143. löggjafarþing — 96. fundur,  11. apr. 2014.

skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis um rannsókn á aðdraganda og orsökum erfiðleika og falls sparisjóðanna.

[12:46]
Horfa

Frosti Sigurjónsson (F):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér um skýrslu rannsóknarnefndar um aðdraganda og orsakir erfiðleika og falls sparisjóðanna. Það litla sem ég hef náð að lesa af skýrslunni er mjög vandað og faglega unnið. Það er mjög fróðlegt.

Skýrslan virðist varpa ljósi á gallaða lagaumgjörð og óskilvirkt eftirlit með sparisjóðunum eins og öðrum lánastofnunum. Sjálfur grundvöllurinn reyndist veikur og bauð hættunni heim. Umhverfi sparisjóða skapaði freistnivanda og mannlegur breyskleiki, e.t.v. ofurkapp, sá til þess að svo fór sem fór.

Margir sparisjóðir, vissulega ekki allir, virtust fjarlægjast tilgang sinn sem er að ávaxta sparnað og lána fé til uppbyggingar í nærumhverfi sínu. Sparisjóðir fóru að lána út fyrir svæði sitt, þeir gerðust fjárfestingarbankar með hámörkun gróða að markmiði. Þeir fóru að lána gengislán til aðila sem höfðu ekki greiðsluhæfi í gjaldmiðlum o.s.frv. Það eru vissulega svipaðar gryfjur og viðskiptabankarnir féllu í.

Sérstakur freistnivandi hjá sparisjóðunum fólst í því að eigendur stofnbréfa gátu ráðskast með varasjóðina, sem voru gildir, og eigendur stofnbréfa voru varðir gegn tapi en nutu arðs þegar vel gekk. Það hvatti til mikillar áhættusækni.

Það má því vel vera að löggjöfin hafi boðið þessari hættu heim og hugsanlega byrjaði það með ógætilegri innleiðingu á EES-löggjöf árið 1993. Þá nýtti löggjafinn ekki það svigrúm sem bauðst til að tryggja varúðarsjónarmið og fjármálalegan stöðugleika. Heimildir sparisjóða voru rýmkaðar allverulega. Þeim var gefin heimild til að fjárfesta í ótengdum atvinnurekstri. Þeim var gefin heimild til að lána til stjórnenda sinna. Heimildir voru auknar til að kaupa fasteignir og fasteignafélög. Það var opnað á útlán til kaupa á stofnfjárhlutum. Verðbréfaviðskipti voru leyfð í sparisjóðum en fram að því höfðu slík viðskipti þurft að vera í dótturfélögum. Þarna var þessu hrært saman undir einni kennitölu, sparisjóðum varð heimilt að reka vátryggingafélag undir einni kennitölu. Sparisjóðum varð heimilt að reka vátryggingafélag í dótturfélagi.

Auknar voru heimildir til að fara með eignarhlut í öðrum lánastofnunum sem jók kerfisáhættu. Arðgreiðslur af stofnfé voru rýmkaðar og síðan árið 2004 var leyft að færa óskráð bréf á gangverði í stað kaupverðs samkvæmt Evróputilskipun sem leiddi til þess að sparisjóðir gátu sýnt sterkara eigið fé og veitt meiri lán.

Svo hafði enginn, samkvæmt lögum, eftirlit með arðgreiðslum sparisjóða. Svo virtist sem þeir gætu greitt út arð þótt það væri tap á rekstrinum. Þetta var allt mjög slæmt.

Það virðist hafa vantað miðlægt eftirlit með stöðu þessara fjármálafyrirtækja og áhrifum þeirra innan fjármálakerfisins. Þrátt fyrir að eftirlit hefði verið stóraukið náði það aldrei að tryggja traustan rekstur þessara eininga sem höfðu fengið stórauknar heimildir út fyrir sitt upprunalega svið. Hvatarnir voru rangir, freistingin of mikil og kappið sömuleiðis.

Ég vil aðeins víkja að peningavaldinu og hlutverki sparisjóða við að skapa peninga. Á bls. 49 í skýrslunni er því lýst hvert meginhlutverk sparisjóða hafi verið, svipað og viðskiptabanka, en það er töluvert einfaldað. Það er sagt að þeir hafi bara tekið við innlánum og lánað þau út. Þá gleymist að geta þess að sparisjóðir, eins og viðskiptabankar, höfðu peningavald, þ.e. vald til að búa til nýja peninga í formi innstæðna þegar þeir veittu lán.

