143. löggjafarþing — 97. fundur,  28. apr. 2014.

ríkisfjármál og skuldaleiðrétting.

[15:26]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf):

Virðulegi forseti. Það er mjög mikilvægt að fá þessa forgangsröðun alveg skýra og ég vil leyfa mér að lýsa því yfir að ég er algerlega ósammála henni. Ég held að eftir langvarandi niðurskurðartíma sé miklu mikilvægara að fara að setja fé í uppbyggingu í menntakerfinu, í uppbyggingu á rannsóknum og þróun, í uppbyggingu á fjölbreyttu atvinnulífi svo dæmi séu tekin. Ég held að heilbrigðiskerfið sé komið á ystu nöf, og var það þegar við afgreiðslu fjárlaga síðast. Það verður gríðarleg fjárþörf þar þegar við förum að afgreiða fjárlög hér næst.

Við verðum komin á þann stað að við jafnvel gleymum bara svona risastórum viðhaldsfrekum tekjuliðum eins og vegakerfinu. Það að ráðast ekki í viðhald þar er einfaldlega lántaka frá komandi kynslóðum. Það að greiða niður skuldir ríkissjóðs, þó að ríkissjóður eigi einhverjar eignir á móti, væri mjög viturleg fjárfesting. Það er sem sagt alveg skýrt að þegar upp mun koma krafa um (Forseti hringir.) fjárútlát í alls konar mikilvæg verkefni í þágu betra mannlífs og betri innviða (Forseti hringir.) þá nýtur skuldaleiðréttingin upp á 20 milljarða forgangs. (Forseti hringir.) Hún verður þá fjármögnuð með niðurskurði annars staðar.