143. löggjafarþing — 96. fundur,  11. apr. 2014.

skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis um rannsókn á aðdraganda og orsökum erfiðleika og falls sparisjóðanna.

[14:16]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Herra forseti. Um eftirlitsstörf Alþingis segir í 49. gr. þingskapa:

„Alþingi, þingnefndir og einstakir alþingismenn hafa eftirlit með störfum framkvæmdarvaldsins.“

Ákvæðinu er ætlað að uppfylla 14. gr. stjórnarskrárinnar. Til að sinna þessu stjórnarskrárbundna eftirlitshlutverki hafa þingmenn og þingnefndir meðal annars heimild í þingsköpum til að kalla eftir skýrslum.

Á síðasta kjörtímabili voru settar sérstakar heimildir í lög um að kalla eftir rannsóknarskýrslum. Að sjálfsögðu, hér varð bankahrun á heimsmælikvarða. Eitthvað fór úrskeiðis og það var hægt að setja rannsóknarnefndir Alþingis á fót til að þær gæfu þinginu skýrslu. Það eru mjög eðlileg viðbrögð.

Á mannamáli má segja um það sem er að gerast hérna í dag að þessi skýrsla kom út í gær. Hún er 2 þús. blaðsíður og svo fer hún í umræðu í þinginu sem á að hafa eftirlit, þingið á að fara í þessa skýrslu og hafa eftirlit með framkvæmdarvaldinu.

Hvers vegna er hún sett strax á dagskrá? Hvað gerir það? Jú, það sem það gerir er að um leið og hún er búin á dagskrá Alþingis og Alþingi er búið að ræða hana hérna í dag fer hún ofan í skúffu. Hún hættir að vera „issjú“ í samfélaginu, hún hættir að vera þar mál málanna eða dvínar mjög fljótt.

Ef ekki mætti til dæmis taka rannsóknarskýrslur til umræðu fyrr en eftir tvær nætur eins og á við um frumvörp væru þær lifandi fram að því í samfélaginu og umræðunni, allir væru að bíða eftir að vita hvað þingmenn segðu um málið. Þá væri hægt að hafa skýrsluhöfunda til svara, borga þeim laun tvo daga í viðbót af því að þeir þekkja best skýrsluna og gætu gefið bein svör um innihald hennar. Þá gætum við haft góða samfélagslega umræðu um skýrsluna áður en við þingmenn færum að ræða hana sem á sama tíma gæfi okkur tækifæri til að fylgjast með umræðunni, sjá á hvað fólk fókuseraði og það gæfi okkur tíma til að koma okkur betur inn í málið.

Það væri ekki úr vegi að hafa þetta þrjár nætur og það er einmitt það sem við leggjum til, þingmenn minni hlutans. Við píratar höfum lagt fram frumvarp með minni hlutanum um að það skuli ekki ræða lokaskýrslur rannsóknarnefnda á þinginu fyrr en í fyrsta lagi að liðnum þremur nóttum frá útgáfu. Þrjár nætur verða að líða frá útgáfu til umræðu í þinginu.

Fyrr í dag reif ég þrjá 10 þús. kr. seðla í ræðustólnum til að benda á og gagnrýna það að setja 600 millj. kr. rannsóknarskýrslu upp á 2 þús. blaðsíður á dagskrá Alþingis degi eftir að hún kom út og gefa þingheimi síðan fimm tíma til að klára umræðuna til að hún geti farið sem fyrst undir stól. Það er verið að sóa gríðarlegu tækifæri til að nýta þessa skýrslu til gagns, til að við getum lært af þessari sögu. Þeir sem læra ekki af sögunni eru dæmir til að endurtaka hana. Þetta er ofboðsleg sóun á 600 millj. kr. og tækifæri til að læra af þessum mistökum.

Í dag reif ég því þrjá 10 þús. kr. seðla til að benda á sóunina í þessum fimm tímum sem við erum á Alþingi að ræða þessa skýrslu til að ná upp í kostnaðinn. Ef 10 þús. kr. seðlar væru rifnir hver á fætur öðrum þyrfti að rífa þrjá seðla á sekúndu á móti kostnaðinum í þann tíma. Ég vildi bara sýna hvernig það liti út þannig að fólk fengi tilfinningu fyrir þessari sóun.

Síðan hefur þetta að sjálfsögðu farið í fjölmiðla, svona hlutir fara í fjölmiðla, og það hefur komið gagnrýni, fólki þótti sárt að sjá peninga rifna þegar margir hafa svo lítið á milli handanna. Það birtist gagnrýni á að við þingmenn hefðum nóg á milli handanna. Þetta er rétt, við höfum nóg á milli handanna. Við höfum 630 þús. kr. á mánuði í þingfararkaup. Ofan á það fáum við 84.500 kr. fyrir starfskostnaði. Ef við notum peninginn fáum við að taka skattafslátt frá því, annars rennur hann að frádregnum sköttum í okkar vasa. Við höfum nóg.

Ég hef sjálfur aldrei þurft mikla peninga, hef verið sáttur við lítið, þannig að ég hef nóg af þeim. Ég tek algjörlega þessari gagnrýni og spurði í kringum mig hvar þessir peningar mundu nýtast best. Mér er sagt að gott væri að gefa mæðrastyrksnefnd þennan páskaglaðning. Ég mun líma þá seðla sem ég reif í dag, réttar sagt hefur Illugi Gunnarsson, sitjandi fjármálaráðherra, boðist til að líma þá fyrir mig þannig að þeir verði heilir, og láta þá sem páskaglaðning til mæðrastyrksnefndar.

Það sem situr eftir er platumræða um þessa skýrslu í dag til að geta stungið skýrslunni sem fyrst undir stól og lært helst sem minnst af þessum afglöpum sem voru gerð á öllum stigum. Það er hægt að leiðrétta, a.m.k. til framtíðar. Við getum enn lært í þinginu, við getum lært með því að breyta starfsreglum okkar, við getum gert það með lögum. Lagafrumvarp hefur nú verið lagt fram af pírötum og minni hlutanum um að í framtíðinni séu lokaskýrslur rannsóknarnefnda Alþingis ekki ræddar fyrr en eftir þrjár nætur frá útbýtingu.