143. löggjafarþing — 95. fundur,  11. apr. 2014.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

511. mál
[00:27]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Við fjöllum hér um þingsályktunartillögu um áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða og breytingu þar sem verið er að tala um að færa Hvammsvirkjun úr biðflokki í orkunýtingarflokk. Mig langar, það fer að styttast í þessari umræðu í kvöld, að drepa niður í áhugaverðri umsögn sem Ingibjörg Elsa Björnsdóttir umhverfisfræðingur á Selfossi lagði fram um tillögu verkefnisstjórnar um flokkun virkjunarkosta. Þessi umsögn fjallar um tillögu verkefnisstjórnar þess efnis að færa fyrirhugaða Hvammsvirkjun í Þjórsá úr biðflokki í nýtingarflokk. Hún fjallar um áhrif virkjunarinnar á laxfiska og helstu umhverfisáhrif Hvammsvirkjunar. Ég ætla að taka nokkra áhugaverða punkta sem komu fram í umsögn hennar sem mér finnst mjög áhugaverðir í þessu samhengi.

Hér segir:

„Öll uppistöðulón safna seti og framburði. Þau fyllast með tímanum. Þetta hefur orðið til þess að sumir fræðimenn halda því fram að vatnsaflsvirkjanir séu alls ekki sjálfbærar. Einnig er hugsanlegt að þungmálmar eins og kadmíum safnist upp í seti í uppistöðulónum og hafi síðan neikvæð áhrif á vatnsfallið ef vatni og gruggi er hleypt úr lóninu. Þetta hefur lítið verið skoðað hérlendis.“

Svo fjallar hún um áhrif á landslag og landslagsgerðir:

„Bygging stíflumannvirkja getur haft gríðarleg áhrif á landslag vatnasviða og breytt gerð árfarvega sem getur haft áhrif á allan vatnabúskap árinnar. Landnotkun getur breyst umtalsvert, ræktarland getur farið undir lón, bakkar árinnar geta rofist, tún geta horfið og þannig geta orðið víðtæk áhrif neðan stíflu ekki síður en ofar þar sem uppistöðulónið er.“

Hún fjallar um áhrif stíflu á lífríkið. Þar kemur fram:

„Vatnsaflsvirkjanir með uppistöðulónum valda alltaf áhrifum á umhverfi sitt bæði ofan stíflu og fyrir neðan. Ofan stíflunnar er vatni safnað í miðlunarlón og því síðan miðlað í viðkomandi aflstöð. Rennsli þar fyrir neðan jafnast og náttúrulegar breytingar á vatnsstöðu hverfa.

Eðli málsins samkvæmt er lítill sem enginn straumur í miðlunarlónum, en vatnsmagn í þeim breytilegt á milli árstíða eða dægra eftir eðli þeirra. Í skýrslu Skúla Skúlasonar og fleiri er vísað til þess að virkjunin hafi fyrst og fremst áhrif á svæði utan náttúrulegs útbreiðslusvæðis göngufiska. Þó er á það bent í skýrslunni að á svæði fyrir neðan stífluna fyrir ofan fossinn Búða er um helmingur af útbreiðslu laxa í Þjórsárkerfinu og það svæði muni skerðast um nær 70%. Því má reikna með að um það bil 30% af útbreiðslusvæði laxa í kerfinu verði skert með þessari virkjun einni. Þá er einnig tekið fram að áhrif á aðra fiskstofna yrðu talsverð.

Fram kemur einnig í skýrslu Skúla Skúlasonar og fleiri að meðal mótvægisaðgerða verði seiðafleyta. Jafnframt eru látnar í ljósi verulegar efasemdir um gagnsemi hennar þar sem þetta yrði í fyrsta skipti sem slík tækni væri notuð.

Ekki koma fram áhrif stíflunnar á vatnshita, sýrustig og rými með tilliti til áhrifa á lífríki. Slíkar breytingar geta breytt hegðunarmynstri seiða þannig að þau ganga niður á röngum tíma, þannig að meiri afföll verða.

