143. löggjafarþing — 96. fundur,  11. apr. 2014.

skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis um rannsókn á aðdraganda og orsökum erfiðleika og falls sparisjóðanna.

[15:47]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Virðulegur forseti. Sparisjóðirnir um allt land byggðu á aldagömlum stoðum. Í starfsemi þeirra var almannahagur aðalatriðið, að styðja við atvinnu og menningu ásamt því að ávaxta sparifé almennings.

Sparisjóðirnir höfðu hins vegar fjarlægst þetta hlutverk sitt síðustu starfsárin. Sparisjóðirnir voru ekki eins og hinir bankarnir, þeir voru sjálfseignarstofnanir en hinir bankarnir hlutafélög með það markmið að skila hluthöfum sínum arði. Á árunum fyrir hrun breyttu margir sparisjóðir rekstrarformi sínu og glötuðu þar með einkennum sínum og sérstöðu gagnvart hinum bönkunum. Þeir urðu mjög líkir viðskiptabönkunum, bara minni.

Útlánavöxtur sparisjóða á árunum 2001–2007 var mikill. Meginþorri útlána sparisjóðanna var til einstaklinga, mest til íbúðarkaupa. Það var þó einkum á öðrum lánum sem sparisjóðirnir töpuðu þegar lán voru færð niður frá og með árinu 2008. Lán sem ollu hvað mestum erfiðleikum í rekstri sparisjóðanna voru lán til fasteigna- og byggingarverkefna og lán til kaupa á óskráðum hlutabréfum og stofnfjárbréfum. Tjónið sem hlaust af sparisjóðakerfinu var vegna þessara ákvarðana sem teknar voru á nokkrum árum fyrir hrun. Eignasafnið reyndist illa samsett og ótryggt og fjármögnun sparisjóðanna einnig.

Eftir hrun var hugmyndin að gera tilraun með að endurreisa sparisjóðakerfið og almenn samstaða var um að leitast ætti við að tryggja framtíð kerfisins þrátt fyrir þau áföll sem einstakir sjóðir höfðu orðið fyrir. Í því sambandi var litið til þess að umsvif og stærð Sparisjóðsins í Keflavík væru slík, með starfssvæði sem spannaði allt frá Suðurnesjum að Húnaþingi, að sparisjóðurinn hefði alla burði til að vera kjölfesta í endurreistu sparisjóðakerfi í landinu. Færð voru fyrir því rök að sparisjóðakerfið allt mundi veikjast verulega á landsvísu ef starfsemi Sparisjóðsins í Keflavík yrði hætt.

Ekki getur talist óeðlilegt að það hafi verið kannað til hlítar hvort endurreisa mætti kerfið sem valkost og stoð við fjármálakerfið í landinu, sem hefði um leið góð áhrif í samkeppnislegu tilliti og á stöðugleika kerfisins í heild en einnig vegna byggðasjónarmiða. Líkt og síðar kom í ljós reyndust væntingar til þess að Sparisjóðurinn í Keflavík yrði hryggjarstykkið í nýju sparisjóðakerfi eftir hrun ekki raunhæfar, enda var eignasafnið og staða sjóðsins stórlega ofmetin á þessum tíma.

Ímynd sparisjóðanna var lengst af afar góð. Stjórnir sparisjóðanna voru skipaðar stofnfjáreigendum og aðilum tilnefndum af viðkomandi sveitarfélagi. Mikið var lagt upp úr því að stofnfjáreigendur kæmu úr heimabyggð og stjórnir þeirra gjarnan skipaðar einstaklingum sem þekktu vel til á starfssvæði sparisjóðsins. Þetta gekk nokkuð vel á meðan sjóðirnir voru sjálfseignarstofnanir en svo virðist sem samkrullið hafi reynst hættulegt við breytt rekstrarskilyrði á árunum fyrir hrun.

