143. löggjafarþing — 97. fundur,  28. apr. 2014.

aðgerðir í þágu leigjenda.

[15:32]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Herra forseti. Markvissasta aðgerðin til að koma til móts við þá sem eru á húsnæðismarkaði, sama hvort það eru þeir sem hafa keypt sitt eigið húsnæði eða eru á leigumarkaði, er að ná tökum á ríkisfjármálunum og byggja undir forsendur fyrir lækkun vaxta. Lægri vextir munu skila sér í hagstæðari leigukjörum og hagstæðari vaxtakjörum fyrir þá sem kaupa húsnæði.

Nú hafa borist fréttir af því að leigugjöldin hjá þeim sem eru á leigumarkaðnum hafi verið að hækka mjög ört. Þar tel ég að spili mjög inn í lögmálin um framboð og eftirspurn. Ég tel að Reykjavíkurborg hafi algerlega brugðist í því að tryggja nægilegt framboð af lóðum til uppbyggingar á húsnæði sem mætir þeirri gríðarlega miklu eftirspurn sem greinilega er til staðar. (HHj: En Garðabær?) Kannski gætu fleiri sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu tekið það til sín en við höfum tekið eftir því að bæði í Kópavogi og í Garðabæ hefur verið byggt gríðarlegt magn af fjölbýlishúsum á undanförnum árum, langt umfram það sem áður tíðkaðist, fyrst menn eru að kalla það hér sérstaklega fram í. Þetta tel ég að sé grundvallaratriði í umræðunni um kjör þeirra sem eru á leigumarkaði, og þeirra sem hyggja á fasteignakaup, að við byggjum undir þau skilyrði í landinu að vextir geti lækkað. Það mun skila sér beint í lægri leigugjöldum og almennt vaxtagjöldum fyrir heimilin.

Það er á verksviði félagsmálaráðherra að kynna aðgerðir af þeim toga sem hér er verið að kalla eftir og þær hafa ekki verið afgreiddar frá ríkisstjórn.(Forseti hringir.) Þess vegna er ekki hægt að greina frá því að tekið hafi verið til hliðar sérstakt fé til að mæta þeim ráðstöfunum. (Forseti hringir.) En það er til skoðunar að taka stuðning við heimilin heildstætt til endurskoðunar.