143. löggjafarþing — 96. fundur,  11. apr. 2014.

skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis um rannsókn á aðdraganda og orsökum erfiðleika og falls sparisjóðanna.

[13:23]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. Við ræðum afskaplega viðamikla skýrslu um fall sparisjóðanna. Ég tek undir með öðrum hv. þingmönnum um að ekki hefur gefist nægur tími til að kynna sér efni skýrslunnar út í hörgul. Samt tel ég að það sé ágætt að ræða það.

Skýrslan er mikil og málefnaleg og greinilega hefur mikið starf verið unnið. Ég ætla ekki að fara í gegnum verðið, mér finnst það allt of hátt á þessari skýrslu en ætla ekki að ræða það frekar. Mér skilst að skýrsluhöfundar hafi veitt þeim sem nefndir eru í skýrslunni andmælarétt sem er gott og kemur í veg fyrir að við lendum í sömu stöðu og með Íbúðalánasjóðsskýrsluna.

Umræðan í dag hefur sýnt mér að það er til göfugt fé og það er til vont fé. Göfugt fé vill ekki græða, það vill hugsa um fjöllin, dalina o.s.frv. Vont fé vill græða og ekki hugsa um fjöllin og dalina. Menn tala fjálglega í ákveðinni sveitarómantík um bóndann sem kemur jafnvel á skítugum stígvélunum inn og ætlar að gera eitthvað sniðugt, vantar kannski fé í vélageymslu eða eitthvað og sparisjóðsstjórinn er fullur skilnings því að þetta er hans nærumhverfi. Hann veitir honum lán til að byggja skemmuna eða hvað það nú er og að sjálfsögðu borgar maðurinn alltaf vegna þess að þetta er svo heiðarlegt og allt svo göfugt. Það gæti allt eins verið grafa, trilla eða eitthvað slíkt. Það er nefnilega heilmikil rómantík í þessu.

Svo gerist það leiðinlega að maðurinn getur ekki borgað vegna þess að hann fékk ekki verkefni fyrir gröfuna, trillan bilaði eða eitthvað slíkt. Þá koma leiðindin sem eiga ekki heima í rómantíkinni. Ég held að við séum dálítið á villigötum með umræðu um göfugt fé og vont fé. Ég hef stundum nefnt það þannig að einhver Jón ætti bíl og við Jón gerðum með okkur samning um að ég mætti ætíð keyra bílinn hans. Ég skyldi sjá um viðgerð, kaupa á hann bensín og allt slíkt en ég má alltaf keyra þennan bíl hans. Hver er þá munurinn á því að ég eða hann eigi bílinn? Hver er þá munurinn á því að ég eigi bílinn sjálfur eða hann sé eigandinn að bílnum? Enginn.

Þessi hugljómun um sjálfseignarstofnanir, þ.e. fé sem enginn á, er akkúrat þetta. Það er einhver sem ræður því fé, einhver sem keyrir þann bíl. Það er lítill munur á því hvort sá á féð eða einhver sjálfseignarstofnun. Þegar þetta sjálfseignarfé verður mikið, fer að telja í milljónum eða milljörðum, fer það að gefa gífurleg völd, nákvæmlega eins og milljarðarnir sem menn fara með í stórum fyrirtækjum. Menn geta keypt sér hlutabréf, ráðið fólk til starfa og haft alls konar völd í gegnum þetta fé. Þetta held ég að sé vandinn í hnotskurn, þegar féð verður of mikið er hætta á því að einhver komist í bílstjórasætið sem ekki vill víkja þaðan aftur. Hann sest bara niður, fer ekki og keyrir bílinn eftir það.

Ég spurði á fundi í morgun um alla myndina sjálfa, um Meið, Existu, Bakkavör, Kaupþing og VÍS. Þetta var heilmikil mósaík sem menn höfðu byggt upp þar sem peningarnir fóru fram og til baka og aðallega í hringi. Í hvert skipti sem peningarnir fóru í hringi juku þeir eigið fé. Á þetta hef ég margoft bent. Í skýrslunni er talað um að sparisjóðir gætu lagt peninga í einhvern banka, segjum 100 milljónir. Það eru ósköp eðlileg viðskipti, hann leggur bara peninginn í banka sem innstæðu. Síðan tekur bankinn sig til og lánar einhverjum Jóni Jónssyni, sem vill svo til að er stofnfjáreigandi í sparisjóðnum, peninga til að kaupa stofnfé í sparisjóðnum með annaðhvort veði í stofnfénu eða húseign. Fyrir hrun var stofnféð nánast gulls ígildi, nánast peningur. Hvað gerðist þá? Þá gaf sparisjóðurinn út stofnfé, seldi Jóni Jónssyni og jók þannig eigið fé sitt um sem nemur 100 milljónum. Peningurinn fór í hring, hann var kominn aftur heim til sín inn í sparisjóðinn og menn gátu gert þetta aftur og aftur. Þannig bjuggu menn til mikið eigið fé.

