143. löggjafarþing — 97. fundur,  28. apr. 2014.

aðgerðir í þágu leigjenda.

[15:29]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegi forseti. Þær fréttir berast í dag að leigjendum hafi farið mjög fjölgandi og við höfum heyrt mikið af versnandi kjörum fólks á leigumarkaði. Nú er það kunnara en frá þurfi að segja að þegar hér komu fram tillögur um 80 milljarða aðgerðir í þágu skuldugra heimila, þ.e. þeirra sem eiga eigin heimili, sætti það nokkurri gagnrýni að þar voru leigjendur algerlega skildir eftir. Þá boðaði ríkisstjórnin að þegar á næsta ríkisstjórnarfundi yrði fjallað um sérstakar aðgerðir í þágu leigjenda. Það var löngu fyrir páska.

Nú vil ég vita hjá hæstv. fjármálaráðherra hversu miklum fjármunum hann hefur ákveðið að ráðstafa í aðgerðir í þágu leigjenda. Við sem höfum keypt okkar eigin húsnæði fáum 80 milljarða stuðning úr ríkissjóði, 20 milljarða á hverju ári, en hversu miklu fé hefur ríkisstjórnin ákveðið að ráðstafa í þágu leigjenda? Þeir urðu augljóslega fyrir sömu verðbólguáföllum og við hin sem eigum húsnæði okkar því að leiguverðið sem þau þurfa að borga hækkaði sannarlega í takt við vísitölu og sennilega gott betur en lánin gerðu hlutfallslega. Hversu miklum fjármunum hefur ríkisstjórnin ákveðið að ráðstafa í þetta? Og er ekki alveg öruggt að leigufélögunum sem leigja fátækasta fólkinu og búseturéttarfélaginu verði bættur forsendubresturinn eins og okkur hinum sem eigum húsnæði okkar? Ef ráðherrann má vera að vil ég líka spyrja um séreignarsparnaðarleið Sjálfstæðisflokksins og jafnræði. (Forseti hringir.) Getur ráðherrann ekki fallist á að örorkulífeyrisþegar og ellilífeyrisþegar eigi líka að fá að spara 6% skattfrjálst af lífeyristekjum sínum eins og við hin sem höfum launatekjur?