143. löggjafarþing — 97. fundur,  28. apr. 2014.

stuðningur við dæmda menn erlendis utan fangelsis.

384. mál
[16:05]
Horfa

utanríkisráðherra (Gunnar Bragi Sveinsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir spurninguna. Á undanförnum árum hefur sú staða komið upp hjá nokkrum íslenskum föngum, sérstaklega í Suður-Ameríku, að þeir hafa fengið reynslulausn þegar þeir hafa afplánað ákveðinn hluta dómsins. Þrátt fyrir það mega þeir ekki yfirgefa ríkið fyrr en sá tími er liðinn sem nemur tímalengd refsivistarinnar sem þeir voru dæmdir til að afplána. Þessir einstaklingar hafa ekki atvinnuleyfi og þar af leiðir að þeir geta ekki séð sér farborða með launavinnu í því landi sem þeir eru fastir í.

Til samanburðar má nefna að þegar þessi staða kemur upp innan Evrópska efnahagssvæðisins hafa þeir sem eru í þessari stöðu aðgang að vinnumarkaði. Eftir því sem best er vitað er enginn íslenskur fangi þessa stundina við þessar aðstæður erlendis. Það er líka skýrt og nauðsynlegt að það komi fram að utanríkisráðuneytið sem slíkt hefur ekki yfir að ráða neinum fjárheimildum til styrktar tilvikum þessum en það er rétt hjá hv. þingmanni að utanríkisráðuneytið beitir að sjálfsögðu sínum tengingum, sendiráðum og ræðismönnum, til að aðstoða þessa einstaklinga eins mikið og mögulegt er. Þegar svona staða hefur komið upp hefur fjölskyldum og nánum aðstandendum verið bent á að leita til félagsþjónustu sveitarfélaga þar sem fangi er skráður með lögheimili og er það í samræmi við lög um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991.

Því er við að bæta að í þeim örfáu tilfellum sem þessi staða hefur komið upp hafa fjölskyldur eða aðstandendur oftar en ekki hlaupið undir bagga og efnt til samskota til að afla viðkomandi einstaklingum lífsviðurværis meðan svona stendur á. Utanríkisráðuneytinu er ekki kunnugt um einstakar afgreiðslur á styrkveitingarbeiðnum til sveitarfélaga vegna þessa, enda engin tilkynningarskylda í þeim efnum. Við höfum samt vitneskju um að þau tilfelli eru fyrir hendi að fangar hafi verið styrktir af sveitarfélögum sínum.

Mig langar til að bæta því við þetta formlega svar að það er mjög brýnt að velta því upp að við skoðum hvort hér þurfi að bæta úr og hvort það er innan félagsþjónustulaganna eða hvort við þurfum að taka önnur lög eða reglur til endurskoðunar, því að það má alveg gera ráð fyrir að þessi dæmi haldi áfram að koma upp. Þau eru sem betur fer sárafá en með auknum ferðalögum og opnari heimi, eins og við þekkjum, má gera ráð fyrir að þessi staða geti komið oftar upp en áður og því er spurningin sem þingmaðurinn lagði fram mjög verðug.