143. löggjafarþing — 96. fundur,  11. apr. 2014.

skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis um rannsókn á aðdraganda og orsökum erfiðleika og falls sparisjóðanna.

[13:45]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka fyrir þessa skýrslu, segja fyrir mitt leyti að það sem ég hef náð að lesa af henni er ég ánægður með. Skýrslan er sett fram með hófstilltu orðalagi og það vel rökstutt sem þar fram kemur, gríðarlega mikill fróðleikur samandreginn. Það má margt af þessari sögu læra fyrir þá sem vilja hafa fyrir því að setja sig inn í hana.

Saga sparisjóðakerfisins, sem er ágætlega rakin hér, er mjög merk en á auðvitað þennan sorglega kafla aftarlega í bókinni sem er ófarir sparisjóðanna frá og með í kringum aldamótin og endar í hruninu. Við skulum vona að það sé eingöngu kafli í miklu lengri sögu. Ég kem betur að því síðar því að ég bind vonir við að sparisjóðir verði áfram hluti af fjármálakerfi okkar.

Það er gaman til þess að vita og fer vel á því í þessum sal að vitna til þess þegar saga sparisjóðanna er rakin á Íslandi á 19. og 20. öld að ekki er við minni mann að eiga en sjálfan Jón Sigurðsson sem setur hugmyndina og nafnið í loftið með blaðagrein 1850. Hann er á einu myndinni sem hangir hér í þessum sal. Hann má kalla guðföður sparisjóðanna alveg eins og hvern annan. Hann fann auðvitað til þess hversu bagalegt það var fyrir Íslendinga að hafa ekki fjármálastofnanir, geta ekki geymt og ávaxtað sparnað sinn og veitt lán til uppbyggingar í atvinnulífinu. Hann mælti með því að reynt yrði að koma hér á fót sparisjóðum að danskri fyrirmynd.

Sparisjóðirnir áttu sannarlega blómaskeið. Hér er sérstaklega rakið tímabilið 1985–1995, fram undir aldamótin, en það má segja að saga margra sparisjóða í einstökum byggðum landsins hafi verið blómaskeið frá byrjun. Á mínum heimaslóðum þar sem ég þekki vel til var sparisjóður lykilstofnun í héraði allt frá því fyrir miðja síðustu öld og fram undir síðustu árin.

Í kringum aldamótin verða mikil tímamót sem eru ágætlega rakin í skýrslunni. Það má segja að þau einkennist af þrennu. Fyrst ber að nefna átökin innan sparisjóðahópsins fyrir aldamótin um hvert skyldi stefna sem tvímælalaust veiktu hópinn og áttu þátt í ófarnaðinum, að menn náðu ekki að verða sammála um áherslur og hvert sparisjóðirnir ættu að stefna. Í grófum dráttum má segja að þau átök hafi kristallast í því hvort sparisjóðirnir ættu að halda trúnað við grunngildi sín og elta ekki banka, seinna einkavædda banka, út í fjárfestingarbankastarfsemina og allt það, eða reyna að slást í hóp með stóru drengjunum og keppa við þá.

Svo er hlutafjárvæðingin sem heimiluð var 2002, sú niðurstaða sem varð til með sérkennilegum hætti sama ár að heimilt væri að selja stofnfjárbréf á yfirverði. Á það hefur aldrei reynt fyrir dómi. Það byggir á einu lögfræðiáliti og því sem FME segir sumarið 2002 í framhjáhlaupi þegar það svarar öðru álitamáli og vekur athygli á þeirri staðreynd að það sé ekki með beinum hætti bannað í lögum. Það er rétt. En þýðir það að það sé endilega leyfilegt? Nei. Mjög margir lögfræðingar sem ég hef rætt við og skoðað þetta mál með benda á að það sé í svo lóðbeinni andstöðu við grunntilgang sparisjóðanna, við eldri löggjöf um þá og við það hvernig þeir urðu smátt og smátt til og urðu stórir að það samrýmist engan veginn þeirri hugsun. Og auðvitað er slæmt að á þetta skyldi aldrei reyna fyrir dómi.

Svo bætist það við að á þessum sama tíma er sú ótrúlega ráðstöfun leyfð í lögum að greiða út arð þrátt fyrir taprekstur á sjóðunum, ávísun á að menn geti gengið á varasjóðinn til að greiða stofnfjáreigendum arð. Allt er þetta hluti af breyttri hugmyndafræði sem þarna heldur innreið sína.

