143. löggjafarþing — 96. fundur,  11. apr. 2014.

skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis um rannsókn á aðdraganda og orsökum erfiðleika og falls sparisjóðanna.

[13:08]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Það er mjög skringilegt að standa enn og aftur í þessari pontu og fjalla um viðamikla skýrslu án þess að hafa kynnt sér hana almennilega. Við fengum kynningu frá rannsóknarnefndinni í morgun á sameiginlegum fundi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar og efnahags- og viðskiptanefndar. Það var í sjálfu sér gagnlegt en ég treysti mér ekki til að hafa neinar afgerandi skoðanir á því sem ég hef lært á þeim 20 tímum sem liðnir eru síðan þessi skýrsla var gerð opinber.

Það er tvennt sem mig langar til að fjalla um. Í fyrsta lagi fengum við mjög viðamikla skýrslu eftir hrun og sú skýrsla hvarf inn í gosmökk. Við erum enn ekki búin að grafa hana upp úr öskunni. Eiginlega öll umræða um þá viðamiklu skýrslu hvarf þótt við ætluðum virkilega að draga einhvern lærdóm af bankahruninu. Þessi skýrsla sem við erum að fjalla um núna er hluti af viðamikilli þingsályktun sem Alþingi samþykkti hér einróma sem viðbrögð Alþingis við skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis frá árinu 2010.

Mig langar aðeins að fara yfir hvað stendur í þessari þingsályktun. Við eigum enn eftir að gera töluvert mikið þrátt fyrir að þetta hafi verið samþykkt á haustdögum 2010:

„Alþingi ályktar að skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis sé vitnisburður um þróun íslensks efnahagslífs og samfélags undangenginna ára og telur mikilvægt að skýrslan verði höfð að leiðarljósi í framtíðinni.“

Ég tel mjög brýnt að við skoðum þá skýrslu samhliða þeirri sem við erum hér að fjalla um. Skýrslan um sparisjóðina er í raun angi af ákveðnu hugarfari sem var lýst mjög vel í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis sem var skilað 2010.

Ég held áfram hér með þessa þingsályktun:

„Alþingi ályktar að brýnt sé að starfshættir þingsins verði teknir til endurskoðunar. Mikilvægt sé að Alþingi verji og styrki sjálfstæði sitt og grundvallarhlutverk.“

Forseti. Af hverju erum við aftur að fjalla um skýrslu fyrirvaralaust? Við stöndum hérna eins og hálfgerðir bjánar og eigum að fjalla um eitthvað sem við höfum lagt gríðarlega mikla fjármuni í og borið mikið traust til að skili okkur einhverju, t.d. djúpstæðum skilningi og einhverjum verkfærum til að laga hlutina þannig að við séum ekki í sömu sporum. Þá verð ég að segja að mér finnst harla torkennilegt að Alþingi kalli sem sagt eftir skýrslu sem það kostar til 600 milljónum — en forseti Alþingis flytur ekki málið. Af hverju ekki? Mér finnst það mjög torkennilegt og stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd hefur komið þeirri skoðun áleiðis til forseta að þetta þurfi að taka til rækilegrar endurskoðunar. Það þarf að verða hluti af einhverri vinnu í kringum þingsköp eða að breyta reglugerðum og lögum um það hvernig svona skýrslur eru meðhöndlaðar.

Auðvitað erum við í þeirri stöðu sem þing að við erum að læra, en við verðum að vera svolítið röskari. Við erum að læra og við erum að gera okkar besta til að sýna ábyrga hegðun en mér finnst það óábyrg hegðun að fjalla hér 20 tímum síðar um þessa viðamiklu skýrslu eftir að hafa beðið í rúmlega tvö ár. Það er einhvern veginn ekki rétt.

Ég held þá áfram með þingsályktunina:

„Alþingi ályktar að taka verði gagnrýni á íslenska stjórnmálamenningu alvarlega og leggur áherslu á að af henni verði dreginn lærdómur.

