143. löggjafarþing — 98. fundur,  28. apr. 2014.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar um breytingu á XX. viðauka við EES-samninginn.

565. mál
[17:48]
Horfa

utanríkisráðherra (Gunnar Bragi Sveinsson) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er alltaf gaman þegar hv. þm. Össur Skarphéðinsson fer að lýsa hlutverki núverandi utanríkisráðherra, sem hefur svo sannarlega ekki verið og er ekki hrifinn af Evrópusambandinu og öllu sem þaðan kemur, en svona er það nú stundum, hlutverkin breytast.

Þegar kemur að þeirri gerð sem hér um ræðir þá samþykkti ráðherraráðið hana 14. apríl síðastliðinn. Hún mun fá númer og verða þar af leiðandi gild og auglýst 30. apríl næstkomandi, á lokafresti, lokadegi af hálfu Evrópusambandsins. Hv. þingmaður mun að sjálfsögðu fá að sjá texta reglugerðarinnar. Nefndin mun fá að sjá texta reglugerðarinnar áður en hún verður samþykkt, tilboðið verður þá lagt fyrir nefndina, að sjálfsögðu.

Það er nú stundum þannig að við fáum ekki við allt ráðið og í þessu tilviki eru miklir hagsmunir í húfi fyrir íslenska flugrekendur, fyrir það umhverfi sem við búum í þannig að við þurfum að bregðast við þessu þó að ekkert okkar sé sérstaklega sátt við þann hraða sem hér er hafður á þessum málum.