143. löggjafarþing — 95. fundur,  11. apr. 2014.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

511. mál
[00:13]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er athyglisvert að skoða greinargerð verkefnisstjórnar um rammaáætlunina sem fylgir þessari tillögu. Þar stendur í inngangi, með leyfi hæstv. forseta:

„Þingsályktun um áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða var samþykkt á Alþingi 14. janúar 2013. Þar með lauk 2. áfanga hinnar svokölluðu rammaáætlunar (áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða, sbr. lög nr. 48/2011).

Ný verkefnisstjórn áætlunar um vernd og orkunýtingu landsvæða var skipuð 25. mars 2013. Þar með hófst 3. áfangi áætlunarinnar. Í erindisbréfi verkefnisstjórnar kemur fram að verkefnisstjórn skuli „hafa til hliðsjónar ábendingar sem koma fram í nefndaráliti meiri hluta umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis á 141. löggjafarþingi um rammaáætlun …“ og að verkefnisstjórn skuli „skila áfangaskýrslu um stöðu mála fyrir 1. mars 2014“. Þar skuli „gera grein fyrir þeim svæðum sem tilgreind eru sérstaklega í 12. kafla álits meiri hluta umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis“.“

Þar kemur svo fram að það eigi að fara yfir ákveðna hluti sem voru settir í biðflokk í lok 2. áfanga, þ.e. Urriðafoss-, Holta- og Hvammsvirkjun í neðri hluta Þjórsár, Skrokkölduvirkjun, Hágönguvirkjun I og II. Hérna er verkefnisstjórnin aðeins búin að afgreiða eina tillögu sem er Hvammsvirkjun og færir rök fyrir því af hverju hún hafi ekki lokið vinnunni varðandi Holtavirkjun og Urriðafossvirkjun.

Mig langar að heyra álit hv. þingmanns á því að verkefnisstjórnin hafi ekki látið segja sér að taka allt upp á borðið upp á nýtt heldur fylgt þeirri samþykkt sem kom frá Alþingi. Er það ekki (Forseti hringir.) einmitt fordæmi um það með hvaða hætti ætti að vinna þetta (Forseti hringir.) samkvæmt rammaáætlun?