143. löggjafarþing — 96. fundur,  11. apr. 2014.

skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis um rannsókn á aðdraganda og orsökum erfiðleika og falls sparisjóðanna.

[15:17]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Við erum að ræða ansi veigamikla skýrslu. Eins og bent hefur verið á höfum við eðli málsins samkvæmt ekki haft tækifæri til að lesa hana alla yfir og það er ekki líklegt að margir landsmenn hafi komist yfir það. Það breytir því þó ekki að við það varð ekki ráðið og ég held að það hefði ekki verið góður bragur á því ef þingið hefði farið heim án þess að ræða málið þótt umfjöllun sé síður en svo lokið. Reyndar er afskaplega mikilvægt að við skoðum þessa skýrslu vel. Í henni er margvíslegur fróðleikur, hún er mikil að vöxtum og virðist við fyrstu sýn vera vönduð. Svo virðist sem við séum að þróa okkur á þeirri braut að vinna rannsóknarskýrslu með betri hætti en áður.

Ég held að það hafi til dæmis verið afskaplega skynsamlegt af skýrsluhöfundum að leyfa þeim aðilum sem fjallað er um í skýrslunni að fara yfir sín mál til að eyða misskilningi ef einhver var.

Kostnaðurinn hefur farið fram úr hófi. Þar berum við alþingismenn mesta ábyrgð. Áætlanagerðin var ekki vönduð þegar þetta var samþykkt. Ekki er ljóst hvað átti að rannsaka og má örugglega færa rök fyrir því þegar við förum yfir skýrsluna að eitthvað vanti í hana miðað við það sem lagt var upp með. Hins vegar er áhugavert að sjá muninn á umfjölluninni fram til þessa. Ég held og vona að það verði þannig í framhaldinu. Umfjöllun fer að minnsta kosti hófstillt af stað, virðist vera málefnaleg og byggð á staðreyndum. Það er vel ef það er það sem við munum sjá í framtíðinni þegar við höfum farið yfir skýrslu sem þessa. Ég minni á að við höfum nokkra reynslu af rannsóknarnefndum en þannig hefur það svo sannarlega ekki alltaf verið. Það er áhugavert að þeir sem fjallað er um í skýrslunni og fóru ansi mikinn þegar fyrsta rannsóknarskýrslan kom út — sá gassagangur allur endaði með því að vegna eins góðs manns var eytt meira en 100 milljónum af peningum skattgreiðanda til að koma viðkomandi í fangelsi sem auðvitað tókst ekki og með rökum sem standast að sjálfsögðu ekki nokkra einustu skoðun. Þar var farið af stað í ferð sem var væntanlega mesta skömm Alþingis Íslendinga.

Nú kalla hins vegar þeir sem gengu þannig fram eftir hófstilltri umræðu. Það er vel en þeir ættu kannski að gera upp það mál ef þeir ætla að vera samkvæmir sjálfum sér.

Ég vek athygli á því að Fjármálaeftirlitið fyrir hrun fékk ágætiseinkunn í þessari skýrslu og hefur verið nokkuð fjallað um það í fjölmiðlum. Það er vel, enda hefur komið á daginn að þeir aðilar sem þar stýrðu málum hafa orðið fyrir ósanngjarnri gagnrýni. Það er auðvelt að líta í baksýnisspegil og auðvelt að segja að við hefðum mátt gera ýmsa hluti betur, þannig er það alltaf, en samt geta ekki einhverjir einstaklingar borið ábyrgð á heilu hruni alþjóðlegs bankakerfis eins og lagt var upp með hér á sínum tíma.

Hér erum við hins vegar að ræða sparisjóði. Það má segja að það sé áhugavert og ágætt að hér hafi verið farið yfir aðdragandann að falli sparisjóðanna og það var algjörlega opið. Skýrsluhöfundar tóku sögu sparisjóðanna sem er áhugaverð. Sparisjóðirnir voru settir hér á laggirnar á 19. öld og þeir aðilar sem störfuðu fyrir sparisjóðina á fyrstu áratugum þeirra gerðu það í sjálfboðavinnu. Þetta var svo sannarlega á ýmsum stöðum gert til að þjónusta viðkomandi svæði. Örsmáir sjóðir voru settir af stað við allt aðrar aðstæður en eru núna og flestir þeirra sem enn eru starfandi eru áfram örsmáir.