Hér segir, með leyfi forseta, á bls. 41 þar sem þetta er rakið:

„Lagabreytingar höfðu mikil áhrif á eignarhald sparisjóðanna. Þáttaskil urðu með nýjum sparisjóðalögum 1985. Frá þeim tíma var einungis heimilt að setja á fót stofnfjársparisjóði, farið var að gefa út stofnfjárbréf á nafn og þar með kom hugmyndin um stofnfjáreign til skjalanna. Með þessari breytingu má segja að eignarhald sparisjóða hafi fyrst tekið að skipta einhverju máli en áður höfðu þeir í grundvallaratriðum verið sjálfseignarstofnanir.“

Það spratt upp úr því að menn voru ekki eigendur að sparisjóðunum þegar þeir lögðu af stað heldur ábyrgðarmenn og gæslumenn þeirra. Þeir lögðu fram vissar tryggingar til að þeir gætu hafið starfsemi og litu aldrei á það sem eign. Þarna byrjar þessi hugsun að læðast aftan að mönnum.

Með gildistöku laga nr. 43/1993 verða starfsheimildir sparisjóða og viðskiptabanka að mestu leyti þær sömu og þá má segja að fari að hilla undir hlutafjárvæðingarmöguleikann. Þá var farið að greiða arð af stofnfé og framsal stofnfjárbréfa varð heimilt með samþykki stjórnar. Með breytingarlögum nr. 71/2001 var skrefið til hlutafjárvæðingar stigið til fulls í því skyni að auðvelda sparisjóðunum að afla sér nýs fjár.

Löggjafinn batt því miður ekki svo um hnúta að hindruð yrðu bein viðskipti með stofnfjárbréf einstaklinga í millum á öðru verði en hinu endurreiknaða stofnverði sem þeir höfðu þó aldrei áður samkvæmt lögum átt neina kröfu til.

Þegar ég eignaðist stofnfé í sparisjóði á sínum tíma voru allir með það hreinu að það eina sem maður átti með því var stofnfjárbréfið, nafnverð þess og það uppreiknað, ekkert annað. Þarna kvikna hins vegar væntingarnar um yfirverð á bréfunum og þær urðu ekki kveðnar niður eftir það, eins og þarna segir.

Lagabreytingin 2001 er gagngert til þess að gera stofnfjárbréf að vænlegum fjárfestingarkosti. Það var eitt af þremur meginatriðum sem þáverandi viðskiptaráðherrar, fyrst Finnur Ingólfsson og svo Valgerður Sverrisdóttir, töluðu fyrir þegar breytingin fór í gegn. Það var hlutafjárvæðing og það að gera stofnfjárbréfin að vænlegri fjárfestingarkosti. Þá er þetta komið alla leið í mark með öllum þeim afleiðingum sem það síðar hafði.

Það reyndist síðan ekki vel fyrir sparisjóðina. Hugmyndin var að þetta ætti að styrkja sparisjóðina, var það ekki? Það gerði það ekki. Þetta varð baggi á sparisjóðunum og íþyngjandi fyrir þá. Þetta skapaði tímabundið gríðarlega gróðamöguleika fyrir þá sem komust yfir eða sönkuðu að sér stofnfjárbréfum. Þetta er mjög vel rakið hér á bls. 41–44, ég get mælt með því að menn lesi það.

Á mannamáli, virðulegur forseti, verða sparisjóðirnir þarna græðgisvæðingunni að bráð, flestir hverjir. Það gerist á þessum árum, því miður. Því miður var ekki mikil meðvitund um þetta á Alþingi, satt best að segja. Aftar í þessu hefti er ágætlega rakin umræðan um málið þegar það var fyrir Alþingi og vitnað í ýmsa menn í þeim efnum.

