143. löggjafarþing — 97. fundur,  28. apr. 2014.

Héðinsfjarðargöng og Múlagöng.

470. mál
[17:14]
Horfa

innanríkisráðherra (Hanna Birna Kristjánsdóttir) (S):

Virðulegur forseti. Ég ítreka þakkir fyrir þessa umræðu. Það er hárrétt sem kom fram í máli hv. þm. Kristjáns Möllers að ákveðnar nýjar tölur staðfesta og sýna og sú talning sem hefur farið fram staðfestir það og sýnir svo ekki verður um villst að þessi samgöngubót hefur nýst betur en talið var og er afar mikilvæg eins og þingmenn hafa komið inn á.

Varðandi það sem spurt er um, um umferðarstjórnarkerfi í Múlagöngum, þá hefur það komið til tals og verið til umræðu og meðferðar hjá Vegagerðinni í tengslum við öryggisvörslu á svæðinu. Líkt og hv. þingmaður kom inn á hefur verið unnið að ákveðinni bragarbót þar á og menn hafa reynt að gera betur. Það hefur hins vegar verið mat Vegagerðarinnar að miðað við þær aðstæður sem nú eru uppi verði ekki gengið til þeirra verka strax. En, virðulegi forseti, þar sem ég heyri að þingmenn vilja frá frekari upplýsingar og rökstuðning fyrir því, enda full ástæða til þess, þá skal það viðurkennt hér að ég er ekki nákvæmlega með þann rökstuðning alveg á bak við eyrað núna. Ég veit að þeir hjá Vegagerðinni hafa ekki talið forsvaranlegt að fara í það verkefni strax, en ég hef þegar óskað eftir því hér í hliðarherbergi að vegamálastjóri taki saman minnisnótu til þingmanna um þetta mál til að því verði svarað með þeim hætti sem rétt og eðlilegt er að gera. Ég skal tryggja að það gerist á næstu dögum.