143. löggjafarþing — 98. fundur,  28. apr. 2014.

afbrigði um dagskrármál.

[17:38]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Ég er seinþreyttur til vandræða þegar Evrópusambandið er annars vegar eins og menn vita en það að veita afbrigði og yfir höfuð taka á dagskrá þetta fyrsta mál er að minnsta kosti verðugt þess að gera þinginu grein fyrir því að ég fæ ekki betur séð en að það feli í sér að Alþingi sé beðið um að veita fyrirframsamþykki við því að innleiða reglugerð sem Evrópusambandið er ekki búið að setja og sem við tæknilega getum ekki séð í síðustu útfærslu.

Ég veit að málið er þarft og ég styð innihald þess en svona skil ég að minnsta kosti málið eins og það liggur fyrir. Þetta er eitt af því sem ég ætlaði að spyrja hæstv. ráðherra um en ég sé ekki að það sé búið að ganga frá því að setja þessa reglugerð. Á Alþingi að veita afbrigði eða yfir höfuð fallast á að slíkt mál komist á dagskrá? Já, af því að það eru gríðarlega miklir hagsmunir undir en þetta er sleifarlag af hálfu hæstv. ríkisstjórnar (Forseti hringir.) sem á ekki að bjóða þinginu upp á.