Fáir andmæltu breytingunum eða vöruðu við þeim en þó voru raddir í þá veru. Þingflokkur Vinstri grænna, a.m.k. sá sem hér stendur og talaði eitthvað fyrir flokkinn, varaði mjög við þessum hugmyndum. Á bls. 117 segir, með leyfi forseta:

„Steingrímur J. Sigfússon þingmaður gagnrýndi frumvarpið og vísaði í góða stöðu sparisjóðanna á markaði. Hann sagði meðal annars:

„Það verða því ekki sótt rök í að aðkallandi vandamál eða bág staða sparisjóðanna nú um stundir eða á undanförnum árum kalli á breytingar á lögum um þá eða í starfsumhverfi þeirra. Þvert á móti er ástæða til að spyrja og muna eftir því: Þarf ekki einmitt að fara varlega og gera engar þær breytingar á starfsumhverfi sparisjóðanna sem veikt gætu þann grundvöll sem þeim hefur nýst svo vel?““

Þarna átti ég við hlutafjárvæðinguna, að sjálfsögðu, að þeir fjarlægðust ekki þann grundvöll sem hafði nýst þeim vel og gert þá sterka á níunda og tíunda áratugnum þegar markaðshlutdeild þeirra fór úr um 10% upp undir 25% og þeir sigldu fram úr öðrum sem vinsælar og þjónustulundaðar stofnanir. Það var mikil tryggð við þá í þeirra nærumhverfi áður en þeir fóru út af sporinu.

Veruleikinn er líka sá og sagan hér segir okkur það sem betur fer til sannindamerkis um allt þetta að þeir sparisjóðir sem héldu tryggð við sparisjóðahugsunina, fóru ekki í græðgisvæðinguna, tóku ekki þátt í leiknum, fóru varlega í útlánum, héldu sig við starfssvæði sitt og tóku ekki grenjandi áhættu í braski, lifðu af.

Þrjú glæsileg dæmi eru um að sparisjóðir sigldu í gegnum hrunið og komust af fyrir eigin rammleik. Geri aðrir betur. Það eru ekki margar aðrar fjármálastofnanir á Íslandi sem hafa ekki skipt um kennitölu, er það nokkuð? Það eru bara þessir þrír sparisjóðir. Það segir okkur að módelið var kannski ekki svo galið ef menn hefðu haldið sig við það. Ég hef stundum nefnt áður að það er kostulegt að bændurnir sem stjórnuðu Sparisjóði Suður-Þingeyinga hafi varað fólk við því að taka erlend lán til húsnæðiskaupa eða dráttarvélakaupa af því að það hefði allar tekjurnar sínar í innlendum krónum. Þeir voru ekki sprenglærðir hagfræðingar frá háskólum en þeir höfðu brjóstvit til að bera til þess að ráða fólki heilt í þessum efnum. Ég hélt að það hefði bara verið eitt gjaldeyrislán í Sparisjóði Suður-Þingeyinga en nefndin upplýsti í morgun að þau hefðu verið sjö. Af hverju urðu þau til? Af því að fólkið sem í hlut átti heimtaði erlend lán gegn ráðum sparisjóðsins og frekar en að missa það úr viðskiptum gáfu menn eftir. Ætli það hafi ekki bara komið sér býsna vel að svona skynsamir menn héldu þarna um spaðana?

Veruleikinn er líka sá, og það sýnir þessi skýrsla, að almennt voru það ekki útlán sparisjóðanna á sínum starfssvæðum sem bökuðu þeim mestan vanda og leiddu til falls þeirra. Vissulega átti það við, sérstaklega í stærri sparisjóðum sem fóru að lána í byggingastarfsemi og verktakastarfsemi og annað slíkt, en afskriftir minni sparisjóða sem héldu sig við útlán til einstaklinga og minni fyrirtækja á sínum starfssvæðum voru langminnstar. Það var fjárfestingarbankastarfsemi og eignahlið stóru sparisjóðanna sem fór með sparisjóðina niður. Þar verður að segjast alveg eins og er að er erfitt að gera greinarrmun á stórum og litlum vegna þess að auðvitað var allt of hátt hlutfall eigin fjár sparisjóðanna bundið í eignum í einu eða tveimur fyrirtækjum — af sögulegum ástæðum eins og menn þekkja.