Af ofangreindu má sjá að áhrif Hvammsvirkjunar á laxastofna verða umtalsverð.“

Í lokin fjallar Ingibjörg Elsa Björnsdóttir umhverfisfræðingur á Selfossi um niðurstöðu um umhverfisáhrif Hvammsvirkjunar og rökstuðning fyrir því af hverju ekki skal setja Hvammsvirkjun í nýtingarflokk:

„Hvammsvirkjun hefur eins og allar aðrar stórar vatnsaflsvirkjanir umtalsverð óafturkræf áhrif á allt umhverfi sitt. Hún gjörbyltir vatnsbúskap (hydrological regime) alls vatnasviðs neðri hluta Þjórsár og veldur hættu á jarðhræringum, þar sem til stendur að byggja virkjunina á flekaskilum. Virkjunin er sú fyrsta í röð þriggja virkjana í neðri hluta Þjórsár, og verði farið í Hvammsvirkjun aukast líkur á því að farið verði í fleiri virkjanir í neðri hluta Þjórsár.

Virkjunin hefur umtalsverð áhrif á lífríki, laxastofna, vatnsgæði og landslag. Langtímaáhrif eiga sennilega eftir að verða meiri og önnur en menn sjá fyrir sér í dag. Það er óásættanlegt að gera slíka fyrirhyggjulausa tilraun, bæði jarðfræðilega og líffræðilega, úti í náttúrunni með byggingu Hvammsvirkjunar eins og stendur til með þeirri tillögu sem hér er lögð fram af hálfu verkefnisstjórnar.“

Hún leggur til að fallið verði frá þeirri ætlan að setja Hvammsvirkjun í nýtingarflokk þar sem enn sé margt á huldu um hugsanlega hættu á jarðhræringum og einnig lítið vitað um möguleg langtímaáhrif virkjunarinnar.

Mér finnst þessi umsögn mjög áhrifarík. Það hefur svolítið komið fram, finnst mér, í máli sumra þingmanna sem hafa fjallað um þetta mál að þeir séu búnir að mynda sér þá skoðun að rétt sé að fallast á þá tillögu sem kemur hér fram, tillögu verkefnisstjórnar um að færa Hvammsvirkjun úr biðflokki í orkunýtingarflokk. Mér finnst rökin sem dregin eru fram í umsögninni, þar sem ég stiklaði á stóru og fór alls ekki yfir alla þætti, sýna að fólk þurfi virkilega þegar málið er komið til nefndar að kynna sér hvað þar liggur að baki. Þetta er ekki einfalt og ekki eins og þetta sé skárri kostur, að virkja þarna til þess að hlífa neðri hluta Þjórsár, en aðrir þeir kostir sem hafa verið undir varðandi virkjun neðri hluta Þjórsár. Ég tel fullt tilefni til að gaumgæfa vandlega það sem kemur fram þarna. Vissulega eiga eftir að koma til þeirrar nefndar sem málið fer til fjöldi umsagna sem verða til umfjöllunar og þarf að skoða ítarlega.

Ég vil í lokin lýsa mikilli undrun yfir því að hæstv. umhverfisráðherra ætli að vísa málinu til atvinnuveganefndar. Ég tel að verksvið atvinnuveganefndar sé allt annað en að fjalla um þessa þingsályktunartillögu. Með fullri virðingu fyrir okkur sem sitjum í þeirri nefnd höfum við ekki verið að fjalla um þennan málaflokk sem slíkan og þess vegna hefur ekki byggst upp sú þekking sem er til staðar í dag í umhverfis- og samgöngunefnd, sem hefur verið með þetta mál til umfjöllunar á síðasta kjörtímabili og í vetur og átti ekki von á öðru en að fá það til umfjöllunar og menn bjuggu sig undir það. Þess vegna kemur það eins og köld vatnsgusa framan í þá nefndarmenn sem sitja í umhverfis- og samgöngunefnd að fá málið ekki til umfjöllunar. Ég get kannski sagt á móti að það kemur eins og köld vatnsgusa framan í mig að það séum við í hv. atvinnuveganefnd sem eigum að fara að setja okkur inn í þetta flókna mál. Þó að þetta sé einföld tillaga er það sem (Forseti hringir.) að baki býr mjög flókið.