Sparisjóðir bjuggu þannig til á fimm árum, árin 2003–2008, mörg hundruð milljarða. En hvað varð síðan sparisjóðunum að falli? Allt hafði gengið vel í rúm 100 ár, hugsanlega 150 ár, alveg til ársins 1995. Hugsanlega í kjölfar þess að ýmsum mikilvægum hömlum var aflétt og heimildir sparisjóða rýmkaðar verulega fara tengsl sparisjóðanna við nærsamfélagið að rofna, a.m.k. sumra sparisjóða, og þeir fóru að haga sér eins og fjárfestingarbankar. Útlán þeirra fimmfölduðust á örfáum árum, fóru úr 100 milljörðum í 500 milljarða, að vísu stóðu aðallega stóru sparisjóðirnir í þessu. Gæði lántakenda versnuðu hratt eins og gerist oft þegar útlán eru aukin mjög hratt. Með tímanum fara menn að freistast til að lána gegn lakari veðum og til ótraustari aðila. Veðhlutföll hækkuðu og urðu jafnvel 100% í þeim tilfellum sem verið var að lána til hlutabréfakaupa eða kaupa í stofnfjárbréfum.

Þeir lánuðu mikið til húsnæðiskaupa en þau lán reyndust traustust þegar upp var staðið og þar urðu ekki mikil töp. En svo voru útlán til alls konar fjármálagerninga, lán til kaupa á stofnbréfum og lán til tengdra aðila. Það var í þeirri lánastarfsemi sem mest tapaðist.

Maður tekur eftir því að sú lánastarfsemi sem sneri raunverulega að atvinnulífinu, t.d. afurða- og rekstrarlán eða lán til nýrra framkvæmda í nærumhverfinu, varð alltaf minni og minni hlutur af umsvifum sparisjóðanna.

Maður fer að velta fyrir sér til hvaða verkefna þessir nýju peningar sem sparisjóðirnir voru að búa til með útlánum sínum hafi runnið. Í sívaxandi mæli til kaupa á fjármálagerningum, stofnbréfum, hlutabréfum og fjárfestingarfélögum, og þau sköpuðu engin verðmæti í reynd heldur voru bara að blása upp þessa bólu sem reyndist að sjálfsögðu innantóm og verðlaus. Og alltaf rann bara lítill hlutur til að fjármagna raunhagkerfið. Niðurstaðan af þessu hlýtur að vera sú að menn þurfa að velta fyrir sér þessu peningavaldi. Er hægt að varðveita það einhvern veginn betur? Er yfirleitt hægt að treysta einkareknum stofnunum eða sameignarstofnunum eins og sparisjóðum fyrir peningavaldinu? Peningavaldið skiptist í tvo þætti, ákvörðun um það hvort eigi að auka peningamagn í landinu með því að veita lán og síðan hver eigi að fá þetta nýja peningamagn.

Það eru komnar fram kenningar um að það sé mikilvægt að skipta þessu valdi upp. Í dag er það á einni hendi. Hvort sem við lítum til sparisjóða eða viðskiptabanka er það útlánasvið bankanna sem hefur báða ákvörðunarþættina á sinni könnu, þ.e. ákvörðun um hvort auka skuli peningamagn í landinu og hver fái nýtt peningamagn til ráðstöfunar. Í þessu felst mikil spillingarhætta, lánastjórar geta verið undir mikilli pressu frá eigendum bankanna um að lána sérstökum tengdum aðilum peninga sem síðar eru hugsanlega ekki vel tryggðir og fara til hluta sem eru ekki skynsamlegir.

Margir tala fyrir því að betur færi á því að peningavaldið yrði tekið af lánastofnunum og aðeins Seðlabankinn hefði ákvörðunarvald um hvort peningamagn í landinu yrði aukið. Ákveðin peningamagnsnefnd færi með það vald og þegar setja þyrfti nýja peninga í umferð, ef það er vöntun á nýju peningamagni, tæki ekki Seðlabankinn ákvörðun um hver fengi þessa nýju peninga heldur væri það ákveðið á fjárlögum af lýðræðislega kjörnu þingi. Þá mætti segja að ef hægri menn væru við völd mundu þeir vilja lækka skuldir ríkissjóðs eða lækka skatta en ef það væru vinstri menn mundu þeir vilja auka útgjöld ríkissjóðs eða samfélagslega þjónustu. Það væri bara ákveðið lýðræðislega. Eins og staðan er núna eru það útlánastjórar bankanna sem taka ákvarðanir um þetta. Það er mikil hætta á því að þeir láni þetta nýja peningamagn til rangra hluta og það auki bólur en skapi ekki raunveruleg verðmæti, renni ekki til sameiginlegra þarfa samfélagsins.

Það er sama hvað við setjum mörg og ströng lög til að hafa eftirlit með peningavaldinu, á meðan peningavaldið er á einni hendi, bæði magnið og ráðstöfunarvaldið, og það hjá einkareknum fyrirtækjum mun eftirlitið með þessu valdi aldrei hafa undan. Þeir sem hafa þetta peningavald og vilja fara illa með það verða alltaf slyngari, einu skrefi á undan, geta alltaf keypt dýrari lögfræðinga og dulið slóð sína.

Nóg um það að sinni.

Það sem mér fannst vanta í skýrsluna eða hef að minnsta kosti ekki fundið er það sem kemur fram í 5. lið í skipunarbréfinu, með leyfi forseta:

„Koma með ábendingar og tillögur að breytingum á lögum, reglum, vinnubrögðum og skipulagi opinberrar stjórnsýslu sem miða að því að gera sparisjóðum kleift að starfa á þeim samfélagslegu og rekstrarlegu forsendum sem þeir voru stofnaðir á.“

Ég hef ekki enn fundið neinn kafla í skýrslunni þar sem brugðist er við þessum fyrirmælum. Það er ekki á neinum einum stað. Ég hef kallað eftir þessu en það er eins og maður þurfi að tína þetta héðan og þaðan úr þessari stóru 2 þús. blaðsíðna skýrslu. Það hefði farið betur á því að þetta hefði verið tekið saman.

Er búið að gera nóg í lagasetningu um sparisjóðakerfið frá hruni? Er búið að byrgja brunninn? Þessu er kannski ekki svarað á einum stað. Er stjórnsýslan og eftirlitið í réttu lagi núna eða er kannski einhver háski á ferðinni?

Hvað getum við lært af þessari skýrslu almennt um rannsóknarskýrslur? Þessi 2 þús. blaðsíðna skýrsla er gríðarlega fróðleg og vönduð. Ég hef að vísu bara haft sólarhring til að kynna mér hana. Nefndin sem skrifaði hana átti að skila á miðju ári 2012 en hefur tekið sér lengri tíma og verkið hefur kostað meira, 42 mannár segja menn, 14 millj. kr. hvert mannár, 600 milljónir.

Hvað lærum við af þessu? Er hægt að skilgreina svona verkefni betur, er hægt að hafa skilgreininguna markvissari? Er hægt að hafa betra eftirlit með því á verktímanum, einhvers konar aðhald? Þarf ekki að setja þak á kostnaðinn? Hefðum við fengið miklu lakari skýrslu fyrir 200 milljónir? Hvað hefðum við getað gert með hinar 400 fyrir fólkið í landinu?

Ég hef á tilfinningunni að það sé mjög fróðlegt að saga sparisjóðanna sé rakin aftur til 1858 og ég skemmti mér konunglega við að lesa þetta en ég er ekki viss um að það hafi þurft að fara 150 ár aftur í tímann. Kannski var nóg að fara 30 ár aftur í tímann. Kannski þurfti ekki að rekja alla hlutina jafn ítarlega og gert er. Vissulega er þetta fróðlegt og vandað, ekki síst fyrir þingmenn sem vinna að lagasetningu. Ég mun lesa skýrsluna alveg spjaldanna á milli og fyrir allan peninginn, en þetta finnst mér ansi mikið, 600 milljónir. Skýrslan svarar mörgum spurningum en hún vekur líka aðrar spurningar: Ef höfundar telja 21 mál saknæmt, eru þá ekki hundruð mála á gráu svæði, ámælisverð, lögleg en siðlaus tilvik? Höfum við virkilega byrgt brunninn? Er regluverk og eftirlit fjármálafyrirtækja öruggt? Getum við treyst því regluverki sem hingað berst frá EES eða þurfum við að skoða það miklu betur út frá okkar sérstöku aðstæðum?

Þurfum við ekki að móta stefnu á nýjum ramma um sparisjóði svo þeir geti sinnt hlutverki sínu til uppbyggingar atvinnulífi og nýsköpun í smærri samfélögum? Getum við hugsanlega lært þar af Þjóðverjum sem hafa náð góðum árangri? Ég veit að þeir hafa áhuga á að breiða út um heiminn þekkingu sína á rekstri sparisjóða. Er ekki peningavaldið enn á víðavangi hér á landi eins og annars staðar? Eru bankar og sparisjóðir ekki enn í þeirri aðstöðu að geta skapað peninga að vild og veitt þá til þeirra verkefna sem þeim hugnast best, oft hluta sem skapa engan hagvöxt?

Virðulegi forseti. Sparisjóðir hafa í rúm 150 ár verið í lykilhlutverki við uppbyggingu atvinnulífs á sínum svæðum og þeir sparisjóðir sem héldu sig við það verkefni hafa þrifist ágætlega. Að mínum dómi verður áfram þörf fyrir sparisjóði sem sinna þessu mikilvæga hlutverki og það hlýtur að vera verkefni löggjafans og ekki síst efnahags- og viðskiptanefndar að vinna að traustari ramma um starfsemi sparisjóðanna til framtíðar.