143. löggjafarþing — 98. fundur,  28. apr. 2014.

samningur milli Íslands og Færeyja um fiskveiðar innan íslenskrar og færeyskrar lögsögu 2014.

564. mál
[18:37]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Frú forseti. Ég var með beinskeyttar spurningar hér um hugsanlegar ástæður þess að það má vera að glitti í að ríkisstjórnin sé búin að taka ákvörðun um það, eða sé að velta því fyrir sér, að klippa nú á þau 30 þús. tonn af loðnu sem Færeyingum voru í reynd gefin hér upp úr 1990, í efnahagshruni þeirra. Ég leit alltaf svo á að það væri í reynd með þeim kvöðum sem fylgdu þeirri gjöf, að það væri eitthvað sem mundi standa um aldur og ævi. Það var stundum rökrætt hér á hinu háa Alþingi þegar það komu tímar þegar fiskaðist minna en áður og stofnar voru ekki eins sterkir og stundum að upp komu menn hér í þessum sal sem lögðust gegn því að menn leyfðu Færeyingum að koma inn fyrir lögsöguna og veiða bæði loðnu, þetta tiltekna magn, og sömuleiðis að taka bolfisk, sem var reyndar miklu hærra hlutfall sem Færeyingar fengu á sínum tíma en nú.

Ég brást alltaf jafn illa við því og margir fleiri. Ég minnist til dæmis glæsilegrar ræðu sem þáverandi sjávarútvegsráðherra, Þorsteinn Pálsson, flutti gegn viðhorfum sem komu fram þá í salnum frá einstökum þingmönnum sem vildu skera af þennan gamla vildargerning sem af vinarhug var gerður gagnvart Færeyingum. Eins og ég sagði áðan þá minnast Færeyingar þessa mjög oft og gerðu það síðast með rausnarlegum hætti þegar segja má að þeir væru kannski ein af tveimur, þremur þjóðum í heiminum sem stigu fram og létu finna til þess í hruninu að þeir stóðu með Íslendingum. Af því að hv. þm. Pétur H. Blöndal tók til orða hér áðan með þeim hætti sem hann gerði þá er nú rétt að rifja það upp að það voru þjóðir eins og t.d. Pólverjar sem, án þess að eftir væri leitað, buðu fram fjárhagslega liðveislu í formi gjaldeyrislána án þess að setja nokkur skilyrði fyrir því eða taka einhverja sérstaka áhættuvexti af því, bara svo það liggi fyrir.

Ég vil segja það algjörlega skýrt, og þykir slæmt að hv. þm. Birgir Ármannsson sé genginn úr salnum, því að hann er nú formaður utanríkismálanefndar, að það þarf að liggja algjörlega fyrir hvort þetta sé ætlunin varðandi loðnuna og þessi 30 þús. tonn. Hv. þm. Pétur H. Blöndal talaði hér áðan og viðraði viðhorf sem ég spurði óljóst um í fyrri ræðu minni hér, hvort verið gæti að þetta tengdist makrílsamningnum. Ég skildi hv. þm. Pétur H. Böndal með þeim hætti að hann teldi að vegna framkomu Færeyinga við okkur í makríldeilunni ættum við ekkert að vera að gera svona samning, og það er sjónarmið. En það þarf að vera uppi á borðinu ef ríkisstjórnin ætlar að taka þessa ákvörðun um loðnuna og út af makrílsamningnum.

Hvort sem það tengist makrílmálinu eða ekki, ef þetta er ákvörðun af hálfu ríkisstjórnarinnar eða aðdragandi ákvörðunar, þá eru það töluvert stór tíðindi í samskiptum okkar. Færeyingar eru að sönnu lítil þjóð, en það breytir því ekki að við höfum litið á þá sem okkar nánustu frændur og bestu granna. Ef þetta á að gera í einhvers konar refsingarskyni þá verður það að liggja fyrir. Og svo ég segi það hreint út bara, ég tel ekki að það sé ákvörðun sem ríkisstjórnin á ein að taka. Ég tel að í sambandi okkar og Færeyinga séu það mikil tíðindi, ef svona er, sem hæstv. ráðherra virðist ekki alveg vera viss um. Ég tel hæstv. ríkisstjórn ekki geta tekið slíka ákvörðun og gert slíkan samning nema í samráði við utanríkismálanefnd.

Ég lýsi að minnsta kosti þeim skilningi mínum algjörlega skýrt að á þessum tímapunkti þessa ferlis og áður en búið er að ganga frá öllum hnútum á fundi í desember þá lít ég svo á að ríkisstjórninni sé óheimilt, án frekara samráðs við utanríkismálanefnd, einu sinni að orða þann möguleika að færeyska loðnan verði afgreidd með þessum hætti. Ég vil að minnsta kosti áður fá að taka þátt í þeirri umræðu innan utanríkismálanefndar í krafti laga um þingsköp, sem segja að meiri háttar utanríkispólitískar ákvarðanir eigi að taka í samráði við hana. Ég tel að miðað við samband okkar og Færeyja sé þetta slík ákvörðun og ég þarf sem nefndarmaður þar að vita með hvaða hætti menn nálgast slíkt og hvort þetta hafi verið rætt við Færeyinga eða ekki.

