143. löggjafarþing — 97. fundur,  28. apr. 2014.

samstarf á norðurskautssvæðinu og staða Íslands.

388. mál
[16:21]
Horfa

utanríkisráðherra (Gunnar Bragi Sveinsson) (F):

Virðulegur forseti. Ég fagna því mjög að við séum, að mér heyrist, öll sammála um hvað þarf að gera hér, hvað þarf að verja. Enda tel ég að þeir ágætu fyrrverandi ráðherrar sem hér hafa talað hafi reynt að berja á þessu máli meðan þeir voru í ríkisstjórn, á meðan þeir höfðu þau tækifæri sem sá er hér stendur hefur í dag, að tala máli Íslands (Gripið fram í.) þegar kemur að þessu máli, án þess þó að hafa náð miklum árangri. Við munum því halda áfram í sameiningu að reyna að ná árangri í þessu máli og koma Íslandi að borðinu.

Það er alveg rétt sem hv. þingmaður og fyrirspyrjandi, Steingrímur J. Sigfússon, segir hér, þetta er ólíðandi. Það er ólíðandi að okkur sé haldið þarna frá, því að að okkar mati eigum við skýrra hagsmuna að gæta og eigum rétt á að vera þarna.

Jú, við höfum notað hvert tækifæri til þess að mótmæla þessari ráðstöfun og því hvernig þessi fimm ríki, þessir vinir okkar og samstarfsmenn, haga þessum málum. Þegar yfirlýsing kom 27. febrúar mótmæltum við að sjálfsögðu. Embættismenn hafa líka gert það fyrir okkar hönd á fundum og ég hef gert það við samráðsnefndina. Það er ekki hægt að horfa á þetta aðgerðalaus en okkur eru líka takmörk sett varðandi það hvað við getum seilst langt, því að réttarstaða okkar á norðurslóðum er kannski ekki alveg kýrskýr að öllu leyti. En þarna teljum við okkur eiga sjálfsagðan rétt.

Ég fagna þessari umræðu og skil hana þannig að við séum sammála um að halda áfram að tala máli Íslands í þessu máli.