143. löggjafarþing — 97. fundur,  28. apr. 2014.

samstarf á norðurskautssvæðinu og staða Íslands.

388. mál
[16:19]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin. Út af fyrir sig gleður það mig og það er jákvætt að hæstv. ráðherra hefur beitt sér í málinu og gert sig gildandi, m.a. með þeim bréfaskriftum sem hann upplýsti hér um. Í þeim svörum sem hæstv. ráðherra vísaði til finnst mér birtast að þróun þessara mála er algjörlega óásættanleg fyrir Ísland. Það er með öllu ólíðandi, svo það sé bara sagt, að okkur sé haldið skipulega utan við samstarf þessara ríkja þegar kemur t.d. að því að véla um fiskveiðistjórn á alþjóðlegum hafsvæðum þar sem við eigum fullan rétt eins og hver annar aðili. Það hlýtur líka að eitra samstarfið innan heimskautaráðsins ef það er klofið upp með þessum hætti að ástæðulausu. Ég hygg að menn hefðu skilning á því að landlukt Svíþjóð og Finnland, sem eiga aðild að ráðinu vegna svæða sinna norðan heimskautsbaugs, væru ekki í sömu stöðu hvað þetta varðar, en að halda Íslandi fyrir utan tel ég algjörlega fráleitt og að það eigi að vera forgangsverkefni okkar að krefjast þess að við fáum fullgilda aðild að þessu.

Það getur orðið mjög bagalegt að standa frammi fyrir að einhverju leyti gerðum samningum milli þessara ríkja og veitti ekki af að hafa Ísland þar með við borðið út frá þeim almennu sjónarmiðum sem við höfum varðandi fiskveiðar o.s.frv. Satt best að segja held ég að Norðmenn séu að gera mikil mistök og þess vegna Danir líka, að hafa ekki liðsstyrk Íslands með í þessu starfi, því að mér býður svo í hug að það sé við ramman reip að draga á köflum þegar kemur að Bandaríkjunum og jafnvel Kanada varðandi ýmis sjónarmið um að þessi svæði eigi að vera tekin frá og geymd án nokkurra nýtingarsjónarmiða hvað varðar fiskstofna. Þarf þá ekki að fara í grafgötur um hversu alvarlegt slíkt gæti orðið ef göngumynstur stofna heldur áfram að breytast og við vildum fara að sækja hlutdeild okkar (Forseti hringir.) t.d. í deilistofnana að einhverju leyti norður af þessum svæðum.

Hér er því um stórmál að ræða sem ég hvet hæstv. ráðherra til að halda áfram að fylgja fast eftir.