Vandinn er sá að allt umhverfi fjármálastofnana hefur breyst mjög og það var áhugavert að hlusta á viðhorf skýrsluhöfunda á fundi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar og efnahags- og viðskiptanefndar. Það er líklegt að þeir sem semja evrópskt regluverk fyrir sparisjóði og banka úti um alla álfuna, og þar af leiðandi á Íslandi líka, viti ekki til þess að til séu jafn litlar fjármálastofnanir og íslensku sparisjóðirnir. Þeir hafa ekki hugmyndaflug í það sem skýrir kannski að einhverju leyti hvernig fór og hvernig þróunin varð. Þrátt fyrir að við séum með eitthvert rekstrarform eins og sparisjóðina girðir það ekki fyrir breyskleika fólks, hvort sem okkur líkar betur eða verr. Hér hefur mikið verið notað hugtak eins og græðgisvæðing, hún virðist ekki vera bundin við stóra viðskiptabanka og stór fyrirtæki. Hún virðist geta verið á öllum sviðum þjóðfélagsins.

Það er ekki nokkur vafi og við vitum það að íslenska þjóðin, a.m.k. stór hluti af henni, fór ansi geyst. Við höfum gert það oft áður í gegnum íslenska sögu og það er ein af ástæðum þess að það fór eins illa í bankakerfinu og sparisjóðakerfinu og raun ber vitni. Lítil umræða hefur verið um það að sparisjóðirnir voru reknir með tapi af kjarnastarfsemi sinni löngu fyrir bankahrun. Það var umtalsvert tap 2001–2006 af kjarnastarfsemi, starfseminni sem sparisjóðirnir eiga að sinna. Ef við ættum að alhæfa og einfalda sparisjóðakerfið á Íslandi var þetta einhvern veginn þannig að við vorum með marga litla sparisjóði sem oft og tíðum sýndu góða afkomu sem fyrst og fremst var tilkomin vegna eignarhlutar í tveim fyrirtækjum sem voru stór á íslenskan mælikvarða, jafnvel á fleiri mælikvarða en þann íslenska. Það eru Exista og Kaupþing. Hefðbundin viðskiptabankastarfsemi stóð ekki undir sér en afkomunni var haldið uppi með fyrirtækjum sem síðan riðuðu til falls og þá hrundi allt kerfið. Auðvitað er myndin eitthvað flóknari en hins vegar má auðveldlega alhæfa með þessum hætti.

Við höfum ekkert rætt frá bankahruni hvernig við viljum sjá umhverfið. Við höfum að vísu rætt það lítillega og kannski með einhverjum hætti þegar við breyttum lögum um sparisjóði en við höfum ekki komist að neinni niðurstöðu um hvernig við ætlum að sjá sparisjóðakerfið ef það er sérstakt markmið að halda því í gangi á Íslandi. Það er til lítils að tala sig hástemmdan upp í það að mikilvægt sé að eiga sparisjóði sem eru með samvinnurekstur eða samfélagslega ábyrgð eða hver þessi fallegu hugtök eru öll ef það er ekki rekstrargrundvöllur fyrir viðkomandi sjóði. Bankasýslan sem var stofnuð sérstaklega til að halda utan um þessa hluti kom með ágætistillögur og vann ágætisvinnu í tengslum við þetta á sínum tíma og það hefur ekki verið farið málefnalega yfir þær tillögur og tekin afstaða til þeirra. Eins og staðan er núna virðist ekki vera hægt að selja þá sparisjóði sem eru í eigu ríkisins eins og lagt var upp með og ef við ætlum að halda í sparisjóðakerfið virðist sem tillaga Bankasýslunnar um að hafa þá bara einn sparisjóð yfir landið sé sú sem er líklegust til að geta staðið eða við fáum svæðisbundna sparisjóði.

Við tökumst alltaf á við það mál að jafn mikið og menn vilja hafa góða þjónustu við alla íbúa landsins á öllum svæðum og nýta þá sérþekkingu sem er á hverjum stað fyrir sig verður viðkomandi stofnun samt sem áður að vera það stór að hún geti boðið kjör sem geri það að verkum að atvinnulíf á viðkomandi stað geti blómstrað. Þetta gengur illa upp og í þeirri umræðu sem er hér í dag hafa í það minnsta ekki komið neinar lausnir á vandanum.