Þetta var gert eftir að Alþingi setti lög um það árið 2004 sem beindust aðallega gegn mér persónulega á þeim tíma. Ég var þá formaður efnahags- og skattanefndar og keyrði málið í gegn þótt það væri mér andsnúið. Það er allt í skýrslunni. Þá voru völdin í þessum heilögu sjóðum tekin af stofnfjáreigendum sem hafa ætíð stýrt þeim og þau flutt yfir til sveitarfélaganna eða breytt í hlutafélag. Þá réðu stofnfjáreigendur ekki lengur yfir bílnum sem þeir voru að keyra og dæmið gekk ekki upp. Þetta var gert í kjölfar samnings sem SPRON gerði við Kaupþing. Ég var í stjórn SPRON á þeim tíma. Samningurinn gekk út á að stofna risastóran sjóð upp á 6 þús. milljarða með peningum sem Kaupþing ætlaði að setja inn í þennan sjóð til verkefna í menningar- og líknarmálum. Þessi sjóður varð aldrei til út af þessari lagasetningu.

Hvað gerðist? Af hverju settu menn lögin? Vegna þess að í SPRON var þessi sjóður 89% af eigin fé SPRON. Hann réð sem sagt 89% í SPRON eftir hlutafjárvæðingu.

Menn vildu ekki hafa þennan möguleika sem varð til þess að menn reyndu að auka eigið fé sparisjóðanna utan við þennan heilaga sjóð. Það gerðu menn með svona hringferlispeningum, með því að lána bændum með veði í jörðum til að kaupa stofnfé í sparisjóði, með því að lána fólki á Suðurnesjum og úti um allt fé til að kaupa stofnfé. Af þessu urðu miklar hörmungar, herra forseti. Það má eiginlega segja að það sé að einhverju leyti Alþingi að kenna vegna þess að fólk þurfti að borga þessi lán til baka. Þau voru að einhverju leyti felld niður en þetta olli fólki óskaplegum hörmungum. Ég held að menn þurfi að líta á alla þessa stóru mynd til að sjá þetta.

Eftir hrun gerast merkilegir hlutir sem ég ætla ekki að fara nánar út í eins og með Sparisjóð Keflavíkur og Saga Capital, af hverju öðru var haldið á floti en hinu ekki. SPRON, Icebank, Straumur og svoleiðis, það má vel vera að menn hafi þurft að taka hraðar ákvarðanir. Það er kvartað undan því í skýrslunni að ákvarðanir hafi skort. Það er nokkuð sem við þurfum að laga. Ef við skyldum lenda aftur í slíkri stöðu, sem við vonandi gerum aldrei, þarf að vera skarpari ákvarðanataka, meira ákveðið hver eigi að sjá um hvað.

Þá er spurningin hvort það sé framtíð fyrir sparisjóðina. Ég er ekkert voðalega hrifinn af sparisjóðunum þannig séð og hef gagnrýnt þessa skiptingu á göfugu fé og vondu fé en ég get ekki séð að stofnfé sé ekki áhættufé vegna þess að það hefur komið í ljós. Menn héldu því fram og meira að segja kemur það fram í skýrslunni. Stofnfé er alveg gífurlegt áhættufé. Það kom heldur betur í ljós eftir hrun. Einstaklingar sem áttu stofnféð eiga það bara ekki lengur. Allt göfuga féð er farið. Þetta er búið að vera gegnum alla söguna. Einstaka sjóðir hafa alltaf lent í vandræðum og þá tapast stofnféð. Það er nefnilega ekkert voðalega mikill munur á stofnfé og hlutafé þegar grannt er skoðað, hvort tveggja er með þessari áhættu.

Ef við ætlum að byggja upp sparisjóðakerfi aftur verðum við í fyrsta lagi að sjá til þess að sparisjóðirnir veiti þá þjónustu sem krafist er í dag, hágæðaþjónustu með heimabanka og því öllu. Það kostar. Þeir þurfa líka að vera með sérfræðiþekkingu og fullnægja ákveðnum skilyrðum um eftirlit sem líka kostar. Það kostar mikið. Bara út af þessu tvennu getur verið erfitt að stofna sparisjóð.

Svo þarf líka að afla stofnfjár og þá þarf að fara til sama fólksins og er nýbúið að tapa og segja: Heyrðu, viltu ekki leggja pening í sparisjóð? Það er alveg gulltryggt. Ha, nei, segir fólk, ég horfði upp á Jón Jónsson tapa stofnfénu sínu. Það verður ekki lengur, er svarið, við tryggjum það einhvern veginn.

Ég hugsa að aðalþröskuldurinn við stofnun sparisjóðs felist í þessu. Það má þó vel vera að Alþingi Íslendinga geti búið til ramma utan um sparisjóði sem geri það að verkum að menn öðlist aftur traust á forminu, að regluverkið verði ekki of íþyngjandi og að þeir geti reitt sig á þá sérfræðiþjónustu sem þeir þurfa að gera í nútímabankaviðskiptum.