143. löggjafarþing — 97. fundur,  28. apr. 2014.

aðgerðir í þágu leigjenda.

[15:35]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Það hefur legið fyrir frá upphafi að aðgerðir vegna þeirrar miklu verðbólgu sem hér geisaði á árunum 2008 og 2009 beindust sérstaklega að þeim sem skulduðu verðtryggð lán á þeim tíma. Það er ekki nýtt að menn komi hér inn í umræðuna og segi: Ja, þá eru þeir sem voru á leigumarkaði út undan. Aðgerðin var sérstaklega sniðin að áhrifunum af verðbólgunni á verðtryggðu lánin, það var bara svo einfalt og þetta hefur legið fyrir allan tímann.

Hvað er þá hægt að gera til að styrkja stöðu leigjenda á leigumarkaði? Ég hef hér verið að tala um vextina. Ég hef talað um framboð af húsnæði, lóðum og byggingarmagni, til að mæta þeirri miklu eftirspurn. Hér eru að verki lögmál um framboð og eftirspurn og í félagsmálaráðuneytinu er unnið að endurskoðun á stuðningskerfunum sem verður kynnt á næstunni og þar munu leigjendur svo sannarlega koma inn í myndina. En við getum ekki útilokað það, sérstaklega þegar svona mikill skortur er á framboði, að stórauknar húsaleigubætur mundu lítið annað gera en ýta undir enn frekari hækkun á leiguverði.