143. löggjafarþing — 97. fundur,  28. apr. 2014.

Héðinsfjarðargöng og Múlagöng.

470. mál
[17:11]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf):

Hæstv. forseti. Fyrir það fyrsta vil ég þakka hv. þm. Bjarkeyju Gunnarsdóttur fyrir að taka þessa fyrirspurn hér upp og hæstv. ráðherra fyrir svarið. Sóttar hafa verið upplýsingar í þingtíðindi um umferð um Héðinsfjarðargöng. Rétt er að minna á að miðað við þær tölur sem hér er talað um var talið af mörgum að um 350 bíla umferð yrði þegar unnið var að undirbúningi Héðinsfjarðarganga. Það hefur heldur betur aukist. Það þekkjum við sem búum á þessum stöðum og sjáum þessa miklu umferð.

Virðulegi forseti. Hér er líka fjallað um einbreið Múlagöng. Þá vil ég spyrja hæstv. ráðherra, um leið og ég þakka fyrir svarið hvað það varðar, hvort ekki hafi komið til tals að setja upp varanlegt umferðarstjórnarkerfi í Múlagöngum sem lögregla eða aðrir gætu e.t.v. tekið í notkun með stuttum fyrirvara þegar mikil umferð er eða t.d. þegar margir flutningabílar með langa tengivagna fara þar í gegn.