Menn líta til landa eins og Þýskalands sem er ágætt en þá skulu menn hafa það í huga að minnsti sparisjóðurinn í Þýskalandi er mun stærri en allir sparisjóðir á Íslandi til samans. Við lítum stundum til einhverra landa og teljum að þar sé himnaríki. Ég er hins vegar ekki alveg viss um að það standist skoðun. Við þurfum að huga að þessu með gagnrýnum hætti og einnig því að það evrópska kerfi sem við höfum tekið samviskusamlega á undanförnum áratugum, þegar kemur að regluverki í kringum fjármálakerfið, hentar ekki í öllum tilfellum á Íslandi eins og frægt er orðið.

Það er mikilvægt að við förum líka vel yfir það hvað hefur farið hér illa frá bankahruni. Það verður að segjast eins og er að þær tillögur sem voru gerðar til að endurreisa sparisjóðakerfið hafa mistekist hörmulega sem þýðir mikinn kostnað fyrir skattgreiðendur. Ég vek athygli á því að á síðasta kjörtímabili var kallað eftir upplýsingum um hvað þar væri á ferðinni. Það var komið með málefnalega gagnrýni, oft harðvítuga vegna þess að þing og þingnefndir voru ekki upplýst þegar spurt var um þessi mál. Ég þekki þetta ágætlega sjálfur vegna þess að ég stóð í því að benda á hið augljósa, að til dæmis Sparisjóðurinn í Keflavík og Byr uppfylltu ekki lögbundin eiginfjárhlutföll. Á þetta var ekki hlustað, þessu var iðulega ekki svarað eða gert lítið úr gagnrýninni, en skýrslan sýnir án nokkurs vafa að því miður höfðum við sem þannig töluðum rétt fyrir okkur. Ég hvet fólk til að skoða 2. bindi, bls. 49. Þar er tafla um eiginfjárhlutfall sparisjóða samkvæmt eiginfjárskýrslum 2008–2011. Þar kemur í ljós að ekki bara SpKef og Byr hafa ekki uppfyllt lögbundin eiginfjárhlutföll heldur margir fleiri sparisjóðir sem ég verð að viðurkenna að ég hafði ekki vitneskju um, eins og Sparisjóður Svarfdæla og Sparisjóður Þórshafnar.

Menn hljóta að spyrja: Hvernig má þetta vera? Við erum hér væntanlega með stærsta bankaeftirlit í heiminum, hlutfallslega. Þá er ég að vísa í Fjármálaeftirlitið. Það getur enginn haldið því fram að það hafi verið fjársvelt. Því fer víðs fjarri og geta menn fært fjöldamörg rök því til stuðnings. Síðast þegar ég bar þetta saman við danska kerfið, við erum með 8% af því, var íslenska Fjármálaeftirlitið nærri helmingur af því danska sem sinnir 8% af danska kerfinu ef við notum þann samanburð.

Það er augljóst að menn fóru í að endurreisa sparisjóðakerfið út frá gamaldags pólitík í stað þess að taka faglegar ákvarðanir. Það mistókst. Þessi skýrsla sýnir það svo ekki verður um villst. Í skýrslunni kemur fram hjá fyrrverandi efnahags- og viðskiptaráðherra, Gylfa Magnússyni, og líka á öðrum stöðum, að ákvörðun um að endurreisa SpKef sparisjóð hafi verið pólitísk ákvörðun. Ég vitna í frétt Ríkisútvarps, með leyfi forseta:

„Gylfi Magnússon, sem þá var efnahags- og viðskiptaráðherra, sagði við nefndina að án Sparisjóðsins í Keflavík hefði sparisjóðanetið aldrei orðið almennileg stoð í nýju fjármálakerfi. Það hefði ekki tekist nema að mjög litlu leyti og það hefðu verið ákveðin vonbrigði hvernig úr rættist.

Gylfi sagði jafnframt að ástæðan fyrir því af hverju farin var önnur leið með Sparisjóð Keflavíkur en til að mynda Byr — sem var breytt í hlutafélag — væri sú að þingmenn, og ráðherra, Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra sérstaklega, hefðu haft skoðanir á þessu. „Aðilar sem tengdust sparisjóðunum hefðu barist fyrir þeim lausnum sem þeir töldu æskilegar og því hafi pólitískur þrýstingur verið mikill,“ er haft eftir Gylfa í skýrslu rannsóknarnefndarinnar.“

Einnig kemur fram í skýrslunni að það voru átök á milli sérfræðinga og ráðamanna.

