143. löggjafarþing — 98. fundur,  28. apr. 2014.

samningur milli Íslands og Færeyja um fiskveiðar innan íslenskrar og færeyskrar lögsögu 2014.

564. mál
[18:28]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Þessi framsaga var miklu tærari en um hið fyrra mál sem hæstv. ráðherra flutti. Þó liggur eitt lykilatriði eftir, sem er óljóst í mínum huga, og það varðar loðnuna. Það er eins og hæstv ráðherra sagði að sönnu kveðið á um að færeyskum skipum sé á loðnuvertíðinni heimilt að veiða þessar 10 þús. lestir innan íslenskrar lögsögu sem Færeyingar eiga samkvæmt gagnkvæmum samningi við grænlensk stjórnvöld. En það segir líka í greinargerð að samningur sé óbreyttur frá fyrri árum að öðru leyti en því að ekki sé kveðið á um heimildir færeyskra skipa til loðnuveiða í íslenskri lögsögu á vertíðinni og er tekið fram að ákvörðun þar að lútandi verði tekin á fundi aðila síðar á árinu 2014. Svo segir einhvers staðar, ég held í samningnum sjálfum, að sá fundur skuli vera ekki síðar en í desember á þessu ári.

Ég spyr með mikilli virðingu: Hvað þýðir þetta? Hvað er það sem þá á að ræða? Og svo að ég sé aðeins tærari í því hvað ég er að fara: Hvað varð um þær 30 þús. lesta af loðnu sem Íslendingar hafa jafnan leyft Færeyingum að veiða allt frá því að þeir lentu í efnahagshruni sjálfir upp úr 1990 og þriðjungur íbúanna flutti á brott? Allar götur síðan, muni ég rétt, hefur verið í gildi ákvæði um það að þeir fengju 30 þús. tonn svo fremi sem heildaraflamark væri 500 þús. tonn, ella 5% af aflaheimildum. Er það þetta sem á að ræða um í desember eða er verið að opna á að taka eigi þessar veiðiheimildir af Færeyingum?