Sparisjóðurinn í Keflavík var rúmlega 100 ára þegar hann féll. Hann var eitt af flaggskipum Suðurnesjamanna, stoð samfélagsins sem naut trausts og virðingar. Íbúar Suðurnesja fjárfestu óhræddir í stofnbréfum, sumir í gróðavon rétt fyrir hrun og fóru ógætilega í lántökum til að fjármagna kaupin, en langflestir bundu sparifé sitt í stofnbréfum þegar færi gafst og töldu það góða fjárfestingu sem gæfi arð sem njóta mætti á efri árum.

Sparisjóðurinn reyndist hins vegar ekki traustsins verður. Við fall Sparisjóðsins í Keflavík töpuðu margir miklum fjármunum. Flestir þeirra gerðu sér vonir um að við uppgjör ætti bankinn eignir sem skiluðu sér til eigenda hans. Þær vonir rættust ekki því að sjóðurinn stóð strípaður eftir fallið og greiða þurfti um 20 milljarða úr ríkissjóði til að bjarga almennum innstæðum.

Við slíkar aðstæður er eðlilegt að menn velti fyrir sér hvernig standi á þessum ósköpum. Hvers vegna var fall Sparisjóðsins í Keflavík svo hátt? Voru það ákvarðanir stjórnenda bankans sem gerðu fallið svo stórkostlegt? Voru það kannski ákvarðanir stjórnarmanna sem mestum usla ollu? Voru þeir sem bankinn lánaði peninga ekki traustsins verðir?

Yfir þessu hafa Suðurnesjamenn velt vöngum og beðið eftir þeirri rannsóknarskýrslu sem við ræðum hér í þeirri von að í henni væru svör við þessum áleitnu spurningum.

Nefndin sem skrifaði skýrsluna vísaði 21 máli til frekari skoðunar. Ekki er vitað hvaða mál það eru en það hlýtur að skýrast fljótlega. Suðurnesjamenn vilja fá svör við því hvernig sparisjóðurinn þeirra, sem árlega gumaði af svo feiknargóðri afkomu og blómlegu búi, gat hrunið með svo miklum skelli og tjóni fyrir stofnfjáreigendur sem og skattgreiðendur í landinu.

Því hefur verið haldið fram að í raun hafi Sparisjóðurinn í Keflavík verið rekinn með tapi í alllangan tíma fyrir hrun ef litið væri einungis til grunnstarfsemi hans. Síðustu árin hafi gengishagnaður af hlutabréfum í Kaupþingi og síðar Existu verið ástæðan fyrir jákvæðum tölum í bókhaldi bankans. Þetta staðfestir rannsóknarskýrslan um fall sparisjóðanna. Þessar eignir skiluðu hagnaði ár eftir ár og virði þeirra hækkaði stöðugt um tíma, þ.e. bókfært virði, hagnaðurinn var í bókunum en ekki í raunverulegum krónum. Þessi bókfærða eignastaða gerði það meðal annars að verkum að sparisjóðurinn átti auðvelt með fjármögnun.

Ástandið innan sparisjóðsins virðist ekki hafa gert ríka kröfu til stjórnenda bankans um að vanda reksturinn. Það var næstum því sama hvað gert var, sparisjóðurinn skilaði flottum ársreikningi vegna þessara eigna sem hækkuðu stöðugt í verði. Við þessar aðstæður má segja að tengslin við nærumhverfið hafi frekar verið ógn en stuðningur. Lánveitingar voru til starfsmanna og fyrirtækja þeirra, bæjarfulltrúa og fyrirtækja þeirra, fyrirtækja tengdum stjórnarmönnum o.s.frv. Veð voru ótrygg í mörgum tilfellum og því virði eigna sparisjóðsins ekki mikið þegar á reyndi. Sparisjóðurinn í Keflavík virtist einnig hafa verið nýttur sem tæki til að tryggja að sumir viðskiptavinir hans gætu orðið ríkir eins og margir aðrir á þessum tímum.