„Skrifstofustjóri efnahags- og viðskiptaráðuneytisins segir í skýrslunni að töluverð átök hafi átt sér stað milli stjórnsýslunnar og pólitískra ráðamanna. Ráðamenn hafi viljað fara sparisjóðaleiðina, sérfræðingar hlutafélagaleiðina. Skrifstofustjórinn segist í skýrslunni ekki geta svarað fyrir ráðamenn hvort þeir hafi ekki vitað um alvarlega stöðu sparisjóðsins.

Hann gæti þó sagt að margir starfsmenn stjórnsýslunnar hafi ekki verið sáttir við þróun mála á þessum tíma. „Aðspurður hvort hann teldi hafa verið augljóst að Sparisjóðnum í Keflavík yrði ekki bjargað, var svarið: „Ef ég man þetta rétt þá var það mikið af „súrum“ eignum í eignasafninu þar líka og það var aldrei möguleiki á að halda honum á floti“,“ segir í skýrslu rannsóknarnefndarinnar.

Arnór Sighvatsson aðstoðarseðlabankastjóri segir í skýrslunni að engum hefði á þessum tíma tekist að sannfæra sig um að um lífvænlegan banka væri að ræða. Gunnlaugur Harðarson, sérfræðingur á fjármála- og fjárstýringarsviði sparisjóðsins, taldi gróflega áætlað að eiginfjárstaða sparisjóðsins væri neikvæð um 30 milljarða. Bankinn þyrfti því 9–12 milljarða í eigið fé til að uppfylla kröfur FME.

Þetta getur ekki komið neinum ráðamanni í síðustu ríkisstjórn á óvart, það er fullkomlega útilokað. Það er vel rakið í 5. bindi skýrslunnar og í 19. kafla er vel farið yfir varnaðarorð sérfræðinga, m.a. það sem Mats Josefsson, efnahagsráðgjafi ríkisstjórnarinnar, sagði. Á bls. 113 segir, með leyfi forseta:

„Í skýrslu sem Mats Josefsson efnahagsráðgjafi ríkisstjórnarinnar skilaði um stöðu bankakerfisins er meðal annars fjallað um Sparisjóðinn í Keflavík, en ráðgjafinn taldi að lítill árangur hefði náðst og að staða sparisjóðsins væri veik. Verulegur vafi léki á að áætlanir um fjárhagslega endurskipulagningu mundu tryggja rekstrarhæfi sparisjóðsins til framtíðar. Fyrirhuguð endurskipulagning mundi aðeins kaupa sparisjóðnum viðbótarfrest og innan 12 mánaða yrði að fara fram önnur endurskipulagning. Endurskoða yrði þá aðferðafræði sem lagt hefði verið upp með og skoða aðra valkosti. Fjárhagsleg endurskipulagning snerist ekki eingöngu um bókhaldslega niðurstöðu þess að breyta skuldum í eigið fé eða víkjandi lán og þvinga lánardrottna til að afskrifa skuldir, heldur þyrfti að leggja mat á rekstrarhagkvæmni til lengri tíma. Að öðrum kosti yrði það sóun á almannafé að leggja til eiginfjárframlag úr ríkissjóði. Í Sparisjóðnum í Keflavík ættu breytingar á stjórn og stjórnendahópi að vera ein meginforsenda eiginfjárframlags. Lagt var til að hraða stofnun Bankasýslu ríkisins og að henni yrði falið að fara yfir áform um fjárhagslega endurskipulagningu sparisjóðanna og leggja á þau sjálfstætt mat áður en fé yrði lagt til þeirra. Bankasýslan hefði síðan umsjón með samningum fyrir hönd ríkisins.“

Bankasýslan var stofnuð, það kemur fram í ársskýrslu stofnunarinnar að hún átti von á því að taka við þessum verkefnum — en hún gerði það ekki. Þetta var allt saman á hendi stjórnmálamannanna og ríkisstjórnarinnar. Við stöndum því á þeim stað að þessi endurskipulagning mistókst og það var ekki farið eftir lögum um eiginfjárhlutfall. Það er fullkomlega óskiljanlegt af hverju þannig var unnið og það er óskiljanlegt af hverju þingið og hv. viðskiptanefnd var ekki upplýst um málið. Það getur enginn haldið því fram að stjórnarandstaðan í þessu máli hafi ekki verið vakandi, hafi ekki kallað eftir þessum upplýsingum og ekki tekið upp málið. Hver sem er getur farið inn á vef Alþingis og kannað það. Ég tók þetta mál fyrst upp í nóvember 2009. Það liggur líka fyrir að eftirlitsaðilar og ráðuneytið fylgdust vel með því hvað var að gerast í þessum sparisjóði. Samkvæmt fréttum skipaði FME tilsjónarmann með sparisjóðnum í samræmi við opinbert eftirlit með fjármálastarfseminni vorið 2009.

