar umsagnaraðili í málinu að beiðni hv. umhverfis- og samgöngunefndar.

Nokkrir þingmenn hafa komið inn á það í kvöld að þeir töldu, þegar rammaáætlun var samþykkt, að nú væri loksins komin einhvers konar sátt í málin, nú væri komið einhvers konar verkferli sem menn gætu unnið eftir til framtíðar. Ég man það ágætlega þegar ég sat hér í þingsal og greiddi atkvæði með rammaáætlun í fyrra að jafnframt því að vera nokkuð stoltur yfir því að geta tekið þátt í afgreiðslu þess máls fannst mér ansi súrt í broti að rammaáætlun sem við samþykktum var ekki nákvæmlega sú rammaáætlun sem ég vildi. Hún var það ekki. Þar voru inni virkjunarkostir sem ég hafði ekki nokkurn einasta áhuga á að væru virkjunarkostir, kostir sem ég taldi einsýnt að væri ekkert vit í öðru en að hafa í verndarflokki. En við vorum að stíga sögulegt skref og þess vegna trúði ég því að menn, í ljósi þess að þeir náðu þessari lendingu, mundu halda sig við hana og halda við þá sátt sem náðist.

En nú leggur hæstv. ráðherra — ég veit ekki hvað á að kalla hann, líklega sjávarútvegs- og atvinnuvegaráðherra eða sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra — fram tillögu um atvinnuvegamál. Það sem hæstv. ráðherra gefur í skyn með því er að hann vilji líta á þetta mál sem þannig mál fyrst og síðast. Hvað á maður þá að halda? Er hæstv. ráðherra að sýna á spilin með því að gefa í skyn við hv. þingmenn að kannski geti verið eitthvað fleira þarna á bak við, það sé engin tilviljun að málinu sé vísað til atvinnuveganefndar en ekki til umhverfis- og samgöngunefndar? Það eru kannski lítilþægari þingmenn í atvinnuveganefnd en í umhverfis- og samgöngunefnd, ég veit það ekki. Eða kannski lítilþægari stjórn á nefndinni. Maður veltir því fyrir sér.

Hv. þm. Lilja Rafney Magnúsdóttir kom hér upp áðan og lýsti því yfir að hún hefði ekki nokkurn einasta áhuga á að fá þetta mál inn í atvinnuveganefnd. Hvað er þá undir? Hvað eru menn að pæla, eins og einhvern tíma hefði verið sagt? Það læðist að manni sá grunur að á vinnslustigi málsins í hv. þingnefnd eigi að læða inn fleiri kostum. Það hlýtur að vera það sem hæstv. ráðherra vonast til að verði gert og er jafnvel það sem hæstv. ráðherra er búinn að leggja upp með gagnvart sínum trúnaðarmönnum í nefndinni. Sé svo þá er rammaáætlun öll í algerri upplausn. Þá skal það vera algerlega á ábyrgð hæstv. ráðherra að hafa klúðrað þessu máli gersamlega, líkt og hann reyndi af fullri einurð að klúðra náttúruverndarmálinu. En það var fyrir góðan vilja samflokksmanns hæstv. ráðherra, hv. þm. Höskuldar Þórhallssonar, og annarra hv. þingmanna í umhverfis- og samgöngunefnd að það tókst að bjarga því máli í horn.

Við skulum aðeins rifja upp hver rök hæstv. ráðherra voru fyrir því að afturkalla náttúruverndarlög. Hæstv. ráðherra bar fyrir sig almannarétt. Ég get upplýst hv. þingheim um það að þegar við ræddum þessi mál í hv. þingnefnd síðastliðið vor var tekið tillit til nánast allra sjónarmiða sem sneru að almannarétti. Nefndin lagði sig í sérstakan líma við að auka og bæta almannaréttinn frá þeim lögum sem við vorum að breyta, þ.e. lögunum frá 1999. Nú kemur hins vegar ráðherrann með mál sem lætur ósköp lítið yfir sér, það er ekki það. Tillögutextinn sjálfur er ein málsgrein, tveir, þrír málsliðir. Það er bara verið að flytja eina virkjun úr biðflokki yfir í nýtingarflokk. Við fyrstu sýn gæti þetta litið út fyrir að vera afskaplega smátt mál og kannski dálítið vænisjúkt af stjórnarandstöðunni að velta því fyrir sér hvað sé hér á ferðinni. En það er hæstv. ráðherra sem kastar stríðshanskanum. Hæstv. ráðherra velur að vísa málinu til atvinnuveganefndar og því miður hefur hæstv. forseti valið að taka undir þann hráskinnaleik með hæstv. ráðherra. Í hvaða tilgangi er mér algerlega fyrirmunað að skilja. Líklega er það í þeim tilgangi, ég ítreka það, líklega er það til að komast hjá því að málið verði skoðað sem umhverfismál, hverfa aftur til þeirrar forneskju að það að spilla íslenskri náttúru, hafa áhrif á hana til langframa og varanlega sé bara eins og hvert annað atvinnumál, ekki mikið merkilegra en að kaupa einn togara. En þetta er miklu stærra mál, kannski ekki það litla mál sem fjallað er um í tillögutextanum heldur andblærinn sem fylgir. Það er verið að myndast við að snúa umhverfisumræðunni í landinu á haus.

Ég vil miklu frekar líta svo á að vernd virkjunarkosta, vernd á náttúruauðlindum, sé atvinnumál og til lengri tíma litið líklega miklu mikilvægara atvinnumál fyrir þessa þjóð en það hvort menn velji að tína einn og einn kost út úr verndaráætlun yfir í nýtingu.