143. löggjafarþing — 98. fundur,  28. apr. 2014.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar um breytingu á XX. viðauka við EES-samninginn.

565. mál
[18:13]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Frú forseti. Hæstv. ráðherra kveinkaði sér undan því að ég kallaði hann teppalagningarmeistara Evrópusambandsins sem tæki að sér þar að auki að vera jarðýta til að hraða aðlögun Íslands að regluverki Evrópusambandsins. Mér þykir leitt ef ég hef sært viðkvæmar tilfinningar hæstv. ráðherra en hann gefur fullt tilefni til slíkra ummæla.

Hæstv. ráðherra kvartaði undan því að ég notaði þessi ummæli og sagði að ekki hefði borið á neinum málefnalegum spurningum til sín. Það er ekki rétt hjá hæstv. ráðherra. Ég spurði hann út í eitt tiltekið atriði, eitt af mörgum sem ég barðist við að skilja þegar ég bruddi þetta mjög torskilda frumvarp. Það var hvað felst í því að með því að samþykkja ekki þessa tillögu væri verið að gefa mikilvægum flugrekendum, gott ef þeir voru ekki taldir 300, misvísandi skilaboð. Í hverju eru þessi misvísandi skilaboð fólgin? Það skiptir máli fyrir mig, sem á hér með súran keim í munni að fara í það að samþykkja þetta, að þekkja málið sem grennst, helst út í hörgul. Hvað átti hæstv ráðherra við með þessu? Hann kannski svarar því hér á eftir.

Í þessari ræðu, sem er hins vegar umfjöllun um málið, kemur afstaða mín fram. Í allra grófustu dráttum kom hún þó strax fram þegar ég gerði grein fyrir atkvæði mínu fyrr í dag. Ég sagði þá að ég væri stuðningsmaður þess að efni þessarar tilskipunar yrði tekið upp í íslenskan rétt og af því leiddi að ég væri reiðubúinn að láta draga mig, hugsanlega grátandi og á nöglum á tám og fingrum, til samþykktar á málinu vegna sérstakra aðstæðna. Það er rétt að segja það þá, bara til að vera heiðarlegur í þessari umræðu, að hæstv. ráðherra á sér málsbætur. Það hefur komið fram hjá honum í ræðum hans hér í dag að búið er að samþykkja þetta í ráðherraráðinu. En ég er viss um að hv. þm. Birgir Ármannsson, sem er mér miklu fremri að flestu leyti og örugglega í því að bryðja svona harða texta, eins og úr kvoðukenndu tré, sem koma frá Evrópusambandinu, getur sagt mér hvar þetta kemur fram í frumvarpinu eða greinargerðinni. Það hefði verið heppilegt ef það hefði komið fram að búið væri að samþykkja þetta í ráðherraráðinu en það kemur ekki fram í frumvarpinu.

Það kemur ekki heldur fram í frumvarpinu að það standi til að birta þetta í Stjórnartíðindum 30. apríl. Einhvers staðar í greinargerðinni kemur fram að það eigi að gera það seinni hluta apríl. Ég tel að í svona máli, sem skilur eftir sig for upp um alla veggi, varðandi umgengni við Alþingi og stjórnarskrá, þurfi allar upplýsingar að koma fram í þingmálinu sjálfu. Ef þær voru ekki ljósar fyrr en í gærkvöldi eða í morgun hefði átt að prenta málið upp. Svo einfalt er það nú. Þannig eru vinnuhefðir Alþingis en til þess verður auðvitað framkvæmdarvaldið að dansa með.

Hæstv. ráðherra getur ekki búist við öðru en að ég rifji upp fortíð hans í þessu máli, ekki bara það að hæstv. ráðherra hafi eytt lunganum úr síðasta kjörtímabili í að kvarta undan hraðanum í því að aðlaga Ísland að regluverki ESB vegna aðildarumsóknarinnar.

Nú vill svo til að hv. þm. Guðbjartur Hannesson hefur spurt öll ráðuneyti til hvaða aðlagana viðkomandi ráðuneyti hafi gripið í því skyni að búa Ísland undir aðild að Evrópusambandinu. Svör allra hafa verið á einn veg: Engar aðlaganir voru gerðar. Það var sem sagt allt vitleysa sem hæstv. ráðherra sagði um það mál á sínum tíma, allt vitleysa sem kollegar hans, hv. þm. Vigdís Hauksdóttir, ég tala nú ekki um okkar góða vin hv. þm. Ásmund Einar Daðason, sem aldrei lætur á nýju kjörtímabili sjá sig í sölum Alþingis þegar menn ræða aðlaganir af þessu tagi — en ég hlakka til að sjá hann greiða atkvæði með þessu máli þegar að því kemur.

Vitaskuld reifa ég þetta. Það er nauðsynlegt að menn skilji að hæstv. ráðherra er þó sjálfum sér trúr að því marki að hann setti fram nýja stefnu gagnvart Evrópu og partur af henni var að hraða og gera skjótvirkari upptöku og innleiðingar á tilskipunum Evrópusambandsins. Hann stendur svo sannarlega við þær yfirlýsingar. Þetta er mér vitandi í fyrsta skipti sem nokkur ráðherra tekur sér það fyrir hendur að leggja til við Alþingi að samþykkja reglugerð sem tæknilega er ekki til, að innleiða þætti úr reglum Evrópusambandsins sem það sjálft er ekki búið að staðfesta. Það er ambögulegt, ankannalegt og það er að minnsta kosti að seilast um hurð til lokunnar.

Málsbætur hæstv. ráðherra eru þessar. Eftir því sem hann upplýsir hér, og ég hef enga ástæðu til að rengja, þá samþykkti ráðherraráðið þetta ekki fyrr en 14. apríl. Þingið fór hins vegar í páskafrí 11. apríl þannig að hann hafði ekki tök á því að leggja þetta fyrir þingið. Það eru málsbæturnar, þær eru nokkrar. Það breytir ekki hinu að þetta mál er talandi tákn um það hvernig staða okkar innan Evrópska efnahagssvæðisins er. Við verðum vesgú að taka það sem að okkur er rétt eða lenda í vondum málum ella. Hæstv. ráðherra getur heldur ekki kvartað yfir því að ég rifji það upp að þetta er nákvæmlega sama málið og var til umfjöllunar á Alþingi Íslendinga, lagt fram af þáverandi umhverfis- og auðlindaráðherra Svandísi Svavarsdóttur, og varð síðar að lögum nr. 290/2012, sem hæstv. ráðherra hélt hér miklar ræður um á sínum tíma að bryti stjórnarskrá Íslands. Það voru reyndar fleiri. Gervallur Sjálfstæðisflokkurinn var í upphafi þeirrar skoðunar líka. Þegar bent var á það, í umfjöllun nefndarinnar, af starfsmönnum sem núna starfa undir hæstv. ráðherra, að ekki væri hægt að túlka þetta sem brot á stjórnarskrá vegna þess að þetta væri ívilnandi gagnvart þeim sem áttu að sæta afleiðingunum, og þegar fulltrúar atvinnulífsins gerðu grein fyrir því hversu miklir hagsmunir væru undir, þá brást Sjálfstæðisflokkurinn við með þeim lofsverða hætti að skipta um afstöðu. Á endanum greiddi Sjálfstæðisflokkurinn allur — þar á meðal hv. þm. Birgir Ármannsson, sem var talsmaður flokksins í þeirri nefnd sem fjallaði um þetta, sem var umhverfis- og samgöngunefnd, og utanríkismálanefnd hafði líka fjallað um þetta á þremur fundum — atkvæði með málinu og leiddi sína menn til þess sama.

Hæstv. utanríkisráðherra, sem nú leggur þetta mál hér fram, treystir sér ekki til að styðja það fremur en stallsystir hans hv. þm. Vigdís Hauksdóttir. Vitaskuld er fullkomlega eðlilegt að menn bendi á hvílík sinnaskipti það eru og hversu reikull í rásinni hæstv. utanríkisráðherra er. Ef hann taldi þá að þetta væri brot á stjórnarskránni ætti hann að öllu eðlilegu að telja það líka núna og þá hefðu menn jafnvel velt því fyrir sér að segja af sér embætti frekar en að fara fram með mál sem þeir hafa fyrr á leiðinni lýst yfir að ryfi stjórnarskrána.

Ég spurði hæstv. ráðherra hvað fælist í því ef við mundum ekki samþykkja þessa tillögu. Ég vildi fá að vita það. Ég geri mér ekki grein fyrir því sjálfur en vil hins vegar lýsa því fyrir þingheimi að ég hef barist í gegnum þetta torf. Í stórum dráttum sýnist mér að ef Alþingi samþykkir ekki þessa tillögu þá mundi gildissvið reglugerðarinnar ekki takmarkast lengur og frestanirnar mundu falla úr gildi. Gildissvið viðskiptakerfisins með losunarheimildir vegna flugumferðar mundi stækka út fyrir EES-svæðið, þ.e. til flugs til og frá EES-svæðinu, og þar með talið Ameríkuflugið og Kanadaflugið. Það er ljóst að flugrekendur mundu þurfa að hefja kaup á losunarheimildum vegna flugumferðar til og frá EES-svæðinu, þar með talið vegna Ameríkuflugsins og Kanadaflugsins og það mundi vera töluverður kostnaður sem á þá fellur. Ég veit ekki hversu mikið það er en það er eitt af því sem ég vil vita.

Ég veit að á netinu er hægt að sjá verð á útblásturskvóta. Hann er 5,5 evrur á tonnið og mér sýnist líka að meðalheildarlosunin frá 2005–2006, sem eru síðustu tölur sem ég hef aðgang að, hafi verið næstum því 3 milljónir tonna. Þetta eru miklir hagsmunir, það er algerlega ljóst. Þá er spurningin: Ef við samþykkjum þetta ekki, hvað kostar þá flugið? Þetta eru allt saman hlutir sem skipta máli. Það er líka ljóst að menn mundu þurfa að hefja skýrsluskil vegna flugstarfseminnar til Umhverfisstofnunar, það þyrfti að skila ónýttum losunarheimildum og það tæki ekki gildi undanþága fyrir smáa losendur og það mundi að sjálfsögðu ekki minnka byrði þeirra kosninga.

Svona gæti ég lengra haldið áfram en þetta vantar í greinargerð hæstv. ráðherra. Það getur vel verið að þetta felist í einhverjum orðavaðli á víð og dreif um greinargerðina en maður þyrfti samt að brjóta sig með hamri og meitli í gegnum frumvarpið til að skilja það. (Forseti hringir.) Ég spyr hæstv. ráðherra, frú forseti: Hvað eru miklir hagsmunir undir í krónum talið? Ráðuneytið hlýtur að vita það.