Þetta er ekki eitthvað sem skiptir ekki nokkru einasta máli, að uppfylla lögbundin skilyrði fjármálafyrirtækja. Í fyrsta lagi eru þetta neytendamál, það skiptir afskaplega miklu máli fyrir viðskiptavini viðkomandi sjóða að viðkomandi fjármálastofnun uppfylli lögbundin skilyrði. Til þess eru þau. Og um eiginfjárhlutfall hafa verið mjög ströng skilyrði. Reyndar hafa þau verið tvöfölduð hvað varðar stóru viðskiptabankana til að koma í veg fyrir hugsanleg áföll hjá þessum stofnunum. Það þarf að vera styrkur grunnur undir þeim og þess vegna er óskiljanlegt af hverju ekki var farið eftir þessum lögum. Það verður ekki annað séð en að það hafi verið meðvituð ákvörðun hjá fyrrverandi hæstv. ríkisstjórn að láta þessar stofnanir vera í rekstri án þess að uppfylla lögbundin skilyrði. Það kemur mér hins vegar á óvart að þetta voru ekki bara þessar fjármálastofnanir sem ég vísaði til heldur kemur í ljós á bls. 49 í 2. hefti að þær voru mun fleiri.

Ef við tökum saman helstu punkta, og í þessari stuttu ræðu get ég ekki farið yfir alla þætti sem að þessu máli koma, eru þeir einhvern veginn þannig að ársreikningur Sparisjóðsins í Keflavík fyrir árið 2008 sem kom fram 3. apríl 2009, að teknu tilliti til hrunsins og ábendinga útlánaskoðunar FME í mars 2009, sýndi jákvætt eigið fé um 5.400 millj. kr. Eiginfjárhlutfall sparisjóðsins var jákvætt um 7,06% en undir lögbundnu 8% lágmarki. Því fékk sparisjóðurinn undanþágu frá FME til að lagfæra eiginfjárhlutfallið. FME skipaði einnig tilsjónarmann með sjóðnum. FME framlengdi undanþáguna umfram sex mánuði haustið 2009 og taldi ríka ástæðu til þess samkvæmt 86. gr. laga um fjármálafyrirtæki. Ekkert liggur fyrir um það hvaða rannsóknir eða forsendur lágu til grundvallar því mati. Hins vegar er ljóst að í ákvörðun FME fólst að sjóðurinn væri líklegur til að geta bætt úr stöðunni. Á árinu 2009 tapaði sjóðurinn að minnsta kosti 17,6 milljörðum og var í gjörgæslu ríkisins en sá ársreikningur hefur aldrei verið birtur.

Stofnaður var nýr sparisjóður, SpKef, í apríl 2010 í eigu ríkisins. Þáverandi hæstv. fjármálaráðherra var eini stofnfjáreigandinn og fór með öll völd og eignir fyrir nýtt fjármálafyrirtæki áttu að vera umfram skuldir. Stofnefnahagsreikningur sjóðsins hefur aldrei verið birtur. Sterk lögfræðileg rök hafa verið færð fyrir því að ólögmætt hafi verið að stofna nýjan sparisjóð á grunni neyðarlaga. Nýi bankinn, SpKef, starfaði í 11 mánuði án þess að uppfylla kröfur um lögbundið lágmarkseiginfjárhlutfall. Slíkt er ekki í samræmi við lög. SpKef tapaði 11,2 milljörðum á árinu 2010. Ársreikningurinn hefur aldrei verið birtur.

Það er alveg ótrúlegt að stofnaður hafi verið nýr banki á Íslandi, eða sparisjóður, án þess að uppfylla lögbundin skilyrði. Við hljótum að spyrja: Hvernig gat það gerst?

