143. löggjafarþing — 98. fundur,  28. apr. 2014.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar um breytingu á XX. viðauka við EES-samninginn.

565. mál
[18:02]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Nú er hér um að ræða breytingu á þeim viðauka sem um þetta mál fjallar og um þessi losunarmál hefur þegar verið fjallað á vettvangi Alþingis. Ég var ekki þeirrar skoðunar að innleiðingin á sínum tíma væri í bága við stjórnarskrá. Þau sjónarmið heyrðust, eins og hv. þingmaður rakti hér áðan, (ÖS: Þau komu fram.) og komu fram, en ég var ekki þeirrar skoðunar að það væri í bága við stjórnarskrá. Ég fæ því ekki séð að efnislega breytingin sem hér er lögð til sé í bága við stjórnarskrá, ekki frekar en hin upphaflega. Ég get ekki komist að þeirri niðurstöðu svona við fyrstu sýn, alls ekki.

Ef þingmaðurinn var að spyrja hvort málsmeðferðin væri í bága við stjórnarskrána, þ.e. að Alþingi samþykkti að staðfesta þessa ákvörðun án þess að Alþingi hefði séð hina endanlegu útgáfu tilskipunarinnar, ef það var það sem þingmaðurinn var að spyrja um, þá er það eitthvað sem ég get ekki svarað hér svona „på stående fod“. Ég yrði að skoða það betur. Ég mundi telja að það væri eitt af þeim álitamálum sem nefndin hlýtur að kalla eftir að fá svör við frá þar til bærum sérfræðingum.

Ég tel að það geri þetta mál aðeins snúið og mér finnst sjálfum mjög mikilvægt að sjálfsögðu, eins og öllum hér, að stjórnarskráin sé í heiðri höfð. En við vitum alveg að menn greinir stundum á um hvernig á að túlka hana í þessu samhengi og við höfum séð það í þessum EES-málum. Ég er sjálfur þeirrar skoðunar að EES-málin almennt séu farin að teygja býsna mikið á stjórnarskránni og hef talið að við þyrftum að finna lausnir á því í stjórnarskránni sjálfri ef við ætlum að halda okkur innan EES-samningsins. En ég sé ekki að sú efnislega breyting sem hér er lögð til breyti nokkru um stjórnarskrána í þessu.