143. löggjafarþing — 97. fundur,  28. apr. 2014.

Héðinsfjarðargöng og Múlagöng.

470. mál
[17:03]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Bjarkey Gunnarsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Segja má um umræðuna sem var að ljúka að hún sé undanfari þess sem hér verður til umfjöllunar. Ég hef sagt það sem sumir hafa sagt, það er alltaf hægt að vera vitur eftir á, en það var lagt fram á sínum tíma að göngin ættu að ná yfir í Fljótin og mynda svokölluð T-göng. Ég held ekki að við værum að ræða þessi mál núna ef það hefði verið gert. Það einkennir okkur alltaf svolítil skammsýni í framkvæmdum í vegagerðarmálum. Það ræðst eflaust af því að okkur langar að gera margt og ekki miklir peningar til í staðinn fyrir að við einblínum á fá og stór verkefni.

Ástæðan fyrir því að ég ákvað að spyrja um þetta er sú að þegar maður er íbúi á þessu svæði verður maður óneitanlega mikið var við að umferðarþunginn hefur aukist gríðarlega og ekki aðeins eftir að Héðinsfjarðargöng voru opnuð heldur einnig jafnt og þétt frá því að Múlagöng urðu til. Þetta eru göng sem voru vígð 1. mars 1991. Ég held að það sé klárt að þau eru barn síns tíma.

Mig langar samt að fá þær tölulegu upplýsingar sem ég hef lagt fyrir hæstv. ráðherra: Hversu oft frá tilkomu Héðinsfjarðarganga hefur vegurinn um Öxnadalsheiði lokast og umferð verið beint um Héðinsfjarðargöng í staðinn? Var gert ráð fyrir þeirri umferð í hagkvæmnisathugun vegna ganganna? Hafa umferðartölur sem notaðar voru við hagkvæmnisútreikninga reynst réttar? Hversu mikil hefur umferð um Héðinsfjarðargöng verið ár hvert síðan þau voru opnuð? Á hvaða árstíma er umferðin mest? Hversu mikið af umferðinni um Héðinsfjarðargöng fór líka um Múlagöng? Hvað var gert ráð fyrir að Múlagöng önnuðu mikilli umferð á sólarhring? Hversu mikil var sólarhringsumferð þegar hún var mest á síðastliðnu ári? Hversu mikið hefur umferð um Múlagöng aukist frá tilkomu Héðinsfjarðarganga?

Það er vert í þessu sambandi að benda á að þungaflutningar hafa aukist gríðarlega. Það er ekki aðeins umferð heimamanna eða ferðamanna heldur hafa þungaflutningar færst mjög mikið upp á land, eins og við vitum, og í gegnum göngin þarna. Það hafa orðið umferðarteppur þannig að það er ekki um að ræða stíflur í Múlagöngunum sérstaklega á álagstímum heldur var síðast í síðustu viku því eiginlega stýrt þannig að ekki varð teppa sem hefði getað kostað einhverja klukkutíma í bið.

Mig langar til þess að heyra svör (Forseti hringir.) hæstv. ráðherra við þessu.