143. löggjafarþing — 97. fundur,  28. apr. 2014.

breyting á lögum um veiðigjöld.

[15:07]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil beina máli mínu til hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra. Nú hefur verið dreift hér á Alþingi frumvarpi um breytingar á lögum um veiðigjöld. Af því má ráða að í kjölfar þeirra misráðnu breytinga sem gerðar voru hér í sumar og fólu í sér lækkun veiðigjaldsins þá sé áfram hægt að búast við því að veiðigjaldið lækki á þessu ári og næsta, um milljarð á þessu ári og 1,8 á næsta ári. Að hluta til endurspeglar þessi lækkun lækkandi afurðaverð fyrir einstakar greinar sjávarútvegsins en það er líka ljóst, af því frumvarpi sem nú er lagt fram, að nú erum við að fá í hendur betri tæki til þess að leggja veiðigjöld á þannig að þau endurspegli afkomu í veiðum á einstökum tegundum.

Ég vil því spyrja hæstv. ráðherra hvernig hann hyggist bregðast við þessum staðreyndum því að þetta hefur áhrif á ríkisfjármálaáætlun eins og ráða má af umsögn fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins með frumvarpinu. Er í fyrsta lagi ekki ráð að leggja gjald á nýjar tegundir, upphafsgjald í makríl, að leggja gjald á veiðar á tegundum sem ekki hafa áður verið hluti af hlutdeildarkerfinu en koma nú nýjar inn? Fyrir því eru rík efnisleg rök að gera það og þannig gæti verið hægt að fá tekjur sem gætu brúað þetta bil og jafnvel gert betur en það. Og er ekki ástæða til þess að hugsa upp á nýtt þá stefnumörkun sem ríkisstjórnin hófst handa um, að lækka veiðigjöldin á þá sem best geta staðið undir þeim, í ljósi þeirrar nýju aðferðafræði sem nú er lagt upp með? Nú er verið að gefa okkur tækifæri til að leggja gjöldin á þannig að þau endurspegli betur afkomu í einstaka veiðiflokkum. Er þá ekki ástæða til að hugsa upp á nýtt hvernig við leggjum gjöldin á að öðru leyti?