Var það, herra forseti, og er það í dag einhver þrjóska að halda í vonina um að sparisjóðir geti áfram orðið hluti af okkar fjármálaþjónustu? Ég segi nei. Ég sé ekki eftir neinu í sambandi við tilraunir til að reyna að viðhalda að einhverju leyti sparisjóðum sem hluta af okkar fjármálaþjónustu. Það má margt segja um þær aðstæður sem stjórnvöldum voru búnar eftir að allt var komið á hliðina eða var við það að fara á hliðina og menn voru að reyna að vinna úr þeim ósköpum. Það er mjög vel og trúverðuglega rakið í skýrslunni og það sem ég hef lesið yfir af því í 1., 3. og 5. bindinu gefur mér ekki tilefni til neinna athugasemda í þeim efnum, jafnvel þó að ég komi þar talsvert við sögu. Það er vel rakið og því er vel lýst og ég hef ekki rekist á neinar rangfærslur í því.

Eflaust munu einhverjir, ef að líkum lætur, reyna að færa kastljósið af hinum eiginlegu óförum, hinum eiginlega vanda, hinu eiginlega hruni, yfir á það hvernig einhverjir reyndu að vinna úr ósköpunum þegar allt var komið í óefni. Það hefur verið reynt áður í erfiðum málum. Það kæmi mér á óvart ef það finnast ekki enn einstaklingar sem munu gera tilburði til þess, en ég segi: Ég fæ ekki séð að þeir sæki mikið efni í skýrsluna til að reyna að gera það mjög ótrúverðugt eða gera menn að einhverjum vandræðamönnum fyrir það sem var glímt við í þessum efnum. Þar ber mjög vel saman því sem haft er eftir bæði mér sem fjármálaráðherra, Gylfa Magnússyni sem efnahags- og viðskiptaráðherra og stofnununum sem í hlut áttu. Ég tel þar af leiðandi að það hafi verið og sé rétt að reyna að vinna áfram úr þessum málum þannig að sparisjóðir eða einhverjar minni samfélagsfjármálastofnanir geti verið hluti af okkar fjármálakerfi. Það er að mínu mati mjög mikilvægt af mörgum ástæðum. Samkeppniseftirlitið hefur þegar gefið það út að það lítur á það sem afar mikilvægan þátt að þessi litli þáttur af okkar fjármálaþjónustu, þótt veikburða sé, verði til staðar, m.a. með áliti sínu þegar Samkeppniseftirlitið lagðist gegn því að stór banki fengi að kaupa sparisjóð, að Landsbankinn keypti Sparisjóð Svarfdæla. Þar er mjög skýrt talað. Það voru ein af mörgum rökum fyrir því.

Ég tel hins vegar að löggjafinn og stjórnvöld þurfi í fyrsta lagi að hafa skýra stefnu í þeim efnum, í öðru lagi að vera sjálfum sér samkvæm og útbúa þá með löggjöf lífvænlegt umhverfi fyrir slíkar minni stofnanir. Það má hugsa sér að gera með því að einfalda starfsleyfi þeirra, þetta séu hreinar staðbundnar viðskiptabankastofnanir, með því að gera minni kröfur til þeirra um regluverk og eftirlit, draga úr kostnaði og jafnvel hlífa þeim við tilteknum útgjöldum sem eru lögð á hinar stærri fjármálastofnanir vegna þeirrar áhættu sem stærð þeirra skapar. Það eru full rök til þess. Í tilviki minni stofnana með takmarkað starfsleyfi er engin ástæða til að hafa áhyggjur af því að þær séu kerfislega svo mikilvægar að ef þær lendi í einhverjum vandræðum séu skattgreiðendur skuldbundnir að hlaupa undir bagga. Það er ekki þannig. Það geta verið full rök fyrir því að gjaldtaka á fjármálakerfið sé á mismunandi stigum hvað þetta snertir og má reyndar segja að dottinn sé inn vísir að því sem alltaf var meiningin, þ.e. að skilgreina áhættuþættina og láta gjaldtökuna að hluta til ráðast af því í tilviki bankaskattsins.

Herra forseti. Ég hef þá lokið máli mínu og ræðutímanum líka og fagna aftur því að skýrslan sé fram komin. Hvað sem öðru líður mun ég eyða tíma í að lesa hana á næstunni til botns og ég veit líka að hún verður lesin víða í byggðum landsins þar sem örlög sparisjóðanna hafa skipt fólk miklu máli. Margir hafa tekið það inn á sig hvernig þau ósköp öll gengu fyrir sig. Við eigum ekki að láta það hræða okkur frá því að glíma áfram við það verkefni að skapa þessum ágætu fjármálastofnunum hlutverk og tilgang. Þær hafa lengst af sögu sinnar verið einmitt ágætar.