Samtals tapaði Sparisjóðurinn í Keflavík og SpKef 28,8 milljörðum á árunum 2009–2010. Verulegur kostnaður fór í ráðgjafar- og stjórnarlaun og starfslokasamninga. Eignir sjóðsins rýrnuðu einnig á ábyrgð ríkisins. Á árunum 2009–2010, í gjörgæslu eða á ábyrgð ríkisins, jukust innlán hjá sjóðnum um 8 milljarða. Hlutfall innlána í eignum fóru úr 66% í 110%. Það má efast um að Sparisjóðurinn í Keflavík og SpKef hafi uppfyllt lausafjáreignir Seðlabankans á árunum 2009–2011. Óútskýrt er hvernig SpKef gat myndað 14 milljarða skuld við Seðlabankann og á hvaða lagaheimildum sú skuldasöfnun byggði. Með því að leyfa Sparisjóðnum í Keflavík og SpKef að starfa í tæp tvö ár án þess að uppfylla lögbundið eiginfjárhlutfall var aðilum í samkeppni á fjármálamarkaði stórlega mismunað og á endanum eru þeir sem tapa á framgöngu stjórnvalda, eins og þessari, skattgreiðendur með margvíslegum hætti.

Það er til lítils að fara út í skýrslu sem þessa ef við ætlum ekki að læra af henni. Hér hefur verið réttilega bent á að margar lagabreytingar í kringum sparisjóðina hafi verið vanhugsaðar. Stóra einstaka málið er að menn hafa aldrei hugsað málið til enda. Menn hafa ekki hugsað um það eða klárað umræðu um hvert hlutverk sparisjóða á að vera í fjármálaumhverfinu og hver sérstaða sparisjóðanna er. Við höfum ekki gert það enn þá. Ef við komumst að einhverri niðurstöðu um það, hvernig eiga þeir þá að geta rekið sig? Að öllu óbreyttu getur það ekki gengið upp.

Við erum núna búin að leggja nokkur hundruð milljónir í þessa skýrslu. Þrátt fyrir það er mörgum spurningum ósvarað en þó er ýmislegt dregið þarna fram í dagsljósið sem er mjög æskilegt og jákvætt að er komið fram. Ég er ánægður með að þeir aðilar sem hér fóru geyst á sínum tíma og drógu á endanum heiðarlegan og saklausan mann fyrir landsdóm kalla eftir hófstilltri og málefnalegri umræðu. Ég styð það og hvet okkur öll til að ganga þannig fram. Við verðum hins vegar að fara yfir þessi mál. Það sem við erum að gera með því að fara í rannsóknir og gefa út skýrslur er að læra af þessu. Eins og komið hefur fram hefur ýmsum málum verið vísað lengra og til sérstaks saksóknara. Það er rétta leiðin. En við þurfum að fara yfir það af hverju hlutir hafa farið illa. Ég nefndi einn þátt, tók hann sérstaklega út, svokallaða endurreisn sparisjóðanna eftir bankahrunið. Hún mistókst. Það var ekki hlustað á varnaðarorð, hvorki frá innlendum aðilum, eftirlitsstofnunum né aðilum úti í þjóðfélaginu. Það hefur kostað skattgreiðendur gríðarlega fjármuni. Það er ekkert flóknara. Það þarf að svara spurningum í tengslum við það mál, m.a. og fyrst og fremst til að við gerum ekki sömu mistökin aftur því að oft fara menn af stað með góðan ásetning, ætla sér að ná góðum árangri fyrir land og þjóð eða einstaka hópa, en ef það er ekki hugsað alla leið verður það ekki endilega gæfa fyrir þjóðina heldur reikningur á skattgreiðendur. Það er kannski það sem gerðist í þessu tilfelli, ég ætla ekki að segja neitt um það, en því miður höfðum við sem höfðum uppi varnaðarorð rétt fyrir okkur.

Það eru vondar fréttir, mjög vondar, en vonandi munu menn í framtíðinni hlusta á varnaðarorð. Vonandi munum við læra af öllum þeim mistökum sem meðal annars eru rakin hér og vonandi getum við nýtt þessa skýrslu til að byggja grundvöll fyrir fjármálakerfið sem mun standast tímans tönn og ekki kalla fram áföll fyrir þjóðina, sérstaklega skattgreiðendur.

Ég tel að vísu að hið evrópska bankakerfi allt standi ekki sem best og það er því miður þannig upp byggt að það er meira og minna í fanginu á skattgreiðendum. Við erum partur af því öllu beint og óbeint og það sama á við um væntanlega flest vestræn lönd eins og mér sýnist af þeim litla samanburði sem ég hef gert. Það er fullkomlega óþolandi staða. Það á að vera markmið að breyta hlutum þannig að sú staða sé ekki uppi og að sjálfsögðu að við séum með bankakerfi og fjármálaþjónustu sem geti veitt góða þjónustu og ýtt undir öflugt efnahagslíf í okkar góða landi.