143. löggjafarþing — 97. fundur,  28. apr. 2014.

stuðningur við dæmda menn erlendis utan fangelsis.

384. mál
[16:01]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Herra forseti. Það er líkast til fátítt að þingmaður sem ber fram fyrirspurn til ráðherra hefji hana á því að þakka honum fyrir fram fyrir að svara. Ég ætla samt sem áður að þakka hæstv. utanríkisráðherra fyrir að taka að sér að svara þessari fyrirspurn. Það er ekkert sjálfgefið því að þau málefni sem ég spyr um og varða íslenska fanga sem dvelja erlendis fjarri ættjörðinni eru nefnilega þess eðlis að þau falla eiginlega ekki undir ábyrgðarsvið neins ráðuneytis eða ráðherra. Það er þess vegna sem ég er hæstv. ráðherra þakklátur fyrir að vilja svara þessu.

Hér er um mikilvæga hagsmuni að ræða fyrir einungis örfáa einstaklinga en þetta eru einstaklingar sem oft eiga um mjög sárt að binda og það er mikilvægt að þessi mál liggi fyrir. Þegar ég gegndi því embætti sem hæstv. ráðherra Gunnar Bragi Sveinsson er í núna komst ég að raun um að líkast til eru engir Íslendingar í jafn vondri stöðu og þeir sem örlögin hafa kosið það hlutskipti að vera dæmdir til refsivistar í fangelsum fjarri Íslandi, oft í álfum eða löndum þar sem mjög langt er heim að sækja og erfitt að hafa nokkur tengsl við þá af vinum og fjölskyldu og oft og tíðum á stöðum þar sem mannréttindi eru fótum troðin og jafnvel einskis virt. Það er líka oft þannig að þetta eru einstaklingar sem hafa lengi velkst að heiman. Þeir hafa brotið og brennt allar brýr að baki sér, eiga kannski enga fjölskyldu sem sinnir þeim lengur, eru búnir að tapa vinum sínum og hafa ekki lengur það stuðnings- og tengslanet sem við hin byggjum upp í gegnum líf okkar og getum gripið til þegar í nauðir rekur. En það er samt þannig, eins og ég þekki af reynslunni, að utanríkisráðuneytið gleymir ekki þessum minnstu bræðrum og systrum okkar. Það lítur reglulega til með þeim og þótt við höfum oft ekki sendiráð í þessum löndum búum við að öflugu ræðismannaneti og það ber að þakka þessum ræðismönnum fyrir það hversu ósérhlífið starf þeir inna af höndum og leggja oft út í mikinn kostnað án þess að fá nokkuð í staðinn. Stundum ná þeir mönnum út úr fangelsum en í þeim tilvikum sæta þeir yfirleitt farbanni meðan á reynslulausninni stendur. Þá blasir hins vegar við sú staða að mennirnir eiga ekki rétt á nokkrum bótum, hvorki frá kerfi viðkomandi lands né Íslandi. Þeir hafa engan stuðning frá fjölskyldu sinni og þeir mega ekki sjá sér farborða með vinnu. Sú staða hrindir þeim oft aftur út á ógæfubrautina.

Það er að vísu þannig að með skapandi túlkun má segja að að lögum beri sveitarfélögum þar sem þeir eiga lögheimili að sjá þeim farborða en það eru dæmi um annað. (Forseti hringir.) Sumir þeirra eiga ekki lögheimili lengur á Íslandi. Þess vegna spyr ég hæstv. ráðherra: Hvaða félagslegu aðstoð eiga samlandar okkar kost á við þessar aðstæður?