143. löggjafarþing — 97. fundur,  28. apr. 2014.

tilskipun um varðveislu fjarskiptaupplýsinga.

551. mál
[17:24]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Ég þakka málshefjanda innilega fyrir að vekja athygli á þessum dómi sem var mjög afgerandi. Það er mjög mikilvægt að upplýsa þingheim og hæstv. ráðherra um að stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd er að vinna málinu og hefur nefndin samþykkt að leggja fram lagabreytingu þar að lútandi þannig að við getum flýtt fyrir afgreiðslu málsins.

Við munum funda aftur í nefndinni um málið á morgun en það er mjög brýnt í þessu samhengi að setja mjög skýrar reglur um það hvað símafyrirtækin mega geyma og hvað þau mega ekki geyma og hvaða viðurlög liggi við því ef þau brjóta þær reglur. Þetta er miklu mikilvægara mál en flestir gera sér grein fyrir, og ég er ákaflega ánægð með að hæstv. ráðherra sé á sömu blaðsíðu og við hin. Ég er sannfærð um það og hef fundið að það er fullkomlega þverpólitísk sátt um að lagfæra þessi lög.