143. löggjafarþing — 97. fundur,  28. apr. 2014.

Siglufjarðarvegur og jarðgöng.

469. mál
[16:49]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Kristján L. Möller) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég hef leyft mér að leggja fram fyrirspurn til hæstv. innanríkisráðherra um Siglufjarðarveg. Ég spyr: Er hætta á að vegurinn til Siglufjarðar um Almenninga rofni varanlega vegna jarðsigs? Hver yrði lengd jarðganga frá Siglufirði og yfir í Fljót? Hvaða leið er talin heppilegust? Hvað er áætlað að kostnaður við jarðgangagerð yrði hár?

Síðari liður spurningarinnar snýr að framtíðarlausn sem ég ætla að koma að síðar.

Virðulegi forseti. Siglufjarðarvegur á Almenningum var lagður 1965–1966 í tengslum við Strákagöng sem þá voru gerð og opnuð 1967. Ég segi: því miður var sú leið farin. Það stóð ekki til í byrjun að gera þarna jarðgöng heldur var talað um veg fyrir Tröllaskagann sem reyndist svo ókleift, og þá voru göngin gerð. Það hefði verið betra ef strax hefði verið farið inn úr Siglufirði og til Fljóta en því miður var það ekki gert.

Frá þessum tíma hefur verið varanlegt vandamál með veginn vegna jarðsigs á ákveðnum kafla. Við höfum séð það sem förum oft um þennan veg að það er að aukast. Þarna er brot í vegi á 16–18 stöðum. Maður getur séð að sjórinn neðan við er litaður af jarðvegi. Eftir miklar rigningar og í miklum leysingum má finna það og heyra uppi í fjallinu í kyrrðinni á fögrum kvöldum að þarna rennur mikið vatn undir. Það var eitt af fyrstu verkum núverandi ágæts vegamálastjóra okkar, Hreins Haraldssonar, að rannsaka þetta landsig á sínum tíma. Vegurinn er, eins og ég segi, frekar hættulegur og þarna hefur komið stór aurskriða.

Vegagerðin hefur skoðað þetta nú síðustu ár. Vegamálastjóri skipaði vinnuhóp sem skilaði af sér í desember síðastliðnum þar sem m.a. var farið í áhættugreiningu á þessu. Þar var lagt til sjálfvirkt eftirlit sem kostar töluverða peninga, þar er líka talað um hvað það kostaði ef vegurinn yrði færður. Það er allt saman gott og góðra gjalda vert að setja upp einhverja vöktun á þessu svæði. Við sem förum um þetta svæði finnum oft hvað jarðvegurinn er á mikilli hreyfingu og fólk verður hrætt þarna.

Þess vegna segi ég að eina framtíðarlausnin, eina varanlega lausnin, sé sú að farið verði í það sem talað var um þegar Strákagöng voru gerð, að gera jarðgöng úr Hólsdal og yfir í Fljót. Það er á aðalskipulagi Fjallabyggðar þar sem gert er ráð fyrir jarðgöngum, sem við getum kallað Siglufjarðargöng, úr Hólsdal yfir í Fljót.

Ég tel það vera einu framtíðarlausnina en ég geri mér líka grein fyrir því að biðlisti eftir jarðgöngum er töluvert langur. Ég veit nú ekki hvort við erum að tala um fimm, tíu eða fimmtán ár, en ég minni á að frá því að umræða hófst um Héðinsfjarðargöng hér á Alþingi, en hana hóf sá ágæti maður Sverrir Sveinsson, veitustjóri á Siglufirði, liðu 19 ár þar til göngin voru opnuð. Þess vegna hef ég lagt fram þessar fyrirspurnir (Forseti hringir.) hér á Alþingi til að heyra hvað ráðherra hefur (Forseti hringir.) að segja okkur um hver framtíðin verður á þessu svæði.