Haustið 2008 átti Sparisjóðurinn í Keflavík í miklum vanda, m.a. lausafjárvanda. Sveitarstjórnarmönnum var talin trú um að vandinn væri tímabundinn og mikilvægt væri að sveitarfélögin yfirgæfu ekki bankann heldur legðu til hans allt það fé sem mögulegt væri. Sveitarstjórnarmenn lögðu áherslu á að leitað væri leiða til að varna falli sparisjóðsins enda ríkir hagsmunir stofnfjáreigenda og annarra íbúa í húfi.

Sveitarfélögin höfðu selt hlut sinn í Hitaveitu Suðurnesja um mitt ár 2007 og geymdu stærstan hluta sjóða sinna í reikningum sparisjóðsins. Að því kom að greiða þyrfti fjármagnstekjuskatt upp á um 1 milljarð kr. til ríkisins og sveitarfélögin þurftu að greiða það af reikningum sínum í sparisjóðnum haustið 2008. Sparisjóðurinn leitaði til fjármálaráðuneytisins og fór þess á leit að ríkissjóður stofnaði sérstakan innlánsreikning hjá Sparisjóðnum í Keflavík til að taka á móti þessum skattgreiðslum frá sveitarfélögunum. Fram kemur í skýrslunni að á þeim tíma hafi lausafjárstaða sparisjóðsins ekki verið nema tæpar 255 millj. kr. upp í þennan milljarð og sparisjóðurinn ekki rekstrarhæfur ef til útgreiðslunnar hefði komið. Fjármálaráðuneytið heimilaði stofnun reikningsins að höfðu samráði við Seðlabanka Íslands. Rökin voru þau að verið væri að vinna úttekt á stöðu sparisjóða í landinu og ráðuneytið hefði ákveðið að verða við þessari bón sparisjóðsins á meðan beðið væri niðurstöðu vinnuhóps. Fjármálaráðuneytið taldi að um lausafjárvanda væri að ræða, eins og stjórnendur bankans héldu fram, en ekki eignavanda. Með stofnun reikningsins var hugsunin sú að brúa bilið á meðan lausafjárvandinn gengi yfir.

Í desember 2008 greiðir Þróunarfélag Keflavíkurflugvallar inn á viðskiptareikning sinn í sparisjóðnum tæpar 1.230 milljónir, en félagið átti að standa skil á þeirri upphæð til ríkissjóðs vegna sölu eigna á flugvallarsvæðinu. Með réttu hefði félagið átt að greiða þessa upphæð til Seðlabanka Íslands en greiddi hana inn á viðskiptareikning sinn í sparisjóðnum. Skattar af fjármagnstekjum viðskiptavina sparisjóðsins voru eftir munnlegt samráð við fjármálaráðuneytið skráðir sem innlánsskuldbinding við ríkissjóð upp á 929 millj. kr.

Heimild fjármálaráðuneytisins átti einungis að taka til greiðslu sveitarfélaga á fjármagnstekjuskatti. Samningsgreiðslur Þróunarfélags Keflavíkur, greiðsla á staðgreiðslu fjármagnstekjuskatts og greiðsla ónefnds einkahlutafélags inn á innlánsreikning ríkissjóðs í Sparisjóðnum í Keflavík voru gerðar án heimildar fjármálaráðuneytisins.

Á þessum tíma var pólitískur þrýstingur á fjármálaráðuneytið um að bjarga því sem menn töldu tímabundinn lausafjárvanda sparisjóðsins. Hugsanlega hefði fjármálaráðuneytið staðist þann þrýsting ef fjármálaráðherra hefði ekki verið fyrsti þingmaður kjördæmisins og aðstoðarmaður hans bæjarfulltrúi sjálfstæðismanna í Reykjanesbæ. Kannski hefði Þróunarfélagið ekki lagt greiðslu vegna sölu eignar ríkisins inn á reikning sparisjóðsins ef stjórnarmaður félagsins hefði ekki verið bæjarstjóri Reykjanesbæjar og formaður stjórnar sparisjóðsins fulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Reykjanesbæ. Þessum spurningum fáum við ekki svarað en ljóst er að hagsmunir voru þarna samofnir.