143. löggjafarþing — 98. fundur,  28. apr. 2014.

staðfesting samninga um veiðar úr norsk-íslenska síldarstofninum á árinu 2014.

566. mál
[18:52]
Horfa

utanríkisráðherra (Gunnar Bragi Sveinsson) (F):

Virðulegi forseti. Með þingsályktunartillögu þessari er leitað heimildar Alþingis til staðfestingar á samningum um veiðar úr norsk-íslenska síldarstofninum á árinu 2014 sem gerðir voru í Reykjavík 28. mars 2014.

Um er að ræða í fyrsta lagi sameiginlega bókun milli Evrópusambandsins, Íslands, Noregs og Rússneska sambandsríkisins um niðurstöður fiskveiðiviðræðna um stjórn veiða úr norsk-íslenska síldarstofninum í Norðaustur-Atlantshafi á árinu 2014, í öðru lagi samkomulag milli Íslands og Noregs um veiðiheimildir innan efnahagslögsögu Noregs, fiskveiðilögsögu Jan Mayen og efnahagslögsögu Íslands og í þriðja lagi samkomulag milli Íslands og Rússlands um veiðiheimildir innan efnahagslögsögu Íslands.

Á fundum strandríkjanna í London 4.–6. febrúar og í Reykjavík 28. mars sl. náðist samkomulag milli Íslands, Noregs, Rússlands og Evrópusambandsins um veiðar úr norsk-íslenska síldarstofninum á þessu ári. Í samræmi við ráðgjöf Alþjóðahafrannsóknaráðsins, ICES, og fyrri ákvörðun aðila um nýtingarstefnu til lengri tíma var heildaraflamark ákveðið 418.487 lestir. Er það veruleg lækkun frá undanförnum árum en aflamarkið árið 2013 var 619 þús. lestir og árið 2012 833 þús. lestir.

Veiðiheimildir aðila árið 2014 skiptast í sömu hlutföllum og verið hefur frá árinu 2007 og verða á þessu ári eftirfarandi:

Ísland 60.722 lestir, Noregur 255.277 lestir, Rússland 53.650 lestir og Evrópusambandið 27.244 lestir

Vert er að taka fram að samningurinn er gerður, líkt og í fyrra, án þátttöku Færeyja vegna óánægju þeirra með skiptingu stofnsins og hafa Færeyjar sett sér hlutdeild úr stofninum einhliða. Eins og fram hefur komið fór skiptingin á þessu ári engu að síður fram á grunni samkomulagsins frá 2007 en hlutur Færeyinga samkvæmt þeirri skiptingu var settur til hliðar, 21.594 tonn.

Samhliða sameiginlegu bókuninni voru gerðir tvíhliða samningar milli Íslands og Noregs og milli Íslands og Rússlands um heimildir til síldveiða í lögsögu aðila á þessu ári.

Ég legg til, frú forseti, að að lokinni þessari umræðu verði tillögu þessari vísað til hv. utanríkismálanefndar.