143. löggjafarþing — 98. fundur,  28. apr. 2014.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar um breytingu á XX. viðauka við EES-samninginn.

565. mál
[18:09]
Horfa

utanríkisráðherra (Gunnar Bragi Sveinsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það hefur komið fram að reglugerðin sem þingmenn óskuðu eftir og spurðu hvort þeir gætu fengið að sjá texta að er að sjálfsögðu hér með ályktuninni. Það hefur líka komið fram að ráðherraráðið var seint til að samþykkja þetta í Brussel, það var samþykkt 14. apríl sl. Þá gekk ráðið frá sinni samþykkt. Það er rétt sem þingmenn hafa komið að að eftir er að birta reglugerðina, það verður gert 30. apríl. Þá verður hún birt, þá fær hún númer og öðlast þar af leiðandi gildi þeim megin.

Ef það er hins vegar þannig að hv. þingmenn sem hér hafa talað hafa áhyggjur af því að stjórnskipunarvenjur landsins eða þingsins séu brotnar, stjórnarskrá mögulega í hættu eða eitthvað annað hljóta menn að taka það alvarlega og fara yfir það í utanríkismálanefnd. Þar er vettvangurinn til þess. En við stöndum frammi fyrir því að þurfa að afgreiða tillöguna með þessum, ég ætla bara að leyfa mér að segja það, bægslagangi sem er í þessu máli vegna þess að það kemur svo seint til okkar. Ef við samþykkjum það ekki er þetta að sjálfsögðu í uppnámi vegna þess að við erum hluti af EES-samningnum. Þannig er einfaldlega málið.