143. löggjafarþing — 97. fundur,  28. apr. 2014.

húsakostur Landspítalans.

394. mál
[16:45]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Sigríður Ingibjörg Ingadóttir) (Sf):

Herra forseti. Ég þakka ráðherra ítarlega yfirferð og er mjög ánægð með að hann sé að vinna í þessu máli eftir fremsta megni.

Ég vil líka velta því upp hvort ekki sé rétt, nú þegar þessar tvær úttektir liggja fyrir, annars vegar frá Landspítalanum ohf. og hins vegar frá Hagfræðistofnun, að ráðherra gefi hreinlega skýrslu í þinginu. Þetta er það stórt og mikilvægt mál að það er eðlilegt að við fáum tækifæri til að ræða það hér.

Þá vil ég líka segja að ég tel mjög mikilvægt að ríkið reki Landspítalann að öllu leyti. Það er meðal annars í þeim sameiginlega rekstri sem rekstrarhagræðið næst fram. Lögunum var breytt því að það þótti mikilvægt að breyta þessu í ríkisframkvæmd, enda eru staðlar varðandi — nú man ég ekki nafnið, herra forseti, en þegar á að færa slíkt verk í ríkisbókhald telst það ríkisframkvæmd hvernig svo sem verkið er fjármagnað og hvernig sem því vindur fram. Það eru enda engir aðilar til lengri tíma sem mundu taka yfir fjármögnun og rekstur á slíku sjúkrahúsi. Þess vegna þótti eðlilegt að hafa hreinar línur í þessu efni.

Svo vil ég minna á að það var mikil samstaða um þetta mál í þinginu á síðasta kjörtímabili meðal allra þingflokka nema þingflokks Framsóknarflokksins.

Ég vil ítreka við hæstv. heilbrigðisráðherra að hann hefur dyggan stuðning hér, a.m.k. frá tveimur stærstu flokkunum í minni hluta, Samfylkingu og Vinstri hreyfingunni – grænu framboði, sem lögðu mikið á sig til að ná (Forseti hringir.) þessum málum áfram rétt eftir hrun.