143. löggjafarþing — 98. fundur,  28. apr. 2014.

samningur milli Íslands og Færeyja um fiskveiðar innan íslenskrar og færeyskrar lögsögu 2014.

564. mál
[18:35]
Horfa

utanríkisráðherra (Gunnar Bragi Sveinsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Vissulega er það þannig að við erum ekki sátt við hvernig haldið var á málum þegar samningaviðræður um makríl stóðu yfir. En það er nú einu sinni þannig að það voru ekki Færeyingar sem brutu eða sneru við okkur bakinu þar, við vissum alltaf að Færeyingar voru að reyna að ná fram því sem þeir mögulega gátu náð fram. Það var hins vegar þannig að Evrópusambandið ákvað að stíga út úr því samkomulagi sem það hafði gert við okkur um það hvernig hægt væri að lenda málunum.

Við erum að sjálfsögðu ekkert ánægð með það að Færeyingar eða aðrir séu að semja fram hjá okkur og taka þátt í þessu. En er eðlilegt að láta slíkt hafa langvarandi áhrif til dæmis á samskipti ríkjanna? Ættum við þá ekki að bregðast enn harðar við en við höfum þegar gert varðandi Norðmenn sem bera kannski mesta ábyrgð á því hvernig fór með þessa makrílsamninga? Þarna er um að ræða tiltölulega litla veiði af makríl samkvæmt þessum samningi, sem engu að síður skiptir máli eins og allt annað. Ég verð að segja að ég er sáttur við að verið sé að gera þennan samning við Færeyinga á þessum grunni þó svo að við séum ekki endilega sátt við hvernig makríldeilan endaði og þeir samningar.