143. löggjafarþing — 97. fundur,  28. apr. 2014.

Siglufjarðarvegur og jarðgöng.

469. mál
[16:53]
Horfa

innanríkisráðherra (Hanna Birna Kristjánsdóttir) (S):

Virðulegur forseti. Ég þakka fyrirspurnirnar og ágæta yfirferð í ræðu hv. þingmanns. Ég ætla ekki að fara yfir það með sama hætti heldur bara leitast við að svara spurningunum beint.

Líkt og hv. þingmaður þekkir án efa talsvert betur en ég er talin hætta á því, og það er hárrétt, að reiknað er með því að jarðsig á veginum um Almenninga muni vera áfram með svipuðum hætti og verið hefur undanfarna áratugi. En líkt og hv. þingmaður þekkir líka og fór ágætlega yfir hefur verið fylgst vel með ástandinu og þróuninni og ýmislegt verið til skoðunar svo að bæta megi og tryggja öryggi vegfarenda. Hins vegar er það mat Vegagerðarinnar og þeirra sérfræðinga sem að verkefninu hafa komið að fremur litlar líkur séu á því að vegurinn rofni varanlega þannig að hægt verði að gera það sama og menn hafa verið að gera að undanförnu, sem er að fylla í sigið jafnóðum og það kemur fram. Þó gæti auðvitað í versta falli þurft að færa veginn ofar í landinu.

Ég tek undir með hv. þingmanni hvað varðar þetta verkefni að til lengri framtíðar litið sé næstum því, ég vil ekki segja öruggt en næstum því ljóst að við verðum að horfast í augu við þá staðreynd að ef við erum að leita að varanlegri lausn verður hún að vera með öðrum hætti, t.d. í formi jarðganga líkt og hv. þingmaður nefndi. Annað eru auðvitað bráðabirgðalausnir og útlistun eða útfærsla á viðfangsefni og vandamáli sem til staðar er sem mun ekki leysast nema horft verði til varanlegra lausna. Vegagerðin fylgist vel með málinu, líkt og hv. þingmaður kom inn á, og mun tryggja það eftir öllum leiðum að vegurinn rofni ekki og að þar geti vegfarendur búið við eins mikið öryggi og mögulegt er.

Síðan spyr hv. þingmaður um lengd jarðganga frá Siglufirði og í Fljót, hvaða leið sé talin heppilegust og hver sé áætlaður kostnaður við gatnagerð á svæðinu. Það er ekki á þessu stigi, virðulegur forseti, hægt að segja nákvæmlega til um hvaða jarðgangaleið væri heppilegust á milli Siglufjarðar og Fljóta þar sem viðeigandi rannsóknir hafa ekki farið fram enn þá eða eru fullkláraðar. Einkum hefur þó verið rætt um leiðina á milli Nautadals í Fljótum og Hólsdals í Siglufirði sem yrðu þá um 5 kílómetra löng göng og síðan á milli Hrauna í Fljótum og Skarðsdals í Siglufirði sem yrðu ríflega 6 kílómetra löng göng. Gróflega má áætla að fyrri kosturinn gæti kostað um 7,5 milljarða en sá síðari, þar sem sú leið er talsvert lengri, um 9 milljarða. Þetta er lausleg áætlun Vegagerðarinnar, ekkert endanlegt eða fast í hendi hvað það varðar og erfitt um það að spá nákvæmlega, eins og ég sagði áðan, áður en farið hafa fram fullnægjandi rannsóknir sem geta skilað okkur nákvæmari tölum í þessu sambandi.