143. löggjafarþing — 98. fundur,  28. apr. 2014.

samningur milli Íslands og Færeyja um fiskveiðar innan íslenskrar og færeyskrar lögsögu 2014.

564. mál
[18:47]
Horfa

utanríkisráðherra (Gunnar Bragi Sveinsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður gerir því skóna að ég sé að fara að refsa Færeyingum. Það hefur hins vegar komið fram að ástæðan fyrir því að, og ég hef sagt það hér, ekki er búið að ákveða þessa veiði er slæm staða loðnunnar. Við vitum að síðasta loðnuvertíð var með þeim allra lélegustu, líklega ein sú lélegasta í 30 ár, eitthvað svoleiðis, og þar af leiðandi er það ábyrg ákvörðun, bæði Íslendinga og Færeyinga, sem voru samþykkir því að gera þetta með þessum hætti, að fresta því að ákveða þessa veiði, að endurskoða mögulega þessi 30 þús. tonn ef ekki rætist úr. Það er ekki verið að refsa einum eða neinum, það er einfaldlega verið að horfa á stöðu þessara afurða sem þarna bíða okkar, hvort ástæða sé til að veiða minna eða hvort við getum veitt áfram.

Ég ætla hins vegar ekki að fara í miklar ræður við hv. þingmann þó að hann líti svo á að hann eigi að hafa hér lokaorðið um hver niðurstaðan verður í þessu máli, hvort sem það verður í desember eða fyrr. Þá læt ég það mér í léttu rúmi liggja hver hefur lokaorðið um það. Hér er um að ræða samtal og samkomulag milli Færeyinga og Íslendinga þar sem menn taka þá ábyrgu afstöðu að geyma það að klára þennan hluta vegna þeirrar stöðu sem uppi er varðandi loðnuna. Ég hafna því algjörlega að verið sé að gera því skóna hér úr ræðustól að verið sé að refsa vinum okkar, Færeyingum, með einhverjum hætti þó að við séum ekkert endilega sáttir við hvernig makríllinn endaði.

Svo er það alveg sérstakur kapítuli hvernig á að túlka þessa makrílákvörðun.