Alþingi ályktar að skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis sé áfellisdómur yfir stjórnvöldum, stjórnmálamönnum og stjórnsýslu, verklagi og skorti á formfestu.“

Að mínu mati hefur ekki mikið breyst frá því að við lögðum fram þessa þingsályktunartillögu og skora ég á yfirstjórn þingsins að gera eitthvað til þess að laga skort á þeirri nauðsynlegu formfestu sem við þurfum að fá hér.

„Alþingi ályktar að stjórnendur og helstu eigendur fjármálafyrirtækja á Íslandi beri mesta ábyrgð á bankahruninu.“

Í því litla sem ég hef haft færi á að skoða í skýrslunni um sparisjóðina er ljóst að í þessu tilliti hefur ekkert breyst.

„Alþingi ályktar að eftirlitsstofnanir hafi brugðist.“

Það kemur einmitt mjög skýrt fram í skýrslunum báðum.

„Alþingi ályktar að mikilvægt sé að allir horfi gagnrýnum augum á eigin verk og nýti tækifærið sem skýrslan gefur til að bæta samfélagið.“

Því miður virðumst við ekki alveg hafa lært af þessu. Mér finnst við vera svolítið komin aftur í 2007 og ég er ekki ein um það.

„Alþingi ályktar að fela forsætisnefnd, viðkomandi nefndum Alþingis, stjórnlaganefnd, sbr. lög um stjórnlagaþing, nr. 90/2010, og forsætisráðherra fyrir hönd ríkisstjórnar að ráðast í eftirfarandi:

I. Endurskoða löggjöf og eftir atvikum undirbúa löggjöf á tilgreindum sviðum:

1. Stjórnarskrá lýðveldisins Íslands, nr. 33/1944.“ — Sú heildarendurskoðun er í dái.

„2. Lög um þingsköp Alþingis, nr. 55/1991.“ — Það var ekki klárað á síðasta kjörtímabili og við leggjum það væntanlega ekki fram hér á vordögum. Ég skora á þingmenn að finna lausnir á því þannig að við getum alveg örugglega samþykkt þetta sem eitt af fyrstu málum á dagskrá á haustþingi.

„3. Lög um ráðherraábyrgð, nr. 4/1963, og lög um landsdóm, nr. 3/1963.“ — Það er mjög brýnt að laga þetta og ekki hefur það gerst, ekki með landsdóminn.

„4. Lög um Stjórnarráð Íslands, nr. 73/1969, stjórnsýslulög, nr. 37/1993, upplýsingalög, nr. 50/1996, og lög um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, nr. 70/1996.“ — Þetta hefur verið lagt hér fram og samþykkt en það eru verulegir ágallar á upplýsingalögunum sem sýnir tregðu ríkisvaldsins til að hleypa almenningi að ákvarðanakeðjunni.

„5. Löggjöf um starfsemi á fjármálamarkaði.“ — Ýmis lög hafa verið samþykkt en við erum ekki enn búin að byrgja þennan græðgisbrunn, það er alveg á hreinu. Það sem mér finnst vanta og kallaði eftir í morgun á fundi með rannsóknarnefndinni væri að fá á A4-blaði samantekt á því hvaða lögum og reglugerðum þarf að breyta og laga til þess að þetta gerist ekki aftur sem og hvort það þurfi að styrkja einhverjar stofnanir. Það er ljóst út af þeim ábendingum sem komu frá þeim að það hefur ekki verið orðið við 5. lið í þessari þingsályktun frá 2010.

„6. Lög um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, nr. 129/1997.“ — Ég þekki það ekki.

„7. Löggjöf um eftirlit með fjármálastarfsemi á vettvangi Seðlabanka Íslands, Fjármálaeftirlitsins og annarra eftirlitsaðila. Tiltæk verði viðbragðsáætlun við fjármálaáfalli.“ — Þessi sparisjóðsmál kláruðust ekki fyrir hrun heldur var ýmislegt gert eftir hrun, eftir að skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis kom fram og eftir að þessi þingsályktun var samþykkt. Það sem rannsóknarnefndin minntist töluvert oft á í morgun og maður hefur séð sem ákveðið stef er að Fjármálaeftirlitið hafi ekki gætt að samkvæmni í störfum sínum. Mér finnst þetta mjög alvarleg ábending og held að það sé nauðsynlegt að við skoðum það. Ég hef töluverðar áhyggjur af því að mér hefur fundist núverandi ríkisstjórn tala um að Fjármálaeftirlitið sé of stórt og það þurfi að skera niður í eftirlitsgeira landsmanna. Ég hef svolitlar áhyggjur af þeirri orðræðu.

Þetta heldur áfram töluvert lengi og við eigum enn töluvert mikið eftir til að standa við það sem við samþykktum að gera. Þetta var merkileg þingsályktun af því að það gætir mikils hugrekkis í henni til að takast á við fortíðina, standa keik í framtíðinni og axla þá ábyrgð sem okkur hefur verið falin, að draga lærdóm af hruninu. Ég hef óskað eftir því að við förum yfir það í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd hvernig staðan er á þessari þingsályktun. Ég mundi vilja samkeyra báðar þessar skýrslur.

Að lokum langar mig að nefna eitt sem hefur stungið mig svolítið mikið. Ég hef aðeins farið að kynna mér samfélagsbanka, samvinnubanka, sparisjóðshugsjónina og sparisjóði. Ég tel að í fyrsta lagi hafi verið gerð veigamikil mistök þegar EES-lögin um fjármálastofnanir voru samþykkt, að þar úti hafi ekki verið gert ráð fyrir að til væru svona pínulitlir bankar þegar þeir sömdu lögin úti í Brussel, eins og einhver sagði. Það hefur einhvern veginn vantað upp á að gæta þess að við gætum haldið áfram með samfélagsbanka.

Ég er ekki sammála því sem hefur komið fram í skýrslunni um að ekki sé hægt að stunda þessa bankastarfsemi án þess að vera í sama regluverkinu og sömu starfseminni og aðrir bankar. Ég veit að það eru til alls konar gerðir af bönkum víðs vegar um heim, þar á meðal í Evrópu, þannig að mig langar mikið að skoða hvernig hægt er að búa til svona samfélagsbankaform án þess þó að það þurfi að vera eitthvað verulega mikið ríkisstyrkt. Ég get ekki sagt að stóru bankarnir, með allt þetta regluverk, hafi stundað þannig viðskipti að þeir séu til fyrirmyndar, þvert á móti.

Það var talað um að reynt hefði verið að sameina alla litlu bankana sem ég tel algjört óráð. Ég er með viðskipti í einum af þessum þremur bönkum sem þurftu ekki að fá aðstoð frá ríkinu, einfaldlega af því að ég vil styrkja þannig bankastarfsemi. Vandamálið er samt að ef maður er með starfsemi í þessum litlu bönkum og leggur inn peninga þar eða eitthvað slíkt er maður kannski að gera þeim óleik út af þessu EES-regluverki.

Mér finnst mjög brýnt að við skoðum sem allra fyrst hvernig við getum tryggt framtíð þeirrar hugsjónar sem felst í nærumhverfisrekstri, hvort sem það er banki eða eitthvað annað. Ég hlakka til að vinna úr fortíðinni þó að hún sé okkur nálæg. Það er dálítið sjokkerandi að sjá hvernig þessir hlutir þróuðust í bankakerfinu okkar, hvort heldur það voru stóru bankarnir eða litlu bankarnir. Ég veit að við getum borið gæfu til að horfast í augu við mistök, horfast í augu við að við verðum að læra af þessari fortíð. Við verðum að gera það því að ekki vil ég hafa bara einn risastóran banka, hvort heldur einkarekinn eða ríkisrekinn, sem hefur hér öll ítök.