143. löggjafarþing — 97. fundur,  28. apr. 2014.

málefni hælisleitanda.

[15:39]
Horfa

innanríkisráðherra (Hanna Birna Kristjánsdóttir) (S):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina. Ég veit að þingheimur þekkir það jafn vel og sú sem hér stendur að um málefni einstakra hælisleitenda er ráðherra ekki heimilt að tjá sig og ekki heldur um einstaka ástæður fyrir því að viðkomandi hælisleitanda var synjað í Svíþjóð á árinu 2012. Hann hefur hins vegar verið hér, eins og hefur komið fram í fréttum, í nokkurn tíma og ég tek undir það einlæglega með hv. þingmanni, og ég veit að við erum öll sammála um það, að málsmeðferðartíminn í þessu máli eins og svo mörgum öðrum er algjörlega óviðunandi, að einstaklingar séu að bíða hér trekk í trekk í marga mánuði, jafnvel í hátt á annað ár, og dæmi eru um að það hafi tekið lengri tíma en það, er óásættanlegt.

Þess vegna er í gangi mjög mikilvæg og öflug vinna af hálfu þverpólitísks þingmannahóps, undir forustu hv. þm. Óttars Proppés, þar sem farið er yfir leiðir til að vinna bug á þessum langa tíma, auk þess sem hér liggur fyrir frumvarp, sem ég vona að verði afgreitt fyrir þinglok, sem gerir ráð fyrir að við getum breytt þessu og komið í veg fyrir þennan langa tíma sem það tekur einstaklinga að bíða eftir svari. Ég vil hafa sagt það fyrst, það er óviðunandi.

Hvað varðar aðkomu ráðuneytisins að þessu einstaka máli, án þess að fara inn í það sérstaklega, þá er það hins vegar þannig að ráðuneytið hefur fylgst með ástandi mannsins í góðu samstarfi við Félagsþjónustuna hér í Reykjavík og í góðu samstarfi við Rauða krossinn þar sem farið er yfir þau mál. Við höfum lagt áherslu á það í ráðuneytinu að þetta mál fái flýtimeðferð í ljósi þess ástands sem einstaklingurinn býr við. En eins og þingheimur þekkir er það ekki eitthvað sem getur gerst alveg strax, að afgreiðslan verði, en við viljum hins vegar tryggja að eins hröð meðferð og möguleg er verði í ráðuneytinu. Við fylgjumst með málinu og tryggjum það einnig í samstarfi við Rauða krossinn og Félagsþjónustuna hér í Reykjavík að viðkomandi aðili fái þá heilbrigðisþjónustu og þá vörn sem honum ber við þær aðstæður sem hann býr við.

Ég vona innilega, virðulegur forseti, að okkur takist með þeim breytingum sem nú eru í undirbúningi, bæði (Forseti hringir.) í ráðuneytinu og hér á vettvangi þingsins, að koma í veg fyrir að við stöndum frammi fyrir svona stöðu, því að eins og kom fram í máli fyrirspyrjandans hefur (Forseti hringir.) viðkomandi aðili beðið hér síðan 2012.