143. löggjafarþing — 97. fundur,  28. apr. 2014.

Héðinsfjarðargöng og Múlagöng.

470. mál
[17:06]
Horfa

innanríkisráðherra (Hanna Birna Kristjánsdóttir) (S):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Bjarkeyju Gunnarsdóttur fyrir að taka þetta mál upp og ætla að gera mitt besta til þess að fara yfir þær tölulegu upplýsingar sem hún óskaði eftir að farið yrði yfir.

Í fyrsta lagi lítur það út fyrir að vera þannig að þær talningar sem við höfum yfir að ráða staðfesti að undanfarin ár hafi Öxnadalsheiðin lokast að meðaltali innan við fimm daga á hverjum vetri og eykst þá umræddu daga umferð um Siglufjarðarveg úr 100 bílum í 400 bíla á sólarhring. Þessi umferð hefur sáralítil áhrif á magn heildarumferðar. Þó getur skapast lítils háttar umferðarteppa í einbreiðum Múlagöngum, einkum á þeim tímum dags þegar umferð flutningabíla er í hámarki. Ekki var sérstaklega gert ráð fyrir þessari umferð í hagkvæmnisathugun vegna ganganna líkt og fyrirspyrjandi óskaði eftir upplýsingum um.

Í skýrslu um vegtengingar, skýrslan heitir Vegtengingar milli byggðarlaga á norðanverðum Tröllaskaga, sem Vegagerðin gaf út í nóvember 1999 var í umferðarspá fyrir Héðinsfjarðargöngin gert ráð fyrir að árdagsumferð væri 350 bílar á dag. Nú er það hins vegar svo að umferðin er á hverjum degi um 560 bílar, þannig að það er talsvert meira en gert var ráð fyrir á þeim tíma.

Í öðru lagi spyr hv. þingmaður hversu mikil umferð um Héðinsfjarðargöng hefur verið ár hvert síðan þau voru opnuð og á hvaða árstíma umferðin sé mest. Einnig er spurt hversu mikið af umferðinni um Héðinsfjarðargöng fór einnig um Múlagöng.

Því er til að svara að Héðinsfjarðargöng voru tekin í notkun haustið 2010, líkt og hv. þingmaður kom inn á. Árið 2011 var því fyrsta heila árið eftir opnun ganganna. Meðalumferð á dag alla daga ársins hefur aukist um 0,8%. Sumardagsumferðin hefur dregist saman um 2% en vetrardagsumferðin hefur aukist um 6% á þessu tímabili, þ.e. 2011–2013. Árið 2011 fóru 548 bílar um göngin að meðaltali yfir allt árið, 791 bíll yfir sumarið og 389 bílar yfir vetrartímann. 2012 fóru 540 bílar um göngin að meðaltali yfir allt árið, 757 yfir sumarið og 389 yfir vetrartímann. Sambærilegar tölur fyrir þetta ár eru 562 bílar, yfir sumarið eru það 787 bílar og 430 bílar yfir vetrartímann. Til þess að þingmaðurinn hafi þetta betur fyrir framan sig skal ég með mikilli ánægju afhenda töfluna sem ég vísa til.

Það liggja hins vegar ekki fyrir nákvæmar upplýsingar um hve mikið af umferðinni um Héðinsfjarðargöng fer einnig um Múlagöng en lausleg athugun sem Vegagerðin gerði bendir til þess að umferðin í Múlagöngum hafi aukist um í kringum 15% með tilkomu Héðinsfjarðarganga. Hér er ég líka að vitna til töflu sem þingmaðurinn getur fengið að sjá.

Í þriðja lagi spyr hv. þingmaður hvað var gert ráð fyrir að Múlagöng önnuðu mikilli umferð á sólarhring og hversu mikil sólarhringsumferð var þegar hún var mest á síðastliðnu ári.

Það er miðað við að einbreið göng geti annað árdagsumferð sem nemur allt að 1.200 bílum á dag en á einstaka dögum getur fjöldi bíla verið miklum mun meiri. Árdagsumferðin um Múlagöng árið 2013 var, eins og ég sagði áðan, 508 bílar á dag en samkvæmt umferðarteljara sem staðsettur er í Múlagöngum var umferðin mest þann 10. ágúst 2013 þegar það fóru 2.172 bílar um göngin.

Í fjórða og síðasta lagi spyr hv. þingmaður hversu mikið umferð um Múlagöng hefur aukist með tilkomu Héðinsfjarðarganga. Þá bendi ég aftur á svarið sem ég kom með áðan við spurningu númer tvö, en þar kom fram að lausleg athugun Vegagerðarinnar staðfesti að umferð hefði aukist um í kringum 15% með tilkomu Héðinsfjarðarganga.

Virðulegur forseti. Ég vona að hv. þingmaður hafi fengið svör við þeim spurningum sem á henni brunnu hvað þetta varðar en líkt og ég nefndi áðan mun ég afhenda henni svarið svo að það sé aðeins þægilegra og aðgengilegra.