143. löggjafarþing — 98. fundur,  28. apr. 2014.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar um breytingu á XX. viðauka við EES-samninginn.

565. mál
[17:49]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Mig langar til að spyrja hæstv. utanríkisráðherra t.d. út í það hvað felst í þessum misvísandi skilaboðum sem gefin eru sem ein helsta röksemdin sem talin er í greinargerðinni fyrir málinu. Ég geri mér alveg grein fyrir því að þetta mundi t.d. setja í uppnám samstarf okkar við hin EFTA-löndin sem eru með okkur í þessu samfloti. Það voru reyndar rökin sem ég beitti á hæstv. utanríkisráðherra þegar hann stóð hérna í greftrinum í þinginu og stöðvaði þingstörf með félögum sínum, m.a. hv. þm. Vigdísi Hauksdóttur, og vildi ekki samþykkja nákvæmlega sama mál og við erum með hérna vegna þess að hann taldi það vera brot á stjórnarskrá. Á þeim tíma lagði meiri hlutinn fram breytingartillögu við þau lög sem verið var að fara með í gegnum þingið til að uppfylla tilskipun með ærnum fyrirvara. Sú breytingartillaga er efnislega sú hin sama og Evrópusambandið leggur nú til á reglugerðinni sem við erum hér að laga okkur að. Og það má hv. þm. Birgir Ármannsson eiga eftir að hafa hlustað á núverandi starfsmenn hæstv. utanríkisráðherra og talsmenn atvinnulífsins að hann hunskaðist þó að minnsta kosti til að skipta um skoðun og styðja málið. En hæstv. utanríkisráðherra gerði það ekki þá á þeirri forsendu að nákvæmlega sama málið og hann leggur fram núna taldi hann þá vera stjórnarskrárbrot.

Mér þykir vænt um hæstv. utanríkisráðherra en mér rennur til rifja að sjá þennan fullkomna viðsnúning og vissulega rennur það mér líka til rifja að sjá þennan mann, sem var fulltrúi sterkrar andstöðu við aðlögun og Evrópusambandið, gerast nú einhver mesta jarðýta Evrópusambandsins við að ryðja tilskipun þess hér í gegn. Þetta á að keyra í gegn á svo stuttum tíma sem er ekki þinginu eða nokkrum þingmanni, hvað þá hundi bjóðandi.