143. löggjafarþing — 97. fundur,  28. apr. 2014.

tollfrjáls útflutningur landbúnaðarafurða.

560. mál
[16:23]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Herra forseti. Ég veit að hæstv. ráðherra gleðst alltaf ef maður spyr hann út í samninga við Evrópusambandið. Að þessu sinni ætla ég þó ekki að spyrja hann út í aðildarviðræðurnar heldur út í stöðu þeirra samninga sem við höfum átt í síðan 2012 við Evrópusambandið um hækkun á heimildum til þess að flytja inn tollfrjálst á markaði Evrópusambandslanda lambakjöt og skyr. Í dag viðrar einkar vel til útflutnings í þessum tilteknu tegundum framleiðslu úr íslenskum landbúnaði. Ýmiss konar breytingar hafa leitt til þess að meiri eftirspurn er eftir lambakjöti en sennilega nokkru sinni fyrr á erlendum mörkuðum. Við sjáum það t.d. speglast í því að verð eins og það er a.m.k. skráð á heimasíðu OECD sem viðmiðunarverð fyrir lambakjöt hefur hækkað á undanförnum árum. Miðað við rannsóknir hv. þm. Guðlaugs Þórs Þórðarsonar sem birti pistil um það á heimasíðu er verðið núna 60% hærra en t.d. það sem bændur fá til sín á Íslandi.

Einnig hafa orðið ákveðnar breytingar í löndum eins og Nýja-Sjálandi sem hefur verið eitt helsta útflutningsland lambakjöts inn á markaði Evrópusambandsins. Þar hefur sú breyting orðið að fríverslunarsamningur milli Kína og Nýja-Sjálands hefur leitt til breytinga á búháttum, menn hafa fært sig úr hinni hefðbundnu kindakjötsframleiðslu yfir í mjólkuriðnað. Svipað hefur líka gerst í Ástralíu. Þetta hefur leitt til þess að dregið hefur aðeins úr þeim 300 þús. tonnum sem þessi lönd og nálæg flytja inn á markaði Evrópusambandsins. Því hefur orðið meiri eftirspurn eftir íslensku lambakjöti en ég held að hægt sé að finna dæmi um hér áður fyrri.

Við erum í dag í reynd með sama kvóta á lambakjöt og var þegar þrjú Norðurlandanna gengu inn í Evrópusambandið. Þá voru tvö þeirra með í kringum 600 tonn hvort. Ég held að við höfum í dag um 1.850 tonn.

Tildrög þess að við fórum í þessa samninga fyrst með óformlegum þreifingum 2011 og síðan formlegum viðræðum 2012 voru vitaskuld að þetta skynja framleiðendur hér á landi. Það voru þeirra óskir sem leiddu til þess að í þetta var farið. Samkvæmt 19. gr. landbúnaðarkaflans í EES-samningnum ber EES- og EFTA-löndum ásamt ESB að kanna reglulega hvort mögulegt sé að auka fjölbreytni viðskipta með landbúnaðarvörur og auka þau. Það er því gagnkvæm skylda á okkur og ESB að skoða þessa möguleika. Þar að auki hefur það gerst í fyrsta skipti að kaupendur innan Evrópusambandsins leita eftir þessu gagnvart framkvæmdastjórninni. Þess vegna er lag núna.

Mig langar því til að spyrja hæstv. ráðherra um stöðu þessara samninga og sömuleiðis hverjar gagnkröfur (Forseti hringir.) viðsemjandans voru í upphafi.