143. löggjafarþing — 98. fundur,  28. apr. 2014.

samningur milli Íslands og Færeyja um fiskveiðar innan íslenskrar og færeyskrar lögsögu 2014.

564. mál
[18:31]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Mér fannst þetta hulduhrútslegt hjá hæstv. utanríkisráðherra. Hann sagði á fundinum í desember að það ætti að ræða hvort þeim væri heimilað að veiða 10 þús. tonn eða hvort það yrði einhver önnur tala. Gleymum því þá ekki að þessi 10 þús. tonn sem hæstv. ráðherra nefndi eru, eins og hann orðaði það sjálfur, loðna sem Færeyingar hafa samið um sjálfir gagnvart Grænlendingum og mega veiða innan íslenskrar lögsögu. Ber þá að skilja það þannig, svo það sé algerlega tært, að á fundunum í desember verði rætt um þessi 30 þús. tonn? Það hefur ekki gerst frá því að ég held 1991 eða 1992, ég man ekki eftir því, að Færeyingar hafi ekki fengið þetta. Á sínum tíma var það kynnt sem gjöf til Færeyinga út af efnahagskreppunni upp úr 1990. Það var sú gjöf sem Færeyingar voru að endurgjalda okkur í þrengingum okkar þegar þeir veittu okkur gjaldeyrislán án þess að setja nokkurt áhættuálag á það, tóku enga sérstaka færeyska vexti á það.

Ég verð að segja það til að vera algjörlega skýr, og mun koma að því í seinni ræðu minni á eftir, að þetta eru að mörgu leyti ágætir hefðbundnir samningar, en ef um það er að ræða að taka eigi þessi loðnutonn af Færeyingum þarf ég a.m.k. áður en ég fellst á samninginn að vita hvort það standi til og í öðru lagi tel ég að það sé ekki ákvörðun sem gagnvart sambandinu við Færeyinga sé það stórpólitísk að hana beri að ræða áður en samningurinn er gerður við utanríkismálanefnd. Og svo ég komi beint að efninu: Tengist þetta á einhvern hátt aðkomu Færeyinga að makrílsamningnum sem þríhliða var gerður hér fyrir nokkrum vikum?