143. löggjafarþing — 97. fundur,  28. apr. 2014.

málefni hælisleitanda.

[15:37]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Við höfum áður í vetur rætt um hælisleitendur og í dag var boðuð mótmælastaða fyrir utan ráðuneyti hæstv. ráðherra vegna þess að ungur afganskur hælisleitandi hefur verið í hungurverkfalli. Þessi ungi maður, sem kemur frá Afganistan 16 ára gamall, hefur verið hér í tvö ár og hefur ekki fengið sín mál tekin fyrir á efnislegum forsendum, er sagt í fréttum. Honum var synjað um hæli í Svíþjóð og er óskað eftir því, samkvæmt upplýsingum frá lögmanni hans, að mál hans verði tekið fyrir og meðferðinni flýtt í ljósi þeirra aðstæðna sem hann er hér í.

Það var búið að hafna honum á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar, það er líka búið að hafna honum í Svíþjóð. Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra hvort hún viti hver ástæðan fyrir þeirri höfnun er. Það er afar dapurlegt þegar svo ungur maður eins og hér er um að ræða sér ástæðu til að fá að deyja hér á landi fremur en að vera sendur til baka aftur. Ég spyr hvort við getum eitthvað gert fyrir hann og hvort það sé meiningin, hvort verið sé að vinna að hans málum.

Við höfum rætt það hér að beita flýtimeðferð og þetta er eitt af þessum eldri málum sem hefði þá átt að fara inn í þann ramma, hefði ég talið. Eins og kemur fram er hann búinn að bíða hér í tvö ár. Þetta er afar dapurlegt að í 20 mánuði, að hans sögn, hefur í raun enginn haft (Forseti hringir.) afskipti af honum. Hann hefði viljað fara hér í skóla eða út á vinnumarkaðinn.