Ég er reyndar líka þeirra skoðunar, ef maður skoðar sögu makrílsamninganna, að jú, Færeyingar stóðu sig ekki nógu vel þar og ég minnist biturra og reiðiþrunginna orða sem féllu af mínum vörum hér í þessum sal. Það er hins vegar þannig að makrílmálið hefur tekið töluvert skrýtnar vendingar. Ríkisstjórnin treysti sér ekki til að ganga inn í þríhliða samkomulagið sem var gert á sínum tíma og það skildi maður í sjálfu sér mjög vel. Ef þeir hefðu gert það hefði það í raun komið út þannig að Íslendingar hefðu ekki getað samið um sína eigin hagsmuni í makrílmálinu og þeir hefðu þurft að láta Færeyinga og Norðmenn semja fyrir sig. Það væri erfitt að kyngja slíku.

Þegar ég segi að þetta séu skrýtnar vendingar hef ég velt fyrir mér kvótaákvörðun Íslendinga varðandi makrílstofninn. Muni ég rétt voru það 148 þús. tonn tæp sem hæstv. sjávarútvegsráðherra ákvað einhliða að Íslendingar mættu veiða. Á sínum tíma bar hann þau rök að vilja ekki ganga inn í samkomulag sem á einum tímapunkti samningaferlisins var í boði, vegna þess að það fól í sér að fallast á að heildarmagn sem leyfilegt væri að veiða úr makríl væri 1.240 þús. tonn. Á það féllst Evrópusambandið á einu skeiði samninganna, það var tillaga Noregs, Íslendingar féllust ekki á það. Íslendingar höfðu hins vegar fallist á, og það hefur komið fram opinberlega, að sættast á 11,9% hlutdeild úr makrílstofninum. Ég leit svo á að hefði verið handsalað millum sjávarútvegsstjóra Evrópusambandsins og okkar eigin sjávarútvegsráðherra. Menn muna þegar hann talaði við þjóðina á tröppum Stjórnarráðsins.

Hvað er talan 148 þús. tonn stórt hlutfall af 1.240 þús. tonnunum sem Íslendingar vildu ekki fallast á af því að það fæli í sér ósjálfbærar veiðar? 11,9%. Ég fæ því ekki betur séð en að íslenska ríkisstjórnin sé á ská búin að semja sátt við Evrópusambandið í makríldeilunni. Hún ætlar sér að veiða 11,9%, eins og Evrópusambandið vildi, miðað við 1.240 þús. tonn, eins og Evrópusambandið vildi líka. Það kann vel að vera að það sé viturleg ráðstöfun.

Svona er þetta, og þessi staða er svona — ef maður hugsar til baka — hugsanlega vegna þess að Færeyingar tóku af skarið. Þetta segi ég nú sjálfum mér og þeim til málsbóta út af þeim hörðu orðum sem ég lét falla um Færeyinga í umræðu hér á sínum tíma. Veröldin er oft skrýtin, og ég segi: Þetta er skondin vending.

Að öðru leyti vil ég segja það að mér líst vel á þennan samning með þeim fyrirvara sem ég hef haft hér uppi varðandi loðnuna. Árum saman barðist ég að vísu gegn því að Færeyingar fengju að veiða lúðu vegna þess að lúðan var á niðurleið og stofn sem er í hættu og þeir fengu þá jafnvel að koma inn fyrir efnahagslögsöguna og veiða hér á haukalóð sem Íslendingar fengu ekki sjálfir einu sinni, og gengu beint á lúðumiðin sem þeir hafa þekkt öldum saman. Það var þáverandi sjávarútvegsráðherra, hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon, sem batt enda á það og ég fagnaði því mjög á sínum tíma. Þessu er fram haldið.

Ég hef alltaf verið svolítið skeptískur á það magn af keilu sem þeir fá að veiða og er nú 750 tonn. Menn geta líka velt því fyrir sér, eins og þeir hafa margoft gert, þegar við höfum verið að klára þessa samninga við Færeyinga, hvort það eigi að leyfa þeim að veiða þorsk eins og þróunin hefur verið hjá okkur. Við höfum alltaf gert það, vegna þess að við erum vinir og frændur Færeyinga, ekki út af neinu öðru, og þeir hafa endurgoldið það þegar þeir hafa getað. Það er þess vegna sem ég er andvígur því ef það á að taka af þeim loðnuna án þess að ræða það og rökstyðja fyrir utanríkismálanefnd. Ég loka ekki á neitt í því máli en ég vil sjá rökin. Og ef það er verið að gera það út af framkomu þeirra í makríldeilunni, ja, þá vil ég fá að ræða það mjög lengi í utanríkismálanefnd. Að öðru leyti